Hefur vindurinn minnkað og hafa fjöllin lækkað og fjarlægst?

Fyrir 55 árum var hugmynd um nýjan flugvöll í Kapelluhrauni, skammt frá Hvassahrauni, slegin af eftir að menn höfðu prófað að fljúga flugvélum til skiptis að og frá Reykjavíkurflugvelli í hvassri aust-suðaustanátt, algengustu rok-vindáttinni, og jafnfram að og frá hugsanlegu flugvallarstæði nálægt Hvassahrauni. 

Í ljós kom, að vegna þess að Hvassahrauns/Kapelluhraunsflugvöllur yrði helmingi nær fjöllunum fyrir austan Reykjavik heldur en völlur í Vatnsmýrinni myndi ókyrrð verða svo miklu meiri þar en í Reykjavík, að óráð væri að leggja flugvöll þarna suður frá. 

Nú er því slegið fram af Rögnunefndinni að vindur og veðurfar séu í grunninn svipaður á báðum stöðum, en þá er ekki tekið með í reikninginn að landfræðilegar aðstæður eins og nálægð fjalla, sem vindurinn fer yfir, geta valdið því að miklu verri ókyrrð verði á þeim stað sem nær er fjöllum en þeim stað sem fjær er. 

Vindmælingar niðri við jörð segja ekki alla söguna, því að hættulegasta ókyrrðin er eðli málsins samkvæmt ofar, í aðfluginu og ekki hvað síst í fráfluginu þegar flogið er í átt að Reykjanesfjallgarðinum. 

Eina raunhæfa leiðin til þess að rannsaka þetta er að gera það sama og gert var fyrir rúmlega hálfri öld, að gera aðflug og fráflug að báðum vallarstæðunum í algengustu hvassviðrisáttinni á sama tíma.

Meðan það hefur ekki verið gert, er aðeins verið að stefna að óþörfum mistökum vegna ónógra upplýsinga og Vaðlaheiðargöngin virðst vera gott dæmi um.

Síðan má benda á hvar helst er ófærð á Reykjanesbrautinni og að það kann að vera kominn tími á nýja eldgosahrinu á Reykjanesskaga.

Lítil hætta er á því að hraun muni renna niður í Fossvog og inn í Vatnsmýrina.

 

P.S. Svo má bæta því við að samanlögð ferðaleið flugfarþega sem færu til og frá Hvassahraunsflugvelli lengist til allra áfangastaða á landinu nema Vestmannaeyja miðað við það að fara frá núverandi flugvelli.

Leiðin Reykjavík-Akureyri-Reykjavík myndi lengjast samtals um tæplega 80 kílómetra fram og til baka, en það samsvarar því í kílómetrum að á landleiðinni um þjóðveg 1 yrði aftur farið að aka fyrir Hvalfjörð fram og til baka.

Lenging austur-vestur brautarinnar í Reykjavík myndi gerbreyta umferð um völlinn og bæta hann, minnka umferð til norðurs og suðurs og gera mögulega notkun hljóðlátra millilandaflugvéla ef menn vildu eiga möguleika á því.

Aðflug og fráflug á þeirri braut eru að austanverðu yfir autt svæði í Fossvogsdal og að vestanverðu yfir sjó úti á Skerjafirði og þessi braut liggur beint upp í algengustu hvassviðrisvindáttina.  


mbl.is Hvassahraun kemur best út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugaverð keppni. Svefnleysið áhyggjuefni.

Manni þótti það góður árangur hér í gamla daga í kringum 1955 að ná 20 kílómetra meðalhraða á klukkustund í langhjólreið á gamla krókótta malarveginum sem þá hlykkjaðist hringinn í kringum landið, en vantaði þó í á Skeiðarársandi. 

Það reiðhjól var þó aðeins tveggja eða þriggja gíra (ég man ekki hvort var) en með eina fjaðrandi framgafflinum á landinu. 

Þetta kostaði svo mikla orkueyðslu, að töskurnar á bögglaberanum, sem voru fullar af mat í upphafi ferðar í Reykjavík, voru orðnar tómar í Ferstiklu og aftur tómar við Bifröst.   

35,5 kílómetra meðalhraði er ekkert smáræði, jafnvel þótt hjólað sé á góðum malbikuðum vegi á fullkomnum margra gíra hjólum. 

Líkamleg áreynsla sem liggur að baki slíkri hraðferð er þó ekki það erfiðasta, heldur svefnleysið, sem getur verið varasamt og er áhyggjuefni. 

Til eru frásagnir af því að menn hafi hreinlega sofnað í mikilli líkamlegri áreynslu. 

Þannig varð Ásmundur Bjarnason fyrir svo miklu ónæði nóttina fyrir úrslitahlaupið í 200 metra hlaupi á Evrópumeistaramótinu í Brussel 1950, að hann "sofnaði" í síðari hluta beygjunnar.

Hann hreinlega "datt út", mundi ekkert eftir þessum hluta beygjunnar eftir á, og taldi eftir hlaupið að þetta hefði rænt hann möguleikunum á verða sæti framar í hlaupinu, jafnvel að komast á verðlaunapall.

Fjöldi þátttakenda í hinu stórgóða WOW Cyclothon er það mikill að sennilega er útilokað að gefa keppenndum færi á að sofna og hvíla sig í sérstöku hléi undir eftirliti á miðri leið, án þess að fá refsingu fyrir það.

Fyrir bragðið er tekin ákveðin áhætta með því að keppendur sofi ekkert sólarhringum saman og að það endi með slysi.  


mbl.is Ætlar að leggja sig í hálftíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband