Vonandi ekki nóg að "eiga" báðar þingdeildirnar.

Þegar Bandaríkin og heimsbyggðin öll bíður á milli vonar og ótta um það hve mikið af ferlegum loforðum sínum og groddalegum yfirlýsingum í kosningabaráttunni Donald Trump muni efna þegar hann tekur við forsetaembættinu, er eitt helsta áhyggjuefnið hvernig hann lítur á það, að Republikanar hafa meirihluta í báðum deildum þingsins. 

Miðað við önnur stóryrði og takmarkalausa vissu um eigið ágæti gæti hann hugsað sér gott til glóðarinnar og talið sig geta valtað yfir mörg af helstu atriðum sem prýtt hafa bandarískt þjóðfélag fram að þessu.

Margir hafa vafalaust áhyggjur af þessu.

En afdráttarlaus ummæli John McCaein frambjóðanda Republikana 2008 um þann vilja Trumps að taka upp pyntingar við yfirheyrslur vekja smá glætu vonar.

McCaine ætti að vita hvað hann er að tala um eftir að hafa sjálfur verið fangi í Víetnamstríðinu og þurfa að sæta harðræði.

Vonandi munu fleiri þingmenn Republikana sýna að þeir hafi bein í nefinu til að taka sjálfstæða afstöðu ef sum af svakalegustu málum Trumps koma á þeirra borð.   

 

En það er dálítið hastarlegt þegar það þarf að vona að Trump muni svíkja sem flest loforð sín í kosningabaráttunni jafn hratt og hann gaf þau.

Vona, að hann hafi sagt margt af því sem hann sagði eingöngu til þess að verða "fyrsta frétt" sem oftast og víðast í kosningabaráttunni og ná með því mikilvæga frumkvæði, sem felst í því að ráða hvað rætt sé um.


mbl.is „Andskotans sama hvað Trump vill gera“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sama spurningin aftur: Er áttavitinn alveg orðinn úreltur?

Síðast þegar leitað var að týndum mönnum hér á dögunum var spurt hvort þeir, sem villtist, hefðu verið með áttavita. Hér í gamla daga var það talið bráðnauðsynlegt að hafa á sér góðan áttavita til þess að lenda ekki í villu og ganga kannski meira og minna í hringi eða í öfuga átt. 

Í einni af fréttunum af leitinni nú var sagt að maðurinn hefði gleymt að taka farsímann með sér. 

Á okkar dögum væri ágætt að tækin, sem menn hefðu helst með sér, væru tvö, farsími og kompás. 

Ódýrustu farsímar kosta nokkra þúsund kalla, er svo handhægir að þeir geta verið í minnstu vösum, og er engum ofviða að eiga einn. 

Kompás er heldur ekkert mikið dýrari en það. 

Ef tækin væru tvö, sem menn þyrftu að muna eftir að hafa með sér, væri kannski minni hætta en ella á því að menn gleymdu þeim báðum. 

Sagt var í fréttum að maðurinn hefði verið vel búinn. 

Einmitt það?

Rjúpnaskytta í vondum veðurskilyrðum án tveggja bráðnauðsynlegra smáhluta, minnstu gerðar farsima og handhægs kompáss?


mbl.is Rjúpnaskyttan fundin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vera í honum innst sem yst...

Íslenska ullarpeysan á mikið lof skilið. Ég reyni ævinlega að haga því svo til, hvar sem ég er á ferðum, að að minnsta kosti ein, helst tvær eða þrjár, séu með í för. 

Aðalpeysuna prónaði Ninna dóttir mín á mig, og er hún með mynstri, sem táknar íslenska náttúru, en raðir af myndum sem geta táknað jafnt fugla sem flugvélar, mynda hringi um peysuna. 

Ég kalla hana stundum Gálgahraunspeysuna, því að þar var hún ómissandi þegar staðin var vaktin á hrollköldum októbermorgnum. 

Þegar farinn var hringurinn á léttu vespu-vélhjóli síðsumars á rúmum sólarhring, varð býsna svalt síðla nætur og snemmmorguns á Fjarðaleiðinni eystra í mótvindi, þokusúld og rigningu. 

Í þessari ferð kom peysan góða smám saman til skjalanna ásamt mun þynnri ullarbolum hið innra og að lokum varð niðurstaðan sú, að mestur árangur fékks með því að vera í ullinni bæði innst og yst. 

Þetta kemur upp í hugann þegar rjúpnaskytta, sem hefur verið týnd síðan í fyrrakvöld, fannst í morgun heil á húfi. 

 

Mörg hefur skyttan gaddinn gist, 

í góðum lopa og argað, 

verið í honum innst sem yst

og alveg úr villu sér bjargað. 

 

 


mbl.is Lífsbjörg í lopanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband