Gylfi Þ. "áhugalaus" 1971, Benedikt Gröndal 1979.

Sagan geymir dæmi um það að forystumenn flokka hafi eftir mikla ósigra í kosningum orðið "áhugalausir" um að fara í ríkisstjórn, þótt það hafi hugsanlega verið mögulegt. 

Tvívegis gerðist þetta í sögu Alþýðuflokksins. 

Í kosningunum 1971 fékk Alþýðuflokkurinn innan við 10% atkvæða og munaði hársbreidd að hann kæmi ekki manni á þing. Þótt mörgum fyndist eðlilegt að stjórnarandstaðan 1959-1971, sem hafði nú fengið meirihluta, myndaði ríkisstjórn, leist Hannibal Valdimarssyni og Birni Jónssyni á tímabili jafnvel betur á að fara í ríkisstjórn með fráfarandi stjórnarflokknum. 

En Gylfi ku hafa verið áhugalaus um þetta og talið réttara að Alþýðuflokkurinn sleikti sár sín, færi í stjórnarandstöðu og byggði sig upp að nýju.

Haustið 1979 var gerð hallarbylting í Alþýðuflokknum á meðan formaðurinn, Benedikt Gröndal, var erlendis og efnt til stjórnarslita við Framsóknarflokk og Alþýðubandalag.

 

Eftir stuttar þreifingar varð að niðurstöðu að Alþýðuflokkurinn myndaði minnihlutastjórn, nokkurs konar starfstjórn þar til kosningar hefðu farið fram í desember.

Í þeim kosningum glutraðist niður hið gríðarlega fylgi sem flokkurinn fékk í kosningunum 1978.

 

Á þessum tíma fengu Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur tækifæri til að hafa samstarf í nefndakjöri á Alþíngi og komast í aðstöðu til að mynda stjórn í anda Viðreisnarstjórnarinnar 1959-1971.

En Benedkit Gröndal og fleiri ráðamenn í Alþýðuflokknum voru áhugalausir um þetta og Alþýðuflokkurinn lenti utan stjórnar á árunum 1980-1987.

Síðar kallaði Jón Baldvin Hannibalsson þetta "pólitískt umferðarslys."

Erfitt er að segja um hvort eða fleiri pólitísk umferðarslys hafi orðið eða eiga eftir að verða í núverandi stjórnarkreppu.

Kannski verður niðurstaðan sú að Framsóknarflokkurinn sleiki sár sín og byggi sig upp að nýju, eins og kratar gerðu 1971 og 1979 eftir fylgishrun, sem þó var minna hlutfallslega en hjá Framsókn nú.

  


mbl.is Framsókn áhugalaus um samstarf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri græn "þriðja hjól undir núverandi stjórn"?

Yfirlýsingar um útilokanir af ýmsu tagi strax eftir kosningar fara nú að verða hindranir, sem æ meiri líkur eru á að verði að ryðja úr vegi, eigi að mynda meirihlutastjórn á Alþingi. 

Yfirlýsing Viðreisnar um að ekki kæmi til greina hjá þeim flokki "að verða þriðja hjól undir vagni stjórnar Sjalla og Framsóknar" eru ekki aðeins hindrun í myndun slíkrar stjórnar, heldur einnig í myndun stjórna annarra flokka með bæði Sjalla og Framsókn innanborðs. 

Það er erfitt fyrir vinstri flokk að kyngja því að geta hugsað sér hlutskipti sem flokkur hægra megin við miðju getur ekki hugsað sér.

Yfirlýsing Benedikts getur að þessu leyti virkað eins og hrekkur gagnvart flokkunum, sem reyndu fimm flokka stjórnarmyndun en mistókst. 

En það verður hins vegar æ ljósara eftir því sem stjórnarmyndun dregst, að stjórn verður ekki myndun nema að aðilar hennar verði að gefa verulega eftir í ýmsum málum og éta ofan í sig ýmsar yfirlýsingar til þess að hægt sé að ná saman.  


mbl.is Leggur til D, V og B
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðreisn og Björt framtíð einu flokkarnir í báðum viðræðunum.

Af sjö flokkum á þingi hafa aðeins tveir, Viðreisn og Björt framtíð, tekið þátt í báðum þeim stjórnarmyndunarviðræðum og tilraunum sem eru að baki.

Þessir flokkar liggja nálægt miðjunni á vinstri-hægri kvarðanum, en Viðreisn þó frekar hægra megin á miðjunni og Björt framtíð vinstra megin á miðjunni. 

Af því að hvorki vinstri fjórflokkurinn né Framsjallar fengu meirihluta og Viðreisn riðlaði kerfinu þannig að pattstaða myndaðist í stað þess að fyrrverandi stjórnarandstaða hefði getað tekið við af fyrrverandi stjórnarmeirihluta, hefði mátt ætla við fyrstu sýn að Viðreisn væri í sterkri oddaaðstöðu, ekki síst vegna þess, að þessi nýi flokkur gat myndað stjórn til hægri á miðjunni með Sjálfstæðisflokki og Bjartri framtíð og þannig komið sér hjá því að verða þriðja hjól undir núverandi starfsstjórn.

En málið varð flóknara þegar í ljós kom að nú liggur fyrir að Viðreisn hefur hvorki getað samið til hægri né vinstri.

Því veldur að stefnumál flokksins stangast sitt á hvað á við stefnumál hægri flokkanna og vinstri flokkanna, þannig að það strandar á Viðreisn í báðar áttir.

Raunar er hægt að segja að þessi lýsing hér að ofan sé of einföld, mynstrið sé miklu flóknara.

En fólkið í Viðreisn verður að íhuga, hvort það geti farið svo á endanum, að í stað þess að formaður hennar myndi stjórn, verði mynduð stjórn yfir miðjuna þar sem farið verði framhjá Viðreisn.

En  slíkt hefur áreiðanlega ekki í upphafi verið ætlun þeirra sem stefnu flokksins ráða.  


mbl.is Heiðarlegast að slíta viðræðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband