Stór hluti hálendisvega er opinn.

Í fyrirsögninni "beinlínis akstursbann á hálendinu" er alhæfing sem stenst ekki hvað varðar það, að umferð sé bönnuð almennt á hálendinu.

Á korti Vegagerðarinnar sést að Kaldidalur, Kjölur og Sprengisandsleið eru opnar.

Á Suðurhálendinu er Dómadalsleið opin til Landmannalauga, einhver fegursta og skemmtilegasta hálendisleiðins, og einnig leiðin frá Sigöldu í Landmannalaugar, og Lakaleið að hluta auk vestari hluta Fjallabaksleiðar syðri. 

Á norðan- og austanverðu hálendinu eru opnar tvær leiðir inn í Herðubreiðarlindir og Öskju, Álftadalsleið, leiðir í Grágæsadal og að Sauðárflugvelli og Brúarjökli, Þríhyrningsleið, Laugavallaleið, Jökuldalsheiði, Brúardalaleið, Kárahnjúkavegur og vegurinn austur á Hraun.

Fært er um Flateyjadalsheiði.

Er einhver ástæða fyrir alla til að kvarta og kveina?  


mbl.is Beinlínis akstursbann á hálendinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjöllurnar frá 1918 og 1919 hringja.

11. nóvember 1918 neyddust Þjóðverjar til að gefast upp í Fyrri heimsstyrjöldinni þótt her þeirra væri enn á erlendri grund og enginn erlendur hermaður innan landamæra Þýskalands. 

Í kjölfar vopnahlésskilmálanna og Versalasamningunum 1919 gerðist það að Evrópuþjóð var niðurlægð á þeim forsendum að hún hefði átt sök á Fyrri heimsstyrjöldinni og væri því ekki nema sanngjarnt og eðlilegt að hún léti stór landssvæði af hendi og borgaði himinháar skaðabætur. 

Fljótlega kom í ljós að borin von yrði að þjóðin gæti borgað þessar skaðabætur sætt sig við það að landið væri klofið í tvennt, og auðmýkingin frá 1918 og 1919 varð tilefni fyrir Adolf Hitler til þess að brjótast til valda undir kjörorðinu: "Aldrei aftur 1918!" með alþekktum afleiðingum.

Eftir á hafa verið færð að því rök að þessir samningar hafi verið á skjön við raunsæispólitík (realpolitik). Brotið hafi verið lögmálið "stjórnmál eru list hins mögulega." 

Í morgun var Evrópuþjóð niðurlægð á þeim forsendum að hún ætti sjálf sök á fjárhagslegum óförum sínum og skuldum við erlenda lánardrottna og því væri ekki nema eðlilegt og sanngjarnt að hún borgaði sjálf brúsann með stórfelldu afsali á sjálfstæði sínu og efnahagslegri stjórn til að hún gæti borgað skuldir sínar.

Og það fylgdi með að lánardrottnar hefðu tryggingar fyrir því að það yrði gert í samræmi við afar harða skilmála, meira að segja með beinu veði í stórum ríkisreknum fyrirtækjum og mannvirkjum í Grikklandi.

Bjöllurnar frá 1918 og 1919 hringja. Gengur þetta upp núna? Stenst þetta kröfurnar um raunsæisstjórnmál, að stjórnmál séu list hins mögulega?

Eða stenst þetta núna af því að þjóðin, sem í hlut á, er átta sinnum minni en þjóðin, sem auðmýkt var 1918 og getur því enga rönd við reist?

Grikkir eru nefnilega aðeins 2% af mannfjölda ESB. Hin ríkin bera sameinuð ægishjálm yfir þá og í hópi þeirra ríkja, sem andvígastir eru miskunn við Grikki, eru mörg af smærri ríkjunum.

Og stóru ríkin vilja ekki gefa fordæmi fyrir eftirgjöf til handa öðrum ríkjum, sem skulda mikið.

20 ár liðu þar til að Versalasamningarnir voru að fullu rofnir og styrjöld brast á.

Eftir seinna stríðið tóku Rússar heilu þýsku verksmiðjurnar og fluttu þær til Rússlands. 

Hvað verður gert ef Grikkir gefast upp við að borga? 

Hvernig fer nú? Bjöllurnar frá 1918 og 1919 hringja.     


mbl.is Uppgjöf eða nauðsyn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað áfram stærstur, mestur, flottastur og dýrastur !

2007 er aftur gengið í garð! Húrra! Þá var kjörorðið: Landsbankinn á að verða stærstur, mestur flottastur og dýrastur!

Bankinn var þá í einkaeigu, hafði fram til 2002 verið í eigu þjóðarinnar á "hóteli Mömmu", en síðan verið nánast gefinn í einkavinavæðingu til þess að verða laus við mömmu.

Tæknilega var hann í einkaeigu, fluttur að heiman, og það var eigendanna að ákveða hvað þeir gerðu við alla loftbólupeningana, sem búið var að afla til þess að reisa stærsta monthús allra tíma á mest áberandi og dýrasta staðnum í borginni.

2OO6 voru bankarnir tæknilega gjaldþróta í laumi og síðan hrundi spilaborin 2008.

Þjóðin tók bankann að sér eftir Hrunið og leyfði honum að koma heim í skjól "hótels Mömmu".

En er sá tími greinilega liðinn, sem mömmu kemur það við, þótt aftur sé hrópað: Stærstur, mestur, flottastur og dýrastur!

Á Grensássvæðinu býðst bankanum helmingi ódýrari lóð en við Austurhöfnina og býðgst í raun hálfur milljarður í sparnað strax í upphafi ef byggt væri þar á stað, sem er í raun nær miðju íbúðabyggðarinnar og atvinnubyggðarinnar á höfuðborgarsvæðinu en Austurhöfnin.

En þá er hætt við að glæsibyggingin rati ekki inn á myndinar sem ferðamennirnir taka.

Sá dýrasti, stærsti, mestur og flottasti verður að vera með á myndunum af miðbænum, Austurvelli og Lækjartorgi og algert skilyrði að hann skyggi á Esjuna á þessum myndum, eins ljót og hún er nú, líkt við fjóshaug í einni kosningabaráttunni hér um árið.    


mbl.is Höfuðstöðvarnar verða þær stærstu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. júlí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband