Gamalkunnar andstæður blossa upp.

Ógnarstjórn Stalíns kostaði milljónir manna lífið í Úkraínu í hinni miskunnarlausu byltingu kommúnista þar sem færðar voru óheyrilegar fórnir til að koma á ríkisreknum samyrkjubúskap og þungaiðnaði.

Íbúar Úkraínu, sem hafði verið kornforðabúr Sovétríkjanna, urðu illa úti.  

Þegar herir Hitlers réðust inn í Sovétríkin 1941 fögnuðu því margir Úkraínumenn innrásinni og tóku jafnvel hersveitum Hitlers sem frelsurum, en Hitler gerði þau reginmistök í oflæti sínu að gefa hinum morðóðu SS-sveitum lausan tauminn og fá þar með þorra íbúa Sovétríkjanna upp á móti Þjóðverjum. 

Það var mikil mótsögn fólgin í því að þungaiðnaðurinn, sem hafði kostað milljónir manna lífið, varð grunnurinn að sigrinum yfir Hitler. Á stríðsárunum var þó mestu hluti þessa iðnaðar í Rússlandi.

Eftir stríð var mikill þungaiðnaður í Donetsk-héraði í austurhluta Úkraínu og gegndi stóru hlutverki í uppbyggingu hernaðarveldis Sovétríkjanna.ZAZ og Pútín

Pútín hafði til dæmis mikið yndi af því að stilla sér upp við hliðina á úkraínskum fólksvagni Sovétríkjanna á yngri árum hans af gerðinni Zaphorozhets og láta taka mynd af sér,og þarna voru til dæmis framleiddur drjúgur hluti af hergögnum Sovétríkjanna.  

Eftir lát Stalíns 1953 var það vafalítið ætlun "hinnar samhentu forystu" sem fljótlega færðist í hendur Krústjovs, að friðmælast við Úkraínumenn með tilfærslum landamæra, sem færði Krímskaga undir yfirráð Úkraínumanna.

En þarna sá Krústsjov ekki nógu langt fram í tímann og þegar Sovétríkin féllu og "moldin þiðnaði og ormarnir komu upp", bæði langt til hægri og vinstri í hinu pólitíska litrófi birtus gamalkunnar öfgar í landinu.

Öflugur hluti þeirra sem steyptu hinum Rússa-hliðholla Janukovits af stóli voru menn yst á hægri væng stjórnmálanna, með hálffasíska stefnu, sem hafði blundað alla tíð í landinu, þótt í mismiklum mæli væri.

Í austurhéruðunum voru hins vegar rússneskumælandi menn sem höfðu flust þangað á Sovéttímanum og milli þeirra og hægri mannanna í vesturhluta landsins var og er hyldjúp gjá.

Ofan á þetta bætist, að Donetsk svæðið er dýrmætasta iðnaðarsvæði Úkraínu, og á tímum núverandi efnahagsörðugleika bæði í Rússlandi og Úkraínu, láta bæði ríkin sig miklu skipta að hafa þar ítök.

Gamalkunnar andstæður hafa nú blossað upp sem geta gert ástandið þarna enn eldfimara og hættulegra en það hefur verið.    


mbl.is Köstuðu bensínsprengjum að þinghúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað, ef Fljótaleiðin hefði verið valin?

Í umræðum um aurskriðurnar á Siglufirði og vikulanga lokun Siglufjarðarvegar hefur réttilega verið bent á það að Siglfirðingar hefðu verið innilokaðir á landi ef Héðinsfjarðargöng hefðu ekki verið komin. 

Engu að síður er þjóðleiðin frá Siglufirði vestur um til Skagafjarðar og áfram suður tugum kílómetra lengri en ella meðan hin gamla Siglufjarðarleið er lokuð. 

Ef farin hefði verið svonefnd Fljótaleið á sínum tima við að tryggja samöngur til og frá Siglufirði, bæði til suðvesturs og til Eyjafjarðarsvæðisins, hefðu aurskriðurnar engu breytt um það að leiðin frá Siglufirði til Skagafjarðar og Norðvestur- Vesturlands og Suðurlands hefði verið opin allan tímann og meira að segja allmörgum kílómetrum styttri en núverandi Siglufjarðarleið. 


mbl.is Siglufjarðarvegur áfram lokaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjávarþorpin íslensku áhugaverð fyrir útlendinga.

Við Íslendingar sjáum því miður flestir ekkert merkilegt við sjávarþorpin okkar víðsvegar um landið. Þau hafa jafnvel fengið niðrandi heiti í munni margra eins og "krummaskuð." 

Í nafni hagræðingar í sjávarútvegi hafa þau flest verið svipt því lífi og athöfnum sem fyrrum einkenndi þau.

Þegar erlent skemmtiferðaskip leggst að bryggju í Grindavík telst það stórfrétt að útlendingar skuli sjá nokkuð merkilegt þar.

Það er nú eitthvað annað en glæsileg steinsteyputurnaröðin við Skúlagötu í Reykjavík.

Í þessu viðhorfi okkar birtist landlæg þröngsýni á það hvaða verðmæti á alþjóðavísu felist í þjóðlífi okkar og landfræðilegum aðstæðum.

Við höfum lengi haldið að það sem okkur sjálfum finnst merkilegt og óvenjulegt hljóti ferðamönnum frá fjarlægum þjóðum líka að finnast merkilegast og óvenjulegast, svo sem grösugir dalir, Hallormsstaðaskógur og Fljótshlíðin með sínum græna lit, "bleikum ökrum og slegnu túnum." 

Útlendingar hljóti eins og við að sjá ekkert nema ljótleika í svörtum hraunum og söndum og rytjulegum fiskiþorpum með "slori" og "húskofum." 

En þessu er þveröfugt farið. Í Evrópu eru þúsundir glæsilegri skóga og grösugri dala en finnast á Íslandi,og reynsla mín af því að fara með útlendinga það sem ég nefni "Silfur-hálfhringinn" til aðgreiningar frá "Gullna hringnum" er sú, að þeir töldu sig að sumu leyti hafa séð merkilegri staði á þeirri leið en Gullni hringurinn bauð upp á. 

"Silfur-hálfhringurinn" er leið, sem ég hef farið með útlendinga, sem hafa átt lítinn frítíma á helgarráðstefnum í Reykjavík og ekki haft tíma til að fara Gullna hringinn. 

Í staðinn hef ég brottfarardaginn lengt leiðina suður á Keflavíkurflugvöll með því að fara leiðina Kaldársel-Krýsuvík-Grindavík-Bláa lónið-Eldvörp - Keflavíkurflugvöllur. 

Að vísu er enginn Geysir, Gullfoss eða Þingvellir á þeirri leið, en í staðinn sjá þeir staði, sem ekki eiga hliðstæðu á Gullna hringnum, svo sem Kaldársel, Grindavík, Bláa lónið og Eldvörp. 

Einkum hefur það hrifið þá þegar þeim hefur verið greint frá lífsbaráttu Grindvíkinga fyrr á tíð, því að útlendingar hrífast af því hvernig íslenska þjóðin gat lifað af við þær erfiðu aðstæður sem hér voru. 

Sambýli þjóðar í stórbrotinni náttúru við erfið skilyrði "á mörkum hins byggilega heims" er þeim hugstætt eftir slíka ferð. 

Mér er minnisstætt þegar í einni svona hálfhrings-silfurferð var farið um Grindavík í suðvestanátt með hvössum skúrum. Ég kveið fyrir því að óhagstætt veður myndi skemma fyrir. 

En það var öðru nær. 

Útlendingarnir tóku andköf þegar staðið var andspænis lemjandi útsynningnum og hvítfyssandi brimgarðinum og því lýst hvernig sjómennirnir á hinum litlu bátum sínum þurftu að komast inn um þrönga innsiglinguna og lentu oft í miklum háska.

Gullni hringurinn býður ekki upp á neina slíka upplifun né upplifun á borð við það að horfa eftir gígaröðinni Eldvörpum, fyrirbæri, sem hvergi sést á jörðinni nema á Íslandi og heyra lýsingarnar á því hvernig slík gígaröð verður til þegar meginlandsflekar Ameríku og Evrópu rifna hvor frá öðrum og jarðeldurinn brýst upp um gjána á milli heimsálfanna.   


mbl.is Óvænt sjón í Grindavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband