Af hverju ekki á eftir sumardeginum fyrsta?

Það er nýbúið að halda Dag íslenskrar tungu hátíðlegan og fyrr í haust Dag íslenskrar náttúru.

Eins íslenskt og hugsast getur.

Á hverju vori er haldinn hátíðlegur elsti alíslenski hátíðisdagurinn, sumardagurinn fyrsti, ævinlega á fimmtudegi. 

Af hverju er "bjartur föstudagur" ekki haldinn hátíðlegur á eftir honum ef það er svona mikil nauðsyn á slíkum degi? 

Líklegt svar: Nei, þá er ekki hægt að nota þetta sem innspýtingu og upptakt í jólaverslunina.  

Nei, við verðum að gera eins og Kaninn, kalla þetta "black Friday" næsta dag eftir Thanksgiving day. 

Ekki þakkargjörðardaginn, nei, Thanksgiving day.

Þá er Kaninn að ná sér eftir hátíðarhöld Thanksgiving day og nota þennan föstudag sem innspýtingu fyrir sína jólaverslun og við verðum líka að gera það. 

Við verðum að elta Kanann, það er algert möst. 

Glöggur maður benti á á facebook í gær að Thanksgiving day hefði ekki aðeins verið tekinn upp til að þakka fyrir vel heppnað landnám á austurströnd Bandaríkjanna, heldur líka til að fagna því að búið væri að losa sig við Indíánana á svæðinu.

Við Íslendingar verðum þá að halda upp á það líka! 

Jólin eru upphaflega norræn hátíð til að fagna hækkandi sól.

Þau heita jól hjá okkur, ekki Christmas. En það er kannski stutt í að við eltum Kanann og höfum heiti þessarar hátíðar á ensku eins og Black Friday. Það væri svo sem eftir öðru. 

Þessi elsti uppruni jólanna breytir ekki því að jólin eru mesta hátíð kristinna manna og hátíð jólabarnsins og barnanna. 

En að undanförnu hafa helstu fréttir um þau verið fólgnar í spám um það hve mörgum milljarðatugum meira verði eytt í jólabísnissinn en í fyrra. 

Bísniss, bísniss, bísniss, american way. 

Aðventan hefst á sunnudaginn og kom til Íslands með kristninni, þannig að það er komin löng hefð á hana.

En engin hugmynd hefur verið viðruð hjá kaupahéðnum um að virkja upphaf hennar. Black Friday færir þeim nefnilega heila blússandi verslunarhelgi og miklu meiri auglýsingu en fyrsti sunnudagur í aðventu.

Þótt Valentínusardagurinn sé af amerískum uppruna var þó ákveðin alþjóðleg þörf fyrir þann dag, líka hér á landi.

Kannski ekkert verra að láta hann verða að degi elskendanna en hvern annan.

En Thanksgiving day og Black Friday eiga ekkert meira erindi til Íslendinga en að öll þjóðin rjúki til að halda upp á þjóðhátíðardaga annarra þjóða af sömu ákefð og okkar eigin.   

 


mbl.is „Aldrei séð þetta fyrr“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margar ríkisstjórnir komu undir á meðan ekkert umboð var.

Margar ríkisstjórnir fullveldistímans hafa orðið til án þess að forseti hafi fyrst verið gefið einhverjum sérstökum umboð til þess að mynda þær. 

Sumar þeirra komu eins og þruma úr heiðskíru lofti og stað þess að forseti hefði frumkvæði um að gefa umboð, eftir að sú leið hafði reynst árangurslaus, gekk viðkomandi stjórnmálamaður á fund hans og sannfærði hann um að hann hefði þingmeirihluta að baki ákveðnu stjórnarmynstri. 

Eitt besta dæmið um slíkt er ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens í ársbyrjun 1980. Hugmyndina að henni átti Gunnar sjálfur og tókst með hnitmiðuðum leynifundum og samtölum við þá, sem að þeirri stjórn stóðu, að koma því þannig fyrir, að hann gæti átt frumkvæði að því að ganga á fund forseta Íslands og sannfæra hann um að stjórnin yrði mynduð. 

Minnihlutastjórn Alþýðuflokksins á Þorláksmessu 1958 kom þjóðinni líka á óvart.

Heimildir um það sem gerðist bak við tjöldin dagana og vikurnar á undan benda til þess að þáverandi forseti, Ásgeir Ásgeirsson, hafi átt stóran þátt í að sú stjórn var mynduð án þess að formlegt umboð lægi beint að baki.

Ásgeir átti að baki margra áratuga þátttöku í stjórnmálum þar sem hann hafði bæði gegnt störfum forseta sameinaðs Alþingis og forsætisráðherra, auk þess að hafa verið þingmaður bæði Framóknarflokksins og síðar Alþýðuflokksins. 

Hann var því öllum hnútum kunnugur innan þessara flokka og nýtti sér það. 


mbl.is Enginn einn flokkur fær umboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur gerst oft að ekki hafa verið meirihlutastjórnir.

Ísland hefur verið "stjórnlaust" nokkrum sinnum ef menn vilja nota það orð um það ástand, sem ríkir þegar ekki situr meirihlutastjórn í landinu. 

Svokallaðar starfsstjórnir hafa setið upp í allt að fjóra mánuði, til dæmis 1946-1947 og 1949-1950 án þess að sögur fari af einhverju sérstöku stjórnleysi eða stórfelldum vandræðum á þeim tíma. 

Þessar ríkisstjórnir hafa reynt að haga málum þannig, að komast hjá því að geria eitthvað sem gæti orðið til þess að Alþingi samþykkti vantraust á þær. 

Í raun er það svipað ástand og verður, ef það tekst að klambra saman stjórn og stjórnarsáttmála, þar sem reynt er að sigla fram hjá stórfelldum árekstrum með því að gera málamiðlanir, fresta málum eða draga þau á langinn. 

Þetta gerðist þegar minnihlutastjórn Ólafs Thors sat 1941-1942, 1946-47, 1949-1950, þegar minnihlutastjórn Alþýðuflokksins sat 1949-1950, 1958-1959 og 1979-1980, og þegar minnihlutastjórn Jöhönnu Sigurðardóttir sat frá febrúar-maí 2007. 

Í mörgum tilfellum stóðu þessar minnihlutastjórnir fyrir heilmiklum aðgerðum, sem samið var um að flokkarnir, sem vörðu stjórnina falli, gerðu að skilyrði. 

1959 var til dæmis hrundið í framkvæmd langmestu breytingunni, sem gerð hefur verið á íslensku stjórnarskránni, og var tekist afar hart á um það í tvennum kosningum. 

Ef sú breyting hefði ekki verið gerð og engin breyting eftir það, væri enn möguleiki á að Seyðisfjörður gæti eyrnamerkt sér tvo þingmenn, og Framsóknarflokkurinn hefði hugsanlega getað myndað meirihlutastjórn 2013 út á fjórðung atkvæða. 

En það er til dæmis athyglisvert, að eitt af þeim skilyrðum, sem Framsóknarflokkurinn gerði fyrir stuðningi við minnihlutastjórn Jóhönnu, var að sett skyldi á fót sérstakt stjórnlagaþing til að endurskoða íslensku stjórnarskrána frá grunni. 

Þrátt fyrir meirihlutastjórnir síðan og afgerandi úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2012, hefur ekkert fengist fram í því efni í meðförum Alþingis. 

Í mörgum nágrannalöndum okkar hafa setið minnihlutastjórnir meira og minna í áratugi, og Belgía hefur verið "stjórnlaus" í hátt á annað ár á mælikvarða þeirra sem ætla að fara á límingunum yfir slíku hér á landi. 

Alþingi umbar utanþingsstjórn 1942-1944 vegna þess að engin samstaða var á þinginu um myndun meirihlutastjórnar. Ekki fara sögur af því að landinu hafi verið miklu verr stjórnað af þeirri ríkisstjórn en öðrum ríkisstjórnum á þeim tímum. 

Á valdatíma þeirrar ríkisstjórnar þurfti að sigla landinu í gegnum ólgusjó mestu styrjaldar heimssögunnar. 


mbl.is Össur vill sjá Alþingi stjórna Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband