Menn gleyma minnihlutastjórn með tryggan meirihluta 1927-31.

Á þessari bloggsíðu voru nefndar nokkrar missagnir, sem hafa sést í umræðum um úrslit kosninganna nú og stjórnarmyndunarmöguleika. 

Ein hefur bæst við, - sú fullyrðing að minnihlutastjórnir hér á landi hafi setið stutt og verið skipaðar til bráðabirgða. 

En það er ekki rétt. Stjórn Framsóknarflokksins var við völd 1927-31 í tæp fjögur ár og naut tryggs stuðnings Alþýðuflokksins, þótt hann ætti ekki ráðherra í stjórninni. 

Tæknilega var hún minnihlutastjórn en þetta fyrirkomulag varðandi ríkisstjórn dugði ekkert siður en þótt Alþýðuflokkurinn hefði átt ráðherra í stjórninni. 

Það síðasta sem fráfarandi formaður Samfylkingarinnar sagði var að Samfylkingin myndi geta hugsað sér að styðja það sem hún kallað umbótastjórn, þótt hún ætti ekki ráðherra í þeirri stjórn. 

Svipað hafa Píratar sagt. 

Þótt heitið meirihlutastjórn eigi tæknilega við um stjórn, sem flokkar eiga beina aðild að, er sá möguleiki fyrir hendi að mynda stjórn, sem hefur tryggan meirihluta þingmanna að baki sér og ver stjórn vantrausti, án þess að stuðningsflokkarnir eigi beina aðild að henni.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur 21 þingmann en hinir flokkarnir 42 og því eru ýmsir kostir í stöðunni án þátttöku hans.  


mbl.is Enginn meirihluti án Sjálfstæðisflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hluti af "elítunni" að gefa fordæmi fyrir kjör sín?

Gunnar Helgi Kristinsson sagði í viðtali við DV fyrir þremur árum eða svo, að aðeins "elítan" ætti að fá að skrifa nýja stjórnarskrá en alls ekki þjóðkjörið stjórnlagaþing/stjórnalagaráð. 

Hann skilgreindi "elítuna" sem helstu fræðimenn í háskólasamfélaginu, svo sem hann sjálfan, og æðstu embættismenn þjóðarinnar auk Alþingis, sem hefði löggjafarvaldið. 

Þetta er athyglisvert sjónarmið í ljósi 165 ára sögu viðleitninngar til að Íslendingar semji sjálfir nýja og íslenska stjórnarskrá.

 Samkvæmt skilningi Gunnars Helga hefði alls ekki átt að kjósa til sérstaks stjórnlagaþings (Þjóðfundar) til þess árið 1851 með Jón Sigurðsson innanborðs.

Þótt Alþingismenn væru kjörgengir til Þjóðfundarins voru margir aðrir kjörnir til setu þar.

Þetta leiðir hugann að því hvernig Kjararáð er skipað. Sá grunur læðist að manni að þar séu menn í elítunni að ákveða kjör fyrir elítuna og þar með fordæmi fyrir sjálfa sig að einhverju leyti, en það er lítið skárra en að Alþingismenn sjálfir ákveði um kjör sín.

Ef þeir hópar, sem heyra undir Kjararáð, dragast aftur úr í launum á þann hátt, að það þurfi að hífa þá upp ítrekað með slíkum látum, sem nú eru viðhöfð, þarf að finna einhverja aðra leið til þess að sinna því verkefni að ákveða laun "elítunnar".

Að vísu er versta leiðin sú að Alþingi ákveði þetta sjálft en blautar tuskur framan í almenning um leið og búið er að loka kjörstöðum er augljóslega ekki rétta aðferðin.

 


mbl.is „Þetta er algjörlega óásættanlegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

70 ára gamall vandi varðandi umboð og forsæti. 1978 og 2016.

Það hefur alltaf verið viss vandi fólginn í því hver myndi ríkisstjórn á Íslandi. 

Aðeins einu sinni áður, 1978, hefur flokkur lengst til vinstri verið næst stærstur á þingi.

1931 ríkti ákveðið þrátefli eða pattstaða milli stjórnar og stjórnarandstöðu, og niðurstaðan varð sú að Tryggvi Þórhallsson forsætisráðherra, vék til hliðar og Ásgeir Ásgeirsson varð forsætisráðherra í stjórn tveggja stærstu flokkanna sem fékkst við afmörkuð brýn mál, meðal annars að bregðast við geigvænlegum afleiðingum heimskreppu og gera lágmarksbreytingar á kjördæmaskipun til að minnka afleiðingar stórfellds misvægis atkvæða. 

1942 varð trúnaðarbrestur í svonefndu "eiðrofsmáli" milli Ólafs Thors og Hermanns Jónassonar sem olli því að upp frá því gat hvorugur gat hugsað sér að sitja í stjórn undir forsæti hins. 

Stefán Jóhann Stefánsson formaður Alþýðuflokksins varð því forsætisráðherra í þriggja flokka stjórn 1947 þar sem hvorki Ólafur né Hermann voru ráðherrar. 

1950 varð þrautalendingin sú að Steingrímur Steinþórsson alþingismaður Framsóknarflokksins varð forsætisráðherra, en Ólafur varð sjávarútvegsráðherra og Hermann landbúnaðarráðherra. 

1974 var "samkvæmisleikurinn" eða "hringekjan" í gangi og þegar Ólafur Jóhannesson formaður Framsóknarflokksins og fráfarandi forsætisráðherra vinstri stjórnar hafði umboðið eftir að Geir Hallgrímssyni formanni Sjálfstæðisflokksins hafði mistekist stjórnarmyndun, tókst Ólafi að finna flöt á samstarfi flokkanna undir forsæti Geirs.

Sú upphefð Geirs varð honum lítt til framdráttar, því að skopast var að því að Ólafur hefði myndað stjórn fyrir Geir.

Svipuð uppákoma varð við myndun stjórnar 1983, en þá lauk stjórnarmyndunarviðræðum þessara tveggja stærstu flokka með því að Sjálfstæðismenn gátu valið um að hafa stjórnarforystu og fá færri og lakari önnur ráðuneyti, eða að láta Framsóknarmönnum eftir forystuna og fá í staðinn betri útkomu varðandi önnur ráðuneyti.

Sjálfstæðismenn völdu síðari kostinn og Steingrímur Hermannsson varð forsætisráðherra.

Steingrímur sýndi mikla pólitíska stjórnunarhæfileika í embættinu og margir Sjálfstæðismenn hörmuðu það síðar að hafa gefið honum þetta tækifæri.

Allan Kaldastríðstímann þótti andstæðingum Sósíalistaflokksins og síðar Alþýðubandalagsins það fráleitt að formennn þessara flokka væri veitt umboð til stjórnarmyndunar.

Í "hringekjunni" 1978 fékk Lúðvík Jósepsson formaður Alþýðubandalagsins umboð til stjórnarmyndunar eftir að Benedikt Gröndal og formönnum annarra flokka en Alþýðubandalagsins hafði mistekist, og fyrtust forystumenn hinna flokkanna við að "kommúnisti" fengi stjórnarmyndunarumboð og margir urðu Kristjáni Eldjárn gramir, - þessi tilraun Lúðvíks fékk því fyrirsjáanlegan endi. 

En hefð var samt rofin. 

Á endanum tókst Ólafi Jóhannessyni, þeim mikla stjórnmálaref, að mynda þriggja flokka vinstri stjórn þótt Framsóknarflokkurinn hefði í kosningum beðið mesta afhroð í sögu sinni fram að því.

 

Núna er staða Vinstri grænna sterkari en staða flokks yst til vinstri hefur verið síðan 1978 og af því að Kristján Eldjárn rauf ákveðna hefð 1978, yrði engin hefð rofin með því að veita Katrínu Jakobsdóttur umboð til stjórnarmyndunar nú, þótt hún fengi kannski ekki umboðið fyrr en öðrum hefði mistekist.

En spurningin er hvort enn eimi svo mikið eftir af 70 ára gamalli andúð, sem fyrst reis árið 1946, að þess vegna reynist það enn einu sinni ómögulegt að mynda stjórn undir forystu þess flokks, sem er lengst til vinstri.   

Við erum aftur komin að upphafi þessa pistils: Aðeins einu sinni áður í stjórnmálasögu þjóðarinnar, 1978, hefur flokkur lengst til vinstri verið næststærstur og því fróðlegt að sjá hvað gerist nú. 


mbl.is Þrír óska eftir umboði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð kynni af þessum manni.

Ég vissi ekkert hver Logi Már Einarsson var þegar upp kom, að hann myndi stjórna vinnu hóps um umhverfismál á einum landsfundi Samfylkingarinnar, sem falið var að semja og bera fram þann hluta stefnuskrár flokksins.  

Loft var lævi blandið, því að á fyrri landsfundi 2009 hafði munað aðeins örfáum atkvæðum að samþykkt yrði tillaga um að það skyldi vera stefna flokksins að láta reisa eins margar álbræðslur á Íslandi og hægt væri með því að virkja til fulls alla vatnsorku og jarðvarmaorku landsins. 

Samþykkt þeirrar tillögu hefði orðið Samfylkingunni til óumræðanlega mikils tjóns í formi ævarandi skammar, sem lifa myndi um aldir ásamt því að meirihluti þingmanna flokksins hafði samþykkt Kárahnjúkavirkjun 2003. 

Með því að samþykkja slíka stefnu hefði Samfylkingin orðið að harðasta stóriðjuflokki landsins.

Stóriðjufíklar í flokknum höfðu borið fram tillögu sína á síðustu stundu áður en frestur til slíks rann út á lokadegi landsfundarins, greinilega í þeirri von, að andófsfólk gegn slíkum firnum myndi ekki ná vopnum sínum og að umræður yrðu takmarkaðar vegna tímaskorts. 

Búast mátti við einhverju svipuðu á landsfundinum þar sem Logi Már stjórnaði umræðum í umhverfishópnum.  

Logi kom mér mjög á óvart í stjórn og vinnu hópsins við að lempa mál og finna fleti til að ná fram niðurstöðu, og sýndi þar ótvíræða stjórnunarhæfileika, yfirvegun, íhygli, lagni, sanngirni og öguð vinnubrögð, sem skiluðu mun betri ályktun en margir umhverfis- og náttúruverndarsinnar óttuðust að yrði niðurstaðan. 

Honum er nú meiri vandi á höndum en nokkrum öðrum formanni jafnaðarmanna á undan honum, en vonandi tekst honum jafn vel í hinu nýja vandasama verki sínu og þegar hann kom mér hvað mest á óvart.  


mbl.is Berum öll ábyrgð á ósigrinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband