Spurningarnar hrannast upp.

Svo er að sjá sem Donald Trump muni að einhverju leyti taka þá skynsamlegu ákvörðun að framkvæma ekki allt það sem hann boðaði að hann myndi gera ef hann yrði forseti. 

Þá yrði hann að vísu að éta ofan í sig orðin "believe me" sem hann notaði gjarnar til áherslu í lok margra setninga í ræðum hans. 

En hvaða mál verða það? Eitthvað varðandi Obama-care en hver önnur?  

Hann kann að leita ráða hjá fyrrverandi forsetum og það gerir hann vonandi. 

Ein af fjölmörgum spurningum er sú, hvort óhemju þrá Trumps eftir frægð og auði hefur verið fullnægt með því að hann er kominn jafn hátt á listann yfir valdamestu menn heims og mögulegt er.

Vitað er að hvers kyns fíkn ber þá hættu í sér að vera óseðjandi, og valdafíkn er svo sannarlega fíkn, sem mannkynssagan geymir allt of mörg dæmi um að hafa orðið óseðjandi.

Þetta er hugsanlega stærsta spurningin af þeim sem hrannast upp við einhverja óvæntustu og óvenjulegustu valdatöku sögunnar.  


mbl.is Kann að leita ráða hjá Clinton
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björt framtíð vill vera "stjórntæk".

Það er þekkt fyrirbæri, að nýstofnaðir flokkar sækist eftir því að komast í meirihlutasamstarf sem víðast og Björt framtíð hefur gert út á það sjónarmið að skapa nýjar samskiptaaðferðir við stjórnmálalegar úrslausnir og draga úr "skotgrafapólitík". 

Þetta hefur verið kallað gera sig "stjórntækan" með því að þjálfa flokksfólk í stjórnunarstörfum á stjórnmálasviðinu. 

Á sínum tíma náði Framfaraflokkurinn í Noregi miklum árangri með því að stunda þessa pólitík í sveitarstjórnum þess lands. 

Það að vera stjórntækkur er annað orðalag yfir það að komast til valda sem víðast, og flokknum hefur orðið býsna vel ágengt í því í þremur af fjórum stærstu kaupstöðum landsins. 

Fulltrúi flokksins í stjórnarskrárnefnd var til dæmis ákveðinn talsmaður tillagna nefndarinnar, en í því máli tók Samfylkingin, flokkurinn sem hann hafði áður verið í, afgerandi afstöðu á flokkstjórnarfundi, gegn þeirri eftirgjöf sem fólst í tillögunum. 

Þess vegna kemur afstaða Bjartrar framtíðar ekki á óvart varðandi stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum, heldur er það rökrétt framhald af þeirri stefnu að verða "stjórntækur" sem víðast og sem fyrst. 

Svo er að sjá að í huga forráðamanna flokksins hafi Lækjarbrekkufundurinn ekki náð þeim tilgangi sínum, að skapa aðstöðu til að mynda meirihlutastjórn þáverandi stjórnarandstöðuflokka á þingi. 

Og úr því að Bjarni Benediktsson fékk stjórnarmyndunarumboðið fyrstur og bauð upp á þriggja flokka stjórn frá hægri í stað þess möguleika að mynduð yrði fimm flokka stjórn frá vinstri, gripu formenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar gæsina meðan hún gafst. 

Björt framtíð var hinn eini af núverandi þingflokkum, sem á tímabili fór niður fyrir 5% múrinn í skoðanakönnunum og það virkar því áreiðanlega hvetjandi á að nýta sér það tækifæri, sem felst í því að vera innanborð í öllum stjórnarmyndunarviðræðum frá upphafi. 


mbl.is Furðar sig á Bjartri framtíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundum hefur einn þingmaður ráðið úrslitum um stjórnarmyndun.

Stundum hefur það nægt fyrir stjórnarmyndun að einn þingmaður, annað hvort utan flokka eða með eigin flokk á bak við sig, hafi stutt stjórnina. 

Í þessari stöðu var Eggert Haukdal 1980 og Stefán Valgeirsson var það svo sannarlega 1988.

Síðan eru dæmi um gríðarleg áhrif í hina áttina, að hindra að mynduð væri stjórn eftir ákveðnu mynstri.

Eftir hið óvænta þingrof Tryggva Þórhallssonar forsætisráðherra 1931 risu öldur mjög hátt hjá Sjálfstæðismönnum og Alþýðuflokksmönnum, einkum hinum síðarnefndu.

Vildu sumir að myndað yrði bandalag þessara flokka sem héldi þingstörfum áfram upp á eigin spýtur í krafti þess að meirihluti þingmanna styddi hana.  

 

En til þess að svo gæti orðið varð að fá stuðning utanflokkaþingmaðurinn Gunnars á Selalæk.

Hann vildi ekki taka þátt í þessu og sögðu hörðustu kratarnir að Sjallar hefðu guggnað á hugmyndinni og borið Gunnar á Selalæk fyrir sig.

Áratugum saman eftir þingrofið deildu fræðimenn um það hvort þingrofið hefði verið stjórnarskrárbrot eða ekki.

Því ollu og valda enn mótsagnakenndi ákvæði stjórnarskrárinnar.

En fyrst einn þingmaður gat ráðið svona miklu í ofangreindum tilfellum, er ljóst að fjórir þingmenn, eins og Samfylkingin hefur nú, geta það ekki síður.

Í fyrstu skoðanakönunum fyrir kosningarnar 2007 sást, að Íslandshreyfingin gat fellt þáverandi ríkisstjórn og komist með þremur þingmönnum í oddaaðstöðu miðað við það að vera fyrir ofan 5% múrinn, eins og hún var á þessum tíma.

Á þeim tímapunkti sáu menn það ekki fyrir að stærri stjórnarflokkurinn, Sjallar, og stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Samfylking, myndu mynda ríkisstjórn eftir kosningar og að engu skipti hvort nýr flokkur kæmi mönnum á þing eða ekki.

Kratar og Sjallar voru í aðstöðu snemmvetrar 1979-80 að ná meirihluta í nefndum Alþingis með því að gera bandalag um kosningu í þær og bæti með því aðstöðu til samvinnu þessra flokka um stjórnarmyndun.

Benedikt Gröndal formaður Alþýðuflokksins og fleiri voru því andvígir, og fyrir bragðið var ný Viðreisnarstjórn ekki inni í myndinni þennan vetur.

Síðar átti Jón Baldvin Hannibalsson eftir að kalla þetta "pólitískt umferðarslys", enda tafðist myndun stjórnar þessara tveggja flokka um tólf ár.  


mbl.is Logi ætlar að ræða við Katrínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband