Stuðhelgi í íslenskum íþróttum?

Það virðist óvenjuleg stuðhelgi í uppsiglingu á íþróttasviðinu hér á landi.

Fyrst kom annar sigurinn í röð yfir Hollendingum í undankeppni EM í fyrradag, eitthvað sem aldrei hefur gerst áður hjá þeim, síðan magnaður körfuboltaleikur við firnasterka þjóðverja í lokakeppni EM í dag, þar sem íslensku strákarnir sáu til þess að Þjóðverjar voru ekki vissir um sigur fyrr en á lokasekúndunum, og svo þetta, mikill sigur U21 knattspyrnulandsliðsins yfir sjálfum Frökkum í dag. 

Og á morgun er möguleiki á að íslenska knattspyrnulandsliðið verði komið inn í EM jafnvel áður en leikurinn við Kazaka hefst. 


mbl.is „Þetta er bara stórkostlegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einu sinni voru þúsundir Íslendinga flóttamenn.

Sú var tíð að fimmtungur íslensku þjóðarinnar flutti til Vesturheims, og var ekki alltaf talað vel um þá vestra. 

1976 fór ég með hjón frá Manitoba í ferð norður í land, og var ætlunin að fara til þess staðar þar sem afi og amma höfðu búið, áður en þau fluttu vestur. 

Bærinn hafði staðið uppi á heiði sunnan Víðidals og var hægt að komast eftir jeppaslóða að eyðibýlinu. 

Þaðan var víðsýnt til allra átta, hringur húnvetnsku fjallanna og Eiríksjökull gnæfði í allri sinni dýrð yfir heiðalöndin í suðaustri. Það var bjart en auðvitað svolítið svalt þarna uppi.

Hjónin stóðu við rústir bæjarins og ég sá að þau grétu.

Ég spurði þau hvort þau væru svona hrifin af fegurðinni.

"Nei," sögðu þau. "Hvers vegna grátið þið þá?" spurði ég.

Þegar við vorum krakkar var mikið talað um það hvað landið, sem afi og amma fóru frá, væri fagurt og gjöfult, og látið í það skína að þau hefðu svikið land sitt og þjóð og farið til Vesturheims í tómri græðgi, enda hlytu þau að hafa verið vel stæð, fyrst þau fluttust svona langa leið til þess eins að ryðja sér til rúms á kostnað annarra. Nú sjáum við að þau höfðu svo sannarlega fulla ástæðu til þess að flýja þessar ömurlegu slóðir þar sem verið var að berjast fyrir því að komast af við óbærilegar aðstæður. Þess vegna grátum við."

Nú eru þeir ansi margir sem tala á svipaðan hátt um Sýrlenska flóttamenn. Ég ræddi um daginn við landa minn, sem er afar vel að sér í alþjóðamálum og því ástæða til þess að heyra hvað hann hefði til málanna að leggja. 

Hann sagðist hafa alist upp á höfuðbóli þar sem oft komu margir af undirmálsfólki og þurfalinga þess tíma, og hann hefði fljótlega komist að því að þetta væri upp til hópa rumpulýður og ekki að marka orð sem það segði.

Hann sagðist hafa fylgst með kosningabaráttu Donalds Trump sem væri yfirburðamaður í bandarískri pólitík og því engin furða að sjónarmið hans varðandi þann óþjóðalýð, sem gerðist ólöglegir innflytjendur í Bandaríkjunum ætti miklu fylgi að fagna. Sem kunnugt er sagði Trump um daginn að full ástæða væri ástæða til að íhuga það í alvöru að hreinsa landið af þeim ellefu milljónum ólöglegra innflytjenda sem væru þar.  

Þessi vinur minn sagði, að svipað gilti um flóttafólk frá Sýrlandi. Þetta væri upp til hópa glæpalýður og misyndisfólk sem stefndi að því að grafa undan vestrænum samfélögum og koma ár sinni enn betur fyrir borð í Evrópu en í heimalandinu, því að auðvitað væri þetta fólk vel stætt, annars hefði það ekki efni á að fara úr landi. 

Inn á milli væri að sjálfsögðu fólk, sem væri í neyð, en það væri alger undantekning. 

Þetta mat þessa vel menntaða og afar fróða manns um erlend málefni leiddi huga minn að Íslendingunum, sem fóru frá Íslandi alla leið vestur til Utah í Bandaríkjunum á tímum vesturfaranna. 

Það er ein áhrifamesta stund sem ég minnist, að standa við eina af mörgum gröfum Íslendinga í kirkjugarðinum í bænum Spanish fork, suður af Salt Lake City. 

Á legsteinum í nokkrum þessara grafa var stór gylltur borði á steininum með þessari áletrun: "Faith in every footstep", - "trúartraust í hverju spori.

Hann var á legsteinum þeirra sem gengu alla síðustu 2400 kílómetrana yfir slétturnar og Klettafjöllinn til fyrirheitna landsins í Paradísarheimt.

En legsteinninn, sem snart mig mest, var á gröf konu frá Vestmannaeyjum sem gekk alla þessa leið og hlaut þennan heiður fyrir það mikla afrek sem fólst í þessari göngu og því að hafa komist lifandi af, því að margir dóu á leiðinni, náðu aldrei takmarki sínu og fengu aldrei neinn legstein, hvað þá gylltann borða á hann.

Á þessu ári hafa þúsundir Sýrlendinga hafa ekki náð takmarki sínu og drukknað í Miðjarðarhafinu.

Fjöldi vel menntaðra Íslendinga, sem meira að segja eru afar vel að sér í alþjóðamálum, afgreiðir þetta flóttafólk sem glæpahyski mestan part, sem stefni að því að kollvarpa samfélögum Evrópu.

Fróðlegt væri heyra þá gera samanburð við það íslenska flóttafólk, sem flúði óbærileg lífsskilyrði og afleiðingar harðinda og stórs eldgoss á Íslandi á síðari hluta 19. aldar og var tilbúið til að fórna lífinu í þeirri vegferð.     

 


mbl.is Vill hýsa flóttamenn í sumarhúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðasti hlýi heiðríkju sumardagurinn syðra?

Þeir sem búa á sunnanverðu landinu þurftu ekki að kvarta í dag. Það var heiðríkt yfir Suðurlandi þegar flogið var og teknar fyrstu myndirnar fyrir nýja röð af þáttunum Ferðastiklum.IMG_7060

Það var veður til að skapa.  

Hekla og jöklarnir skörtuðu sínu fegursta og það var blíðviðri á jörðu niðri og allir litir sumarskærir og landslagið skarpt og fagurt.

Ennþá er mikið meiri snjór á ýmsum svæðum, sem liggja hátt, eins og á Heklu og Fimmvörðuhálsi. Huldufoss, Mýrdalsjökull 

En nú er svo að sjá að það séu samfelldir úrkomudagar framundan á sunnanverðu landinu, en fólk fyrir norðan og austan fær í staðinn uppbót á svalan fyrri part sumars. 

 

Stórir fossar, sem renna af mestum krafti úr jöklunum á sumrin, voru í stuði í dag eins og sjá má. Steinholts-jökull, Eyjafj.jökull


mbl.is Besta veðrið norðaustanlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband