Hærra veiðigjald og auðlegðarskatt aftur?

Veiðigjaldið sem er búið að lækka, er smábrot af arðinum af sjávarauðlindinni.

Sá hluti þjóðarinnar sem ríkastur er ætti auðvelt með að taka á sig auðlegðarskattinn að nýju.

Það mætti líka hægja aðeins á lækkun skulda ríkissjóðs.

Þetta þrennt myndi að vísu ekki fara alla leið í einu vetfangi til að hækka framlög til heilbrigðismála upp í 11% af vergri þjóðarframleiðslu en samt þýða umtalsverð umskipti frá því sem nú er og hefur verið.


mbl.is Hugmyndir Kára kalla á skattahækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjá hverjum eru þingmenn og ráðherrar í vinnu?

Oft mætti ætla af umræðumum skoðanakannanir, undirskriftalista og þjóðaratkvæðagreiðslur að þingmenn og ráðherrar séu í vinnu hjá sjálfum sér og engum öðrum.

Oft er vitnað í eið þingmanna um að fylgja einungis eigin sannfæringu og víst er það mikilvægt.

En það breytir ekki því að þeir sækja umboð sitt til kjósenda og eiga að vinna í samræmi við almannahagsmuni.

Nú er gangi undirskrifasöfnun um stærsta útgjaldalið fjárlaga og það svið þjóðlífsins sem snýst öðrum fremur um líf og heilsu landsmanna.

Byrjar þá ekki hræðslusöngurinn um stjórnleysi og öngþveiti og almennt um það að þjóðin sjálf megi alls ekki tjá hug sinn eða ráða neinu beint um eigin mál.

En hjá hverjum eru þingmenn og ráðherrar í vinnu?


mbl.is Reiknar með ásökunum um lýðskrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveir einstæðir tapleikir í röð var of mikið.

Ég er að leita í huganum að hliðstæðu þess að íslenskt landslið í handbolta hafi fengið á sig samtals hátt í 80 mörk í tveimur mikilvægum leikjum í röð á stórmóti, en finn enga hliðstæðu.

Lið Hvíta-Rússlands, sem skoraði 39 mörk á móti okkur og sló okkur í raun út, skoraði aðeins 5 mörk í fyrri hálfleik á móti Frökkum, sem töpuðu þar áður fyrir Pólverjum.

Þetta bendir til þess að Ísland hefði hvort eð er ekki átt möguleika á að komast neitt frekar áfram í keppninni.

Það var ljóst á svip og fasi íslensku leikmannanna þegar þeir hófu leikinn við Króata að afhroðið í leiknum við Hvít-Rússa hafði brotið þá niður.

Guðjón Valur reyndi að keyra á það hugarfar að þetta væri einn afmarkaður handboltaleikur og að áskorunin um að vinna sigur á ögurstundu ætti ein að nægja til að hleypa fítonskrafti í okkar menn. 

En það tókst ekki og í vörn og sókn blasti við áframhald ófaranna gegn Hvít-Rússum.

Enda blasti stórtap við strax eftir 10-15 mínútur og úrslitin voru þegar ráðin.

Það hafa verið sveiflur í leikjum á mótinu í milliriðlum síðustu daga og kannski var geta Hvít-Rússa sveiflukennd.

Kannski voru Hvít-Rússar og Króatar svo heppnir að hitta á topp dagsform í leikjunum við Íslendinga og það fyrirbæri að "hafa númerið okkar" eins og það heitir á íþróttamáli. 

Það breytir því ekki að það að fá á sig 76 mörk í tveimur samliggjandi leikjum var einum of mikið.

Því er það rétt ákvörðun hjá Aroni Kristjánssyni að nýta uppsagnarákvæði í samningi sínum og gefa ráðrúm til að stokka spilin upp á nýtt.


mbl.is Aron hættir með landsliðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er sektin hér? Nokkurn tíma sektað?

Sekt fyrir það að leggja ólöglega í stæði hreyfihamlaðra hér á landi er ekki á almanna vitorði, enda hef ég aldrei séð frétt um að sektað hafi verið eða að lögregla hafi gert neitt í slíkum málum.

Í Bandaríkjunum eru sektir fyrir þetta á bilinu 40-130 þúsund krónur.

Árum saman átti ég erindi í Landsbankann í Hamraborg og þar kom ekki sá dagur sem fullfrískt fólk lagði ekki í stæði hreyfihamlaðra þar fyrir framan.

Einnig á ég oft erindi í Austurver þar sem eru tvö bílastæði fyrir hreyfihamlaða, verslanir, apótek og hundruð íbúða fyrir aldraðra í næsta nágrenni.

Nákvæmlega sama þar og sömu svörin.

Í áranna rás hefur aðeins ein ökumaður beðist afsökunar í mín eyru 

Allir hinir, margir tugir, höfðu réttlætingu á reiðum höndum. Hér eru nokkur dæmi um orðaskipti. Orð hinna brotlegu skáletruð.

 

1. Ég ætla bara að skreppa inn smástund. 

- Hvernig á hinn fatlaði að vita það þegar hann kemur að á bíl sínum hvað þú ætlar að vera lengi inni?

 

2. Ég ætlaði bara að skreppa inn og vera fljótur, en vissi ekki að það væri svona mikil biðröð inni.

Af hverju fórstu þá ekki út og færðir bílinn?

-  Ég vissi ekki strax að tæki svona langan tíma að afgreiða biðröðina.

-  Þú varst með miða og ef biðröðin var svona löng gastu skroppið út og fært hann.

-  Nei, það hefði getað farið að ganga betur og þá hefði ég misst af röðinni.

-  Þér hefur ekki dottið í hug að það væri rangt hjá þér í upphafi að leggja bílnum í stæðið? Hvernig gat aðvífandi hreyfihamlaður maður vitað hvenær þú kæmir út?

- Hvaða andskotans afskiptasemi er þetta? 

 

3. Það eru tvö stæði hérna fyrir fatlaða og þeir þurfa ekki bæði stæðin.

- Jú, það þarf tvö stæði. Hér eru bankaútibú, heilsugæsla, íbúðablokkir aldraðra og apótek auk fleiri verslana. Stæðin eru tvö af því að hér er óvenjulega margt hreyfihamlað fólk á ferð. 

Ég vissi það ekki.

- Þú máttir vita það að stæðin væru tvö af því að þeir sem ákváðu það vissu það. Og það skiptir svo sem heldur ekki máli. Þú mátt einfaldlega ekki leggja í þessi stæði.   

 

4. Ég er að útrétta fyrir konuna mína, sem á bílinn, og leyfismerkið fyrir stæðið er í glugganum á bílnum. 

- En þú ert ekki hreyfihamlaður og þetta miðast við þann, sem þarf að fara út úr bílnum.

- Nei, þetta miðast við það hver er eigandinn. Þú sérð merkið við framrúðuna.

 

5. Konan mín á bílinn og er hreyfihömluð. Hún situr inni í bílnum á meðan ég er að útrétta fyrir hana.

- En þú ert ekki hreyfihamlaður og þú ert að útrétta.

- Nei, en hún er fötluð og þetta er hennar bíll og hennar erindi sem ég er að reka.

 

6. Þér kemur þetta andskotann ekkert við.

- Jú, ég á hreyfihamlaðan son og mér kemur það við þegar brotið er á honum og öðrum hreyfihömluðum. Þetta kemur öllum við.  

 

7. Það er bara eitt skilti og er bara fyrir eitt stæði.

- Nei, hér eru tvö blámáluð stæði fyrir hreyfihamlaða.

- Ég sá það ekki fyrr en of seint. Það er bara eitt skilti.

- Sástu það of seint? Er ekki bakkgír á bílnum þínum?

- Hættu þessu andskotans nöldri. Annað stæðið er autt.

- Hér eru heilsugæsla, apótek og íbúðablokkir fyrir aldraða. Það þarf tvö stæði fyrir hreyfihamlaða af því að hér er óvenju mikil umferð fyrir þá.

- Það koma nú ekki tveir fatlaðir á meðan ég er inni.

- Hvernig veistu það?

 

8. Það er nóg pláss núna fyrir fatlaða að leggja í önnur stæði hér. Það var bara svo margfalt meiri umferð þegar ég kom hér áðan, og ég var að flýta mér.

 

Eitt dýrlegt tilfelli. Maður kemur og leggur bíl sínum á skáletraða svæðið milli tveggja bílastæða hreyfihamlaðra, svo að bíll hans stendur inn á bæði stæðin. Honum er bent á að hann sé að brjóta reglur.

 

9. Nei. Það er pláss til að leggja bílum báðum megin við mig.

- Rangt hjá þér. Sumir hinna hreyfihömluðu þurfa að geta opnað dyrnar nógu mikið til að koma hjólastólum út og hafa rými fyrir þá. Þess vegna er þetta skáletraða svæði á milli stæðanna.

Ég vissi það ekki.

- En þú máttir vita að skáletraða svæðið væri þarna ekki bara upp á skraut.

- Það eru ekki allir hreyfihamlaðir með hjólastóla í bílum sínum.

- Hvernig veist þú það fyrirfram hvort sá hreyfihamlaði sem kemur hér, sé ekki með hjólastól? 

 

Hverjir af þessum kumpánum, sem eru reyndar af báðum kynjum, skrapar botninn?

Mér finnst það vera þeir, sem eiga náinn hreyfihamlaðan ástvin og ættu að vita hve mikils virði það er fyrir hreyfihamlaða að ekki sé gengið á rétt þeirra, en misnota samt aðstöðu sína til að sleppa við að labba smá spöl.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Ofurfyrirsæta nýtir sér stæði fatlaðra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. janúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband