Engin þjóðaratkvæðagreiðsla var í Þýskalandi á valdatíma nasista.

Hvernig væri nú að fara rétt með staðreyndir um þjóðaratkvæðagreiðslur og nasismann? 

Adolf Hitler komst til valda eftir þeirri aðferð, sem Páll Vilhjálmsson telur hina einu réttu, þ. e. með kosningu eftir reglum fulltrúalýðræðisins. Nasistar buðu fram í þingkosningum og notuðu annars vegar þingfylgi sitt með samningamakki og refskap og hins vegar ofbeldi og yfirgang utan þings til þess að ná völdum.   

Þannig fékk Hitler vald sitt, og þetta vald notaði hann við fyrsta mögulega tækifæri til að láta þingið setja neyðarlög sem færðu honum í raun einræðisvald, gerð hann að æviráðnum "Foringja" og útrýmdi lýðræði í landinu.

Engar þjóðaratkvæðagreiðslur voru í Þýskalandi allan valdatíma nasista né heldur í aðdraganda þeirrar valdatöku, og engin þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram um Hitler sjálfan. 

Valdataka hans varð til í gegnum fulltrúalýðræðið.

Eina pólitíska atkvæðagreiðslan var í Saar-héraðinu 1935 um það hvort íbúarnir vildu hafa héraðið í Þýskalandi eða í Frakklandi.

Þetta hérað er svo örlítið brot af Þýskalandi að atkvæðagreiðslan þar snerti aðeins brot af þjóðarinnar.  

 

P.S. Fimbulfambið um böl þjóðaratkvæðagreiðslna heldur áfram hér á blogginu og fullyrt að þær valdi stjórnleysi hvar sem þær eru við hafðar.

Ekki er nefnt eitt einasta land í Evrópu þar sem slíkt ástand er og eru þó nokkur ríki í álfunni sem hafa ákvæði í stjórnarskrár sínum um þjóðaratkvæðagreiðslum, sem þykja þó með einna stöðugast stjórnarfarið.

Sviss er frægt fyrir atkvæðagreiðslur sínar en þó með eitthvert stöðugasta stjórnarfar sem þekkist á byggðu bóli.  Reglur um atkvæðagreiðslur eru strangar og fastmótaðar, þannig að það líða nokkur misseri eða jafnvel ár frá því að fyrst er farið af stað með þær þar til þær eru haldnar.   


mbl.is Of fráleitt til að móðgast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af sem áður var.

Árið 2007 heyrði ég sögu af ungum hjónum, sem eftir að hafa orðið fyrir miklum þrýstingi af hálfu viðskiptabanka síns, fóru á stúfana og léku sér að því að taka meira en 30 milljón króna lán, hugsanlega 50 milljónir á núverandi verðlagi og þetta tók ekki nema rúma viku.

Þau keyptu stóra íbúð, miklu stærri en þau þurftu, amerískan pallbíl og áttu þá afgang til þess að kaupa ferð til Karabíska hafsins til þess að hvíla sig eftir erilsama viku!

Allt gekk þetta ljúflega í gegn vegna dagskipunar ofan frá í bankanum til þjónustufulltrúanna um að lána sem allra mest og fá í staðinn því meiri bónus vegna vel unninna starfa sem lánin voru stærri og fleiri.

Nú er eins og þetta hafi snúist við ef marka má ýmsar sögur af því hvernig ótrúlegasta fólk kemst ekki í gegnum greiðslumat, því sjálfu til mikillar undrunar. 

Það má með sanni segja, að auðræðið, lang sterkasta aflið í lífi þjóða heims, taki oft á lítt skiljanlegan hátt á sig margvíslegar myndir.


mbl.is Þingmaður stóðst varla greiðslumat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstök rödd Óðins og flutningur hins ungverska lags.

Ferill Óðins Valdimarssonar sem söngvara var ekki langur, innan við áratugur, og maðurinn sjálfur varð ekki langlífur og virtist hverfa fljótar í tímans straumi en efni stóðu til. 

Hann kom fram á þeim tíma þegar bæði Haukur Morthens og ekki síður Ragnar Bjarnason voru kóngarnir í dægurlagasöngnum og Óðinn söng hvergi nærri eins mörg lög og þeir inn á plötur.

Blómatími hans var því þeim mun athyglisverðari. 

Þar að auki söng hann ekki nema stuttan tíma í Reykjavík, en þá með KK-sextettinum, sem var nokkur gæðastimpill. 

Óðinn var í framvarðasveit tónlistarmanna á Akureyri, sem með snjöllum og sérstæðum útsetningum afbragðs tónlistarmanna tókst að ná eyrum landsmanna svo um munaði.

Lagið "Ég er kominn heim", ósköp yfirlætislaust lag, ungverkst að uppruna, öðlaðist alveg nýtt líf í stórgóðri útfærslu Óðins og Eydalsbræðra, - varð hvergi eins vinsælt og á Íslandi. Þar réði mestu hin bjarta og silkimjúka rödd Óðins og túlkun hans á stórgóðum og rammíslenskum texta Jóns Sigurðssonar í bankanum, - rödd sem var auðþekkjanleg alla tíð. Í dægurlagasamkeppni hljómsveitar Svavars Gests söng Ragnar Bjarnason lagið "Lipurtá" til sigurs og gerði það mjög vinsælt, en lagið sem Óðinn söng, "Aðeins vegna þín", féll alveg í skuggann og hefur varla heyrst síðan.    

Það var að ósekju að mínu mati, - Óðinn söng þetta lag firnavel og mætti vel rifja það upp að nýju. 

Óðinn söng afar skýrt alla tíð og ekki skemmdu góðir textar Jóns í bankanum og fleiri fyrir. 

Ég kynntist Óðni nokkuð vel, var sjálfur að syngja á plötukynningum þessa tíma ásamt honum, og var heimagangur sem skemmtikraftur í Sjallanum meðan hann söng þar.

Hann söng hvern smellinn á fætur öðrum, og bandaríska kántrílagið Tom Dooley, varð að rammíslenskum gullmola í meðferð Óðins og Eydalsbræðra við texta Jóns í bankanum.  

Óðinn hefur staðið hjarta nær alla tíð síðan, átti við skæðan sjúkdóm að stríða, Bakkus konung, sem leggst á menn á öllum aldri og fer ekki í manngreinarálit, heldur leggur jafnt hina hæfustu afbragðsmenn að velli sem aðra. 

Ég minnist eins kvölds í Sjallanum 1968, þegar þessi stórkostlegi söngvari var ekki nema skugginn af sjálfum sér, búinn að missa allan neista.

Áhuginn og sönggleiðin, sem hafði fyrrum gert honum kleyft að skína skært, var víðs fjarri. 

Þarna sat hann, heillum horfinn, dapur og lífsleiður, á bak við sviðið og þjóraði, og Ingimar Eydal hljómsveitarstjóri átti í mestu vandræðum með að tjónka við hann og þræla honum fram á sviðið til að vinna fyrir kaupinu sínu og sinna gömlum aðdáendum sínum.

Hver sem horfði upp á þetta hefði þá ekki látið sér detta í hug að hálfri öld seinna myndi afrakstur frammistöðu þessa afbragðs söngvara skína verðskuldað jafn skært á stærstu stundum Íslendinga á tugþúsunda samkomum erlendis sem milljónir manna sæu í sjónvarpi.

Þess vegna kemur það við hjartað að minnast Óðins Valdimarssonar og harma, að hann skyldi ekki í lifanda lífi fá að njóta til fulls þeirrar guðsgjafar, sem rödd hans og túlkun var.   


mbl.is Söngur Óðins ómar enn þá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins ein jörð.

"Við lifum öll á sömu jörðinni, öndum öll að okkur sama loftinu, eigum öll afkomendur, sem okkur er annt um og erum öll dauðleg". 

Þetta sagði John F. Kennedy Bandaríkjaforseti í einni af síðustu ræðunni, sem hann hélt, áður en hann var drepinn. 

Þegar hlustað er á lag poppstjarnanna í tengdri frétt á mbl.is er kannski viðeigandi að setja niður hlulta úr ljóðinu "Aðeins ein jörð": 

 

Aðeins ein jörð. 

Það er ekki´um fleiri að ræða. 

Takmörkuð er á alla lund 

uppspretta lífsins gæða. 

.....

 

Aðeins ein jörð. 

Um hana stormar næða. 

Auðlindir þverra ef að þeim er sótt

aðeins til skamms tíma´að græða. 

 

Aðeins ein jörð. 

Afglapasporin hræða. 

Lögmálið grimma lemur og slær

og lætur ei að sér hæða: 

Ef deyðir þú jörðina, deyðir hún þig

og deyjandi mun þér blæða. 

 

Aðéins ein jörð

samt alla mun fæða og klæða

ef um hana standa viljum vörð, 

vernda´hana og líf hennar glæða, - 

elska þessa einu jörð, -

það er ekki´um fleiri að ræða. 

 

 


mbl.is Að elska jörðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband