Kemur Framsókn út úr mistrinu eins og 1978?

Framsóknarflokkurinn beið hinn fyrsta stóra ósigur sinn frá 1916 í kosningunum 1978. Hringekja stjórnarmyndunartilrauna fór í gang eins og nú og á endanum reyndist eina færa lausnin vera að formaður Framsóknarflokksins myndaði stjórn með Alþýðubandalagi og Alþýðuflokki. 

Nú tapaði Framsóknarflokkurinn enn meira fylgi en 1978, eða meirihluta fylgisins 2013, en munurinn á stöðunni núna og 1978 er sá, að 1974-1978 var Sjálfstæðisflokkurinn með stjórnarforystu, en ekki Framsóknarflokkurinn, eins og nú er komið málum.

Þetta gerir það sálfræðilega erfiðara nú en 1978 að næsti forsætisráðherra verði úr Framsóknarflokknum.

Hins vegar sýna slit tveggja stjórnarmyndunartilrauna þar sem Viðreisn er einn flokkanna sem sitja við borðið, að skattamál og sjávarútvegsmál, sem eru helstu vinstri-hægri málefnin, sigla viðræðunum fyrst og fremst í strand.

Það er athyglisvert að Framsóknarflokkurinn stendur að mörgu leyti nær vinstrinu en Viðreisn, rétt eins og að Framsóknarflokkurinn stóð nær vinstrinu en Sjálfstæðisflokkurinn 1978.

Þátttaka Framsóknar gæti hins vegar strandað á ágreiningi um landbúnaðarmál þótt slíkur ágreiningur hafi ekki reynst úrslitaatriði í stjórnarmyndunum Framsóknar fyrr á tíð.    


mbl.is Búið að slíta stjórnarviðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta vildi fólkið, var það ekki?

Í áratug hefur verið kyrjaður söngurinn og síbyljan um "nauðsyn atvinnuuppbyggingar" á Suðurnesjum í formi stóriðju í Helguvík og byggingu stórra jarðvarmaorkuverða beint ofan í helstu náttúruperlum Reykjanesskagans. 

Allan þennan tíma hefur það verið básúnað að fólkið á svæðinu heimti þetta og að ekki eigi að hlusta á þá sem tala um "eitthvað annað" en stóriðjuna og stórvirkjanirnar. 

Slíkir "úrtölumenn" og "öfgamenn" í umhverfismálum séu "á móti rafmagni", ´"á móti atvinnuuppbyggingu" og "vilji fara aftur inn í torfkofana."

Fyrsta viljayfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar 2013, sem sagt var að væri einróma skoðun hennar, var sú að álver í Helguvík væri forgangsverkefni sem þyldi enga bið. 

Það yrði að "bjarga Suðurnesjum" eftir brottför Kanans. 

Nú hefur kísilmálverksmiðja risið í Helguvík og aldrei hefur sú ríkisstjórn, sem enn situr, dregið til baka yfirlýsinguna frá 2013, enda standa enn grindur kerskálans, sem reistar voru þegar hátíðleg athöfn og undirritun samninga fór fram 2007. 

Þá ber svo við, að verið er að amast við mengun frá kísilmálmverksmiðjunni sem þó er innan þeirra marka sem sett voru og öllum átti að vera ljós. 

Og kerskálagrindurnar bíða eftir því að álver, sem miklu, miklu stærra, já, margfalt stærra en kísilmálmverksmiðjan, rísi í Helguvík og þá væntanlega með miklu meiri mengun sem líka verði innan settra marka. 

Er hugsanlegt að jafnvel sama fólkið og heimtaði sem mesta stóriðju í Helguvík og kaus þá stjórnmálamenn, sem mestu lofuðu í þeim efnum, sé nú að mótmæla broti af því sem heimtað var?

Þetta vildi fólkið, var það ekki?  Það hlýtur að fagna því að mengunin frá broti af þeirri stóriðju sem þarna á að koma, sé innan marka sem fyrirfram var vitað hver yrðu?


mbl.is Fjöldi ábendinga um mengun í Helguvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið íslenska hugarfar, "að láta á þetta reyna."

Atvikið á brúnni á Vatnsdalsá sl. sumar, sem brotnaði undan 57 tonna þunga eins og sjá má í tengdri frétt er ekki einsdæmi hér á landi. Fyrir tæpum 20 árum reyndi bílstjóri einn á þungum flutningabíl að komast fyrir gamla brú í uppsveitum Árnessýslu á bíl, sem bæði var of breiður og of þungur. 

Hann virti að vettugi skilti við brúna, sem kváðu á um hámarksbreidd og þyngd og af ummerkjum var að sjá, að hann hefði ætlað að reyna að komast yfir með því að fara það hratt að brúin hefði ekki tíma til að láta svo mikið undan að hún brysti. 

Brúin, sem var að svipaðri gerð og brúin yfir Vatnsdalsá, brotnaði að vísu ekki, en bognaði hins vegar svo mikið þegar bíllinn brunaði inn á hana, að hátt burðarvirkið í henni lagðist inn og klemmdi bílinn svo að hann stórskemmdist ekkert síður en brúin sjálf. 

En bílstjórinn hafði það upp úr krafsinu að komast samt yfir með stórskemmdum á bíl og brú með því að láta á það reyna, hvort það væri hægt í staðinn fyrir að eyða um hálftíma með því að aka aðra leið. 

Í tilkynningu rannsóknarnefndar samgönguslysa kemur fram að bílstjórinn hafi ekki verið í bílbelti og kastaðist hann því til og hlaut áverka. 

Og ekki var þetta atvik heldur tilkynnt til vinnueftirlitsins. 


mbl.is Bar ekki þunga bílsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að fljúga á sama tíma að og frá Hvassahrauni og Reykjavíkurflugvelli.

Fyrir um sex áratugum var rætt um flugvallarstæði norður af Hvassahrauni. Flugmálastjóri bauð þá flugráði að koma í flugferð, þar sem flogið var aðflug að hrauninu og einnig í sömu flugferð að og frá Reykjavíkurflugvelli. 

Það var allhvöss aust-suðaustanátt og því ókyrrt í báðum aðflugi og fráflugi á báðum stöðunum. 

Í aðflugi og fráflugi að vallarstæðinu í hrauninu varð svo ókyrrt að flugráðsmenn fylltu ælupokana í vélinni og enda þótt ókyrrt væri líka í aðflugi og lendingu á Reykjavíkurflugvelli var það hátíð miðað við ósköpin suðurfrá. 

Þar með varð þetta dautt mál þar til að nógu langt er nú um liðið að það á að byrja aftur á því sama. 

En þá verður líka að fljúga í sömu ferðum að og frá Reykjavíkurflugvelli og að og frá brautum í Hvassahrauni. 

Öðruvísi verður ekki hægt að bera saman, hve oft verði ófært til flugs á þessum tveimur flugvöllum. 


mbl.is Veðurathuganir í Hvassahrauni að hefjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband