Stanslaus síbylja rangrar notkunar hugtaka.

Varla er búið að fjalla hér á síðunni um íslenskar gufuaflsvirkjanir og andæfa síbyljunni um endurnýjanlega orkugjafa með gildum rökum og staðreyndum, sem sýna hreina rányrkju, en að það birtist ný frétt um að við séum með hæsta hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa sem þekkist meðal ríkja heims. 

Fyrsti pistillinn á þessari bloggsíðu árið 2007 af um það bil 10 þúsund, sem síðan hafa birst hér á síðunni, fjallaði nákvæmlega um þennan áróður, en það er eins og að skvetta vatni á gæs að varpa ljósi á hið sanna í málinu. 

Ef einhverjum finnst þessi skrif hér verða síbyljukennd, er því til að svara, að síbyljan var ekki hafin hér á þessari bloggsíðu, heldur með stanslausum áróðri á heimsvísu, sem ekki er hægt að láta ómótmælt. 

Því verður enn og aftur að taka fram eftirfarandi: 

Stærsta viðfangsefni jarðarbúa á 21. öld er ofið úr tveimur þáttum: Að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda og takast á við orkuskort af völdum rányrkju á orkugjöfum. 

Við Íslendingar stöndum nokkuð vel varðandi það fyrrnefnda hvað snertir framleiðslu á raforku, sem ekki veldur umtalsverðum útblæstri gróðurhúsalofttegunda, og þess vegna ætti fyrirsögnin og umræðan um þessa ágætu stöðu að túlka það. 

En orkugjafi, sem ekki felur í sér útblástur gróðurhúsalofttegunda, er ekki alltaf það sama og endurnýjanlegur orkugjafi. 

Þannig er útblástur gufuaflsvirkjana að vísu með lítið hlutfall gróðurhúsalofttegunda en orkuöflunin byggist hins vegar á rányrkju á borð við þá sem nú á sér stað í langstærstu gufuaflsvirkjun landsins, Hellisheiðarvirkjun og orkuvinnsluna á Nesjavalla-Hellisheiðarsvæðinu. 

Í forsendum gufuaflsvirkjananna er aðeins gert ráð fyrir 50 ára endingartíma, sem er langt fyrir  neðan endingartíma kolanámu, svo dæmi sé tekið, og víðsfjarri því að geta talist endurnýjanleg orka. Enda fer orkan þegar dvínandi eftir aðeins rúman áratug vinnslu.  

Hvað á maður að þurfa að birta þetta með stóru letri?

Vísa að öðru leyti í fyrri pistil og pistla um þetta mál. 

 


mbl.is Á toppnum í endurnýjanlegri orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki aðlaðandi nöfn fyrri riftunarmanna.

Saga milliríkjasaminga eru skrautleg oft á tíðum. Sumir reyndust illa og í sumum léku menn herfilega af sér, svo sem í Munchenarsamningunum 1938. 

Leidd afa verið að því rök, að svikalognið eftir þessa samning, sem entist aðeins í sex mánuði, hafi komið sér betur fyrir Þjóðverja en Vesturveldin, þvert ofan í það sem ráðamenn Breta og Frakka héldu. 

Það hefur líka reynst misvel að rifta samningum, eins og Donald Trump hefur lýst yfir að verði gert á báðar hendur þegar hann tekur við forsetaembættinu. 

Og nöfn helstu riftunarmanna fortíðarinnar hljóma ekki vel í eyrum, þeirra sem drógu Þjóðverja út úr Þjóðabandalaginu og riftu griðasáttmálum á báða bóga. 

Vonandi er ekki slíkt tímabil í aðsigi núna. 


mbl.is Hörmulegt ef Trump riftir Íranssamningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tungumálhakkarar og bandarískir kaupahéðnar gera innrás.

Á örfáum dögum eru kaupahéðnar að breyta þróun, sem hefur mátt lýsa með orðunum "hægt og bítandi" í holskeflu. Á innan við viku er búið að koma því svo fyrir, að það er verið að umkringja neytandann með bandarísku umhverfi, þar sem hin alltumlykjandi enska tunga og amerískt þjóðlíf ræður ríkjum í þágu bandarískra kaupahéðna, sem settu sér það takmark fyrir ellefu árum, að gera heila viku í kringum hinn bandaríska "Thanksgiving day" að mestu verslunarviku ársins utan sjálfra jólanna en þó í tengslum við þau.

Bandarískt óþol eftir jólagróðanum er látið vaða yfir Íslendinga. Thanksgiving er ígildi íslenskra töðugjalda, en hér á landi voru þau að sjálfsögðu haldin hátíðleg á bilinu frá ágústlokum til miðs septembers.

Hlálegt er að töðugjöld hér á landi séu að verða að prangararhátíð í lok nóvember.  

Máttur auglýsingaflóðs í fjölmiðlum er gernýttur með því að byrja að kynda undir pranginu á miðvikudegi, sökkva heilli helgi þar á eftir í "Black Friday", og veita síðan náðarhöggið áður en komist verði aftur út á íslenskan vettvang, með því að hella yfir mann Cyber Monday með eftirköstum í formi enn eins enska dagaheitisins, sem endast fram í miðja viku, ef ekki lengur, eins og sjá má á tengdri frétt á mbl.is. 

Því varla hefur Cyber Monday fjarað út en síbyljan "Tax Free-dagar heltekur auglýsingamarkaðinn. Ofan á allt eru allir neyddir til að skrifa heiti þessara framandi daga upp á ensku með stórum stöfum þar sem það á við.

Krafan um réttritun enskunnar er orðin ríkari en að skrifa og tala sitt eigið tungumál rétt.  

Nútíma Íslendingar brosa oft út í annað ef þeir lesa þá dönskuskotnu íslensku, sem notuð var um það leyti sem erlendir menn á borð við Rasmus Rask og Watson gerðust frumkvöðlar í því að bjarga íslenskri tungu og íslenska hundinum frá útrýmingu. 

Ásókn dönskunnar komst þó aldrei það langt að dönsk dagaheiti færu að ryðja burtu íslenskum dagaheitum eins og ensk dagaheiti gera nú.

Á facebook má í dag sjá aðvörunarorð varðandi hakkara, sem ráðast á lykilorð póstfanga.

En orðalagið í þessum aðvörunarorðum sýnir, að ensk heiti á hverju einu eru að verða ígildi tungumálahakkara, sem láta ekkert í friði, hvorki tungumálið né daglegt líf. 


mbl.is Dýrari á Tax Free-dögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband