Löngu tímabærar aðgerðir.

Álagið á Hæstarétt Íslands, sem hefur skapast vegna málafjöldans, sem kemur fyrir réttinn, hefur lengi verið þess eðlis, að á stundum hefur það ógnað réttarfarinu hér á landi og skaðað trúverðugleika réttarins.

Því er það fagnaðarefni þegar stigið er skref í þá átt að stofnað verði millidómsstig sem taki þetta mikla álag að hluta til sín.

Vöntun á slíku millidómsstigi var allmikið rætt í stjórnlagaráði en ákveðið að fastnegla ekkert í þeim efnum heldur láta löggjafarvaldinu það eftir að koma á umbótum.


mbl.is Mælti fyrir stofnun Landsréttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Molenbeek er ekki úthverfi.

Molenbeek hverfið í París er ekki frekar úthverfi Brussel en að Norðurmýrin sé úthverfi Reykjavíkur.

Þessi villa í fréttaflutningi er kannski ekkert stórmál, en þegar þetta er endurtekið í fréttum og meira að segja tvítekið í sömu fréttinni er varla hægt að una við þessa missögn endalaust.

Molenbeek er hverfi í Brussel, skammt frá miðborginni.


mbl.is Nafnlaus ábending um Abdeslam
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þyrlur, sírenur, vegatálmar og lokanir hafa sagt sína sögu.

Það hefur ekki farið framhjá manni frá því á þriðjudag að mikið hefur verið á seyði í nágrenninu hér í Brussel. Þyrlur hafa verið á sveimi, sírenur í gangi og mikið um lokanir á götum.Brussel. Garður.

Umferðartafir hafa verið miklar og mikið legið í loftinu.

Í morgun fréttist um það að fingraför Salah Abdeslam hefðu fundist þar sem lögreglan réðist til atlögu fyrr í vikunni.

Að vísu hefur mikið af þessu umstangi verið vegna leiðtogafundar ESB hér skammt frá, en nálægðin við hann og leitina að höfuðpaurnum að baki hryðjuverkunum í París hefur ekki leynt sér.

Tvær þyrlur, sem sveimuðu beint yfir höfðum okkar í fyrradag voru örugglega ekki í þeim leiðangri vegna leiðtogafundarins.Þyrla í Brussel

Efri myndin er tekin í garðinum hjá þeim Þorfinni og Ástrósu, en neðri myndin er tekin beint upp í loftið þar sem önnur af tveimur þyrlum sveimar yfir húsþökunum.

Þess má geta að í íslenskum fjölmiðlum hefur verið talað um það að aðsetur hryðjuverkamannanna hafi verið í "úthverfi" Brussel, en hið rétta er að það er aðeins einn kílómetra frá borgarmiðjunni.

Það er skondið að þetta skuli ekki vera í fyrsta skiptið sem maður fái tilfinningu fyrir því að vera eins konar íslenskur Forrest Gump, að vera ekki fyrr kominn á vettvang í Brussel en að eftirlýstasti glæpamaður Evrópu sé handsamaður.


mbl.is Abdeslam handsamaður í Brussel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástand hjólastíganna er mjög misjafnt.

Hjólastígar í Reykjavík eru mjög misjafnir. Sem betur fer eru margir malbikaðir og jafn sléttir og göturnar. Enn ennþá eru alltof margir þeirra steyptir og ósléttir eða þá að ástand malbiks er slæmt.

Dekk á reiðhjólum eru mjög þunn og þola mun verr hrassar brúnir og gróft lag en hjólbarðar bíla.

Sum reiðhjól eru með örþunn dekk sem þola lítið hnjask.

Engin fjöðrun er á afturhjólum reiðhjóla og ósléttir stígar eru óþægilegir.

Til eru staðir í stígakerfinu sem eru beinlínis hættulegir þar sem hvassar bríkur hafa verið látnar ólagfærðar.  

Notkun rafhjóla eða reiðhjóla með rafhjálp fer vaxandi og er umhverfisvænn og ódýr fararmáti. Eftir að vera kominn í hóp þess fólks blæs ég á mótbárur á borð við að það sé of hvasst, of kalt, of oft rigning til að nota slík hjól, og að maður á rafknúnu reiðhjóli komi í svitabaði á ákvörðunarstað.

Hægt er að skipulegga ferðina þannig að láta rafmagnið vinna sem mest af vinnunnni síðasta spölinn.

Í umræðum um umferðarmál hafa margir haft síðu í horni framkvæmda fyrir hjólafólk, og ekki minnkaði sá söngur þegar látið var í veðri vaka að það myndi kosta 270 milljónir króna að lagfæra hjólaleiðina um Grensásveg.

En sú upphæð er fengin með því að skrifa stórfellda byltingu á allri breidd götunnar á hjólafólk.

En vel er hægt að lagfæra ástandið á þeim hjólastígum sem þarna eru fyrir brot af þessum milljónum án þess að ganga til stórfelldrar umbyltingar á götunni. 

Þótt stígarnir séu að miklu leyti í arfa slæmu ástandi er það vegna viðhaldsleysis og okkur, sem hjólum, er engin vorkunn að hjóla á almennilegu slitlagi á þeim stígum sem leggja má nýtt malbiksslitlag á og gera þá sómasamlega úr garði.

Og annars staðar í borgarlandinu vantar stíga, sem frekar ætti að leggja fé í en að bylta Grensásveginum.  


mbl.is Unnið að hreinsun hjólastíga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Bleikir akrar / baggar og slegin tún..."?

"Bleikir akrar og slegin tún" eru fleyg orð sem höfð eru eftir Gunnari á Hlíðarenda um fegurð Fljótshlíðar.

Þessi orð lýsa vel fegurðarskyninu, sem nytjahyggja bænda fóstraði á Íslandi.

En ólíklegt er að hinn bleiki litur akranna Gunnars hafi verið hinn sami og á að prýða rúlluplastbaggana sem Sláturfélag Suðurlands ætlar að bjóða til sölu í ár og hvort nútíma vegfarendum muni þykja þeir svo fallegir að þeir falli inn í íðilfagra heildarmynd Íslands.

Baggar hafa hingað til verið annað hvort hvítir eða grænir, en hvort tveggja eru þekktir litir í íslenskuu landslagi, - hinn hvíti litur jökla og skafla og hinn græni litur gróins lands.

Ef halda á uppi ummælum Gunnars ætti frekar að bjóða upp á svipaðan lit og var og er á ökrum, þegar þeir taka slíkan lit á sig.   


mbl.is Bleikir baggar prýða haga í sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jörð á krossgötum. Á að vera þjóðareign.

Hvers vegna hafa fjársterkir útlendingar áhuga á Grímsstöum á Fjöllum?

Hvers vegna hafði Noregskonuungur áhuga á því forðum að eignast Grímsey?

Þegar litið er á landakortið sést að séu dregnar línur frá Mývatni austur til Egilsstaða eða yfir til Bakkafjarðar liggja þær um Grímsstaði, og lína frá sjó í Öxarfirði upp á hálendið til Kverkfjalla sker þá línu.

Grímsstaðir liggja á krossgötum þar sem skerast leiðir austur-vestur milli byggða og norður-suður milli sjávar og miðju norðausturhálendisins.

Íslenska hálendið er hjarta landsins og ímyndar þess, margfalt verðmætara en við höfum gert okkur grein fyrir.

Þrátt fyrir áskorunina um að hætta að nýta auðlindir á borð við olíu, sem eruu að ganga til þurrðar á jörðinni, sækja firnasterk valda- og fjármálaöfl í hugsanlegar orkulindir í sjó norður af landinu.

Asni, klyfjaður gulli, kemst yfir hvaða borgarmúr sem er, var forðumm sagt.

Þegar rætt var á Alþingi um að gefa Noregskonungi Grímsey, vísaði Einar Þveræingur í ræðu sinni til farmtíðarinnarr og hagsmuna komandi kynslóða, og sagði, að enda þótt þáverandi Noregskonungur gæti verið ágætis maður, vissi enginn hvernig erfingjar hans yrðu.

Mikil alda reis fyrir nokkrum árum gegn kaupum Kínverja á Grímsstöðum á Fjöllum og var það andóf ágætlega rökstutt.

Að sama skapi á ekki að leika neinn áhættuleik með þessa jörð nú, heldur koma henni í þjóðareign.

Þingvellir voru á krossgötum að fornu og Grímsstaðir eru það nú. Hvort tveggja á að vera þjóðareign, sem hvorki má veðsetja né selja.  

Þá getum við Íslendingar tekið rólegir undir ljóðlínur Nóbelskáldsins:

 

"Pósturinn gisti Grímsstaði á Fjöllum.

Gaman er þar um sumarkvöldin löng."

 

 


mbl.is Hafa áhuga á Grímsstöðum á Fjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband