Hamast gegn Andra Snæ. Ógeðfelld umræða.

Engu er likara en óvægin herferð sé hafin gegn Andra Snæ Magnasyni með ásökunum um að hann eigi ekki skilið listamannalaun og gengið er svo langt að fullyrða að hann hafi aðeins skrifað eina bók á síðustu tíu árum og hafi fengið 37 milljónir króna fyrir það úr ríkissjóði.

Þetta étur hver upp eftir öðrum og einn bloggarinn dæmir Andra Snæ þess óverðugan að nafn hans sé nefnt sem forsetaframjóðanda.

Ósannindin um verk Andra Snæ eru gróf. Á téðu tíu ára tímabili komu út tvær bækur Andra Snæs sem báðar fengu Íslensku bókmenntaverðlaunin, hann skrifaði og leikstýrði Edduverðlaunamyndinni Framtíðarlandinu, og skrifaði leikrit fyrir Borgarleikhúsið sem var tvívegis tekið til sýningar á nefndum áratug.

Gagnrýnendur taka ekkert tillit til þess að það tekur meira en eitt ár að skrifa flest góð ritverk og sé tekið tillit til þess kemur í ljós að Andri Snær rétt slefar yfir 300 þúsund krónur á mánuði í starfslaun.

Það er ekki nýtt að hamast sé gegn rithöfundum.

Á árunum eftir útgáfu Íslandsklukkunnar reyndu áhrifamiklir menn að svipta Halldór Laxness listamannalaunum og tókst að lækka þau á tímabili.  

Engan óraði þá fyrir því að þessi rúmlega þrítugi rithöfundur fengi Nóbelsverðlaun tuttugu árum síðar og að Sjálfstætt fólk, verkið sem óvildarmenn hans töldu réttlæta að svipta hann starfslaunum, yrði síðar talið hans merkasta verk.

Á árunum 1940 til 1950 skrifaði Halldór tvær bækur og þýddi eina og samkvæmt rökum gagnrýnenda Andra Snæs hefði Laxness ekki átt að vera "áskrifandi að listamannalaunum" þessi ár. 

Nú þegar, áður en nokkur hefur formlega boðið sig fram til embættis forseta Íslands, er umræðan orðin ógeðfelld og neikvæð, þar sem mesta orkan og umræðan fer í það að níða niður hugsanlega frambjóðendur. Svo virðist sem þetta sé gert til að fæla hæft fólk, sem gagrýnendum er í nöp við, frá því að bjóða sig fram.

 

  

 


mbl.is „Fólk leyfði sér að vera ákaflega óvægið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. janúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband