Ný ógn og ruddaskapur. Með rettuna í vinstri og símann í hægri.

Eftir að hafa breytt ferðavenjum sínum í að fara að mestu leiðar sinnar á tveimur hjólum, annars vegar á rafreiðhjóli og hins vegar á léttu vespu-vélhjóli eftir atvikum, tekur maður betur eftir hegðun bílstjóranna í umferðinni, því að hvort tveggja er, að maður hefur meiri tíma og betri aðstöðu á hjóli til að fylgjast með því sem er að gerast næst manni en undir stýri á bíl, og þar að auki er meiri þörf er á að hafa athyglina vakandi á hjóli en á bíl, vegna þess hve maður er gersamlega berskjaldaður og óvarinn fyrir uppátækjum bílstjóranna. 

Geðþótta skyndiákvarðanir eru hættulegastar. Til dæmis þegar bílstjóri tekur fyrirvaralausa U-beygju yfir heila miðlínu á þjóðvegi svo að lögreglumaður á vélhjóli liggur eftir stórslasaður og mölbrotinn. 

Með reglulegu millibili munar mjóu að slys verði.

Bílum er vippað skyndilega eldsnöggt yfir á næstu akrein við hliðina án þess að gefa stefnuljós.

Snarhægt er fyrirvaralaust á bílum án stefnuljósagjafar til þess að geta skutlað sér inn í bil á milli bíla á akreininni við hliðina.

Nýlega ætlaði ég að fara rólega eftir gangbraut yfir aðrein þar sem umferðin á gangbrautinni hafði grænt ljós á móti sér.

Ég var samhliða gangandi manni. 

Þá kom bíll á mikilli ferð aðvífandi. Hann kom seinna að staðnum þar sem ferlarnnir mættust heldur við, en fór hraðar en við. 

En ef hann hægði ekki ferðina var ljóst að hann myndi aka á okkur þar sem ferlar gangbrautar og aðreinar mættust ef allir héldu áfram ferð sinni.

Yfirleitt hægja bílstjórar á sér við þessar aðstæður og leyfa gangbrautarfólkinu, sem horfir á grænt umferðarljós fyrir framan sig, að halda áfram. En ekki þessi. 

Við stönsuðum á síðustu stundu og útkoman var skýr: Bílstjórinn hefði ekið á okkur eins og ekkert væri ef við hefðum ekki stansað. Ekki málið. Bara rétt sisvona.  

Þarna var fróðlegt að sjá hve langt sumir treysta sér að ganga í því að neyta aflsmunar.

Frænka mín ein stórslasaðist í hitteðfyrra, axlarbrotnaði illa þar sem hún hafði stansað á bíl sínum við rautt umferðarljós.

Ökumaður í bíl á eftir henni var í óða önn að senda smáskilaboð og ók á fullri ferð aftan á bíl hennar. Ári eftir slysið þurfti hún enn að láta sprauta sig vikulega og var hvergi nærri búin að ná sér þrátt fyrir samfellda sjúkraþjálfun.

Efast um að hún verði jafngóð eftir. En niðurstaðan, miðað við orsakir slyssins, var sú að tilraunin til að senda skilaboðin vó þyngra en að stansa á rauðu ljósi.  

Það kemur reglulega fyrir þegar ég er á rafreiðhjólinu við hringtorg að bílstjórar komi að og eru í miðju farsímasamtali í þann mund sem þeir aka yfir gangbraut og inn í flókið hringtorgið.

Sumir ranka við sér og stoppa, en ég treysti því miður ekki slíkum bílstjórum og gef með táknmáli til kynna að meðan þeir séu í símanum muni ég ekki hreyfa mig. 

Sjá má á svip eins og eins að þetta veki reiði hans. 

Einn slíkur kom um daginn á drjúgri ferð að svona gatnamótum með logandi sígarettuna í vinstri hendinni og talaði í farsímann með hægri!

Farsíminn er orðinn að ógn jafnframt því að vera dásamlegt tækniafrek. Það er ekki aðeins að hann drottni yfir okkur í umferðinni, heldur höfum við gert hann að rudda, sem ryðst inn í samræður okkar andspænis lifandi fólki, þegar annar aðili samræðnanna svarar skyndilega í hringjandi símann og tekur einhvern úti í bæ fram yfir mann, já, er í raun rokinn fyrirvaralaust í fússi í burtu frá manni.

Sú afsökun er ekki gild, að kannski sé verið að hringja úr númeri í gegnum skiptiborð stórs fyrirtækis, svo að ef ekki sé svarað, sé ekki vitað hver af t.d. 400 starfsmönnum fyrirtækis sé að hringja, og þess vegna verði að svara strax. Þetta gæti verið mjög áríðandi símtal. 

Þvert á móti: Sá sem hringir á þennan hátt getur ekki ætlast til þess að sá sem hringt er í, svari alltaf strax. Sá, sem hringir getur sjálfum sér um kennt ef fyrirhugaður viðmælandi getur ekki hringt til baka.

Við þurfum að búa okkur til sanngjarnar samskiptareglur og öruggar reglur um notkun farsimanna okkar.

Þessir símar eiga ekki að vera einhvers konar guðir á himnum, sem geti ruðst inn í samræður okkar augliti til auglitis við fólk og umturnað öryggi okkar í umferðinni, heldur einföld tæki til að auðvelda okkur samskipti og fjarskipti án þess að verða ógnvaldur.       


mbl.is 79% hafa notað farsíma undir stýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er "stærsti kjósendahópurinn"?

Sjá má því haldið fram á blogginu í dag að Sjálfstæðisflokkurinn eigi heimtingu á því að vera í ríkisstjórn, af því að kjósendur hans hafi verið "stærsti kjósendahópurinn" í kosningunum. 

Þess er sérstaklega getið að kjósendur Sjálfstæðisflokksins hafi verið "stærsti kjósendahópurinn" í öllum kjördæmunum og því muni annað stjórnarmynstur en með Sjálfstæðisflokkinn innanborðs jafngilda aðför 101 Reykjavík gegn landsbyggðinni. 

Það er nokkuð sérkennilegt að flokkur sem fær tæp 30% atkvæða á landsvísu telst stærsti kjósendahópurinn en hin 70 prósentin, sem ekki kusu þennan flokk, séu ekki kjósendahópur og eigi því ekkert með að mynda ríkisstjórn. 

Allt fram til kosninganna 2010, eða í næstum heila öld, fékk Sjálfstæðisflokkurinn lang flest atkvæði í Reykjavík. Reykjavíkurlistinn eða R-listinn, eins og hann var kallaður, var ekki stjórnmálaflokkur, heldur listi eins og nafnið bendir til. 

Allan tímann stóðu býsna ólíkir flokkar að R-listanum, valið var um frambjóðendur innan aðildarflokkanna, og þeir sömdu sín á milli um skipan framboðslistans og það, hverjir skipuðu æðstu embætti borgarinnar. 

Sjálfstæðisflokkurinn missti meirihluta sinn í borgarstjórn 1978-1982 og þar með borgarstjórann og forseta borgarstjórnar og borgarráðs, og síðan aftur árið 1994-2006 og 2007-2009.

Aldrei var rætt um það á þessum tíma að vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn væri "stærsti kjósendahópurinn" væri ranglátt að hann hefði ekki borgarstjórann og völdin í borginni.

Nú kemur í ljós að í skoðanakönnun telja fleiri, að Vinstri grænir eigi að fá aðild að ríkisstjórn heldur en þeir, sem telja að Sjálfstæðiflokkurinn eigi að eiga aðild að stjórninni.

En teljast þessir tveir þriðju hlutar kjósenda þá ekki "kjósendahópur"?

Og er eitthvað ólýðræðislegt við það að þegar stjórnarflokkar missa meirihluta sinn taki hinir flokkarnir, sem fengið hafa meirihluta, við, og myndi ríkisstjórn? 


mbl.is Flestir vildu VG í ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki spurning um hvort heldur hvenær.

Í fyrra gerðist það einn dag að þegar sjúkraflugvél lenti í Reykjavík með sjúkling sló vindurinn upp í 25 metra á sekúndu á Reykjavíkurflugvelli í suðvestan hvassviðri og hefði flugvöllurinn verið algerlega lokaður til lendingar ef ekki hefði viljað svo til að na-sv-brautin var enn í notkun og vindurinn stóð beint á hana en of skakkt á hinar brautirnar. 

Þá var umræða í gangi um brautina og mátti meðal annars sjá fullyrt í henni að flugmenn Mýflugs væru að ljúga til um ofangreindar aðstæður. 

Sú fullyrðing var hrakin hér á síðunni með því að vitna í einföld gögn á þeim tíma sem aðflugið stóð yfir um vindstyrk og vindhraða í Reykjavík sem eru aðgengileg á vedur.is hvenær sem er. 

Ábyrgðarleysi yfirvalda í þessum efnum er því miður alltof algengt í stjórnsýslu og stjórnmálum hér á landi. 

Gerður er samningur um lokun brautar í Reykjavík með loforði um að opna aðra braut í Keflavík í staðinn, sem síðan er svikið eins og ekkert sé. 

Það er ekki spurning um hvort heldur hvenær þetta á eftir að kosta mannslíf. 

Og miðað við framtíðar tómlæti í málinu ekki fyrsta mannslífið. 

Samkvæmt ísköldum útreikningi kostar meðal mannslífið hér á landi þjóðfélagið um hálfan milljarð króna en að opna braut, sem getur bjargað mannslífi kostar helmingi minna. 

En ekki einui sinni svo einfaldur útreikningur þar sem þjáningar fjölda fólks eru ekki metnar á krónu virðist fá neinu haggað. 


mbl.is Áhyggjur af sjúkrafluginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt af því sem hefur áhrif á stjórnarskrármálið?

Það hefur lengi verið umdeilt, hvort leyfa eigi ráðherrum, sem eru Alþingismenn, að gegna báðum störfunum samtímis. 

Í ýmsum öðrum löndum, jafnvel nágrannalöndum okkar, er skýrt kveðið á um það að ef þingmaður verði ráðherra, megi hann ekki gegna starfi Alþingismanns á sama tíma og hann situr í ráðherrastóli. 

Honum beri að víkja af þingi á meðan og kallaður verði inn varaþingmaður í staðinn. 

Talsvert hefur verið rökrætt um þetta erlendis og það var gert í stjórnlagaráði. Niðurstaðan í frumvarpi ráðsins var að ráðherrar mættu ekki gegna þingmennsku á meðan þeir væru ráðherrar. 

Helstu rökin fyrir þessu voru þau að um væri að þetta væri hluti af viðleitni að skapa meira valdajafnvægi milli framkvæmdavaldsins og löggjafarvaldsins með því að draga úr valdi ráðherranna og auka vald þingsins.

Þótt í stjórnarskrá segi að í landinu sé þingbundin ríkisstjórn, hefur það ekki nægt til þess að koma í veg fyrir að vald ríkisstjórna hefur verið miklu meira en vald þingsins.

Hefur það jafnvel verið orðað þannig að þingið væri afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórnina.

Önnur rök fyrir þessu eru þau, að það eitt að vera ráðherra sé fullt starf, og það eitt að vera þingmaður sé líka fullt starf.

Þess vegna bitni á störfum ráðherra ef þeir séu líka þingmenn og öfugt.

Ofurvald ráðherra þegar þeir sitji jafnframt á þingi sé ekki heppilegt.

Hinu síðastnefnda hefur raunar verið andmælt með því að segja með því að það sé ekki gott að ráððherrar hverfi líkt og inn í fílabeinsturn utan þinghússins með því að vera fjarri þinginu og að völd formanna flokkanna séu frekar áhyggjuefni.

Á móti því er hins vegar sagt, að vissulega megi koma því þannig fyrir, að ráðherrar megi taka til máls á þingi eða vera viðstaddir þar með málfrelsi, án þess að þeir hafi atkvæðisrétt, og að hægt sé að kalla þá fyrir þingið og nefndir þess til að svara fyrirspurnum um mál.

Firna langvarandi tregða hefur verið hjá Alþingi við að efna loforð landsfeðra frá 1944 um að Íslendingar sjálfir semdu og settu sér nýja stjórnarskrá (raunar baráttumál Jóns Sigurðssonar og Þjóðfundarins 1851).

Ein ástæða þess kann að vera sú, að stjórnarskráin fjallar um starf þingmannanna sjálfra og stöðu þeirra og völd og að þess vegna sé þeim þetta jafn erfitt og raun hefur borið vitni.

Þegar til kastanna getur undirliggjandi ástæða fyrir þessu, hvað snertir hvern og einn þeirra, verið sú að þeir máti áhrif stjórnarskrárinnar og einstakra greina hennar við sjálfa sig, til dæmis hvað varðar kosningalög og kjördæmaskipan. 

Einu sinni var sagt í hálfkæringi um þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þegar Davíð var að mynda stjórn, að allir þingmenn flokksins gengju með ráðherra í maganum nema gítaristinn ( Árni Johnsen).

Slíkir draumar verða kannski ekki eins stórir og ljúfir ef þeir þurfa að láta af þingmennsku á meðan á ráðherradómi stendur.  


mbl.is Þyrftu að segja af sér þingmennsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband