Málið snýst um siðareglur þingmanna.

Tortólumál forsætisráðherrahjónanna snýst um það hvort farið hafi verið að siðareglum þingmanna, sem settar voru til þess að reyna að stöðva frjálst fall trausts almennings á Alþingismönnum, sem er í raun betur lýst sem einhverju mesta vantrausti almennings á nokkrum hópi í þjóðfélaginu.

Úr því sem komið er ætti það að vera sjálfsögð krafa að allar upplýsingar um málið komi nú þegar upp á borðið eins og þær hefðu átt að gera strax í upphafi gildistöku siðareglna Alþingismanna, í stað þess að dregið væri með það þangað til að ekki var hægt að þagga málið í hel öllu lengur.


mbl.is „Skattalegt hagræði úr sögunni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun frambjóðendafjöldinn verka hvetjandi til frekari framboða?

Það er einföld stærðfræði að ef tólf bjóða sig fram til forseta muni meðalfylgi hvers og eins verða aðeins rúm 8 prósent. Spurningin er hvort það kann að virkja frekar hvetjandi en letjandi fyrir fleiri til að taka slaginn á þeim forsendum, að það þurfi kannski ekki svo mikið til þess að verða með mest fylgi.

Í þessu felst helsti galli núverandi fyrirkomulags aðeins einnar umferðar kosningar til forseta sem gefur upp möguleika á því að forseti verði kosinn með miklum minnihluta kjósenda.

Í frumvarpi stjórnlagaráðs er sett undir þennan leka með því að leggja fram svonefnda STV-kosningatilhögun, þar sem kjósendur raða í efstu sæti á kjörseðlunum, og sú röðun síðan notuð eftir ákveðinni aðferð til að finna út þann frambjóðanda, sem flestir sætta sig við og hefur á endanum hlotið meirihluta.

Þessi aðferð, oft kölluð írska aðferðin, er notuð víða erlendis, einkum í engilsaxneskum löndum, svo sem Írlandi, Kanada, Ástralíu og Bretlandi og hefur þann kost að ná fram meirihluta að lokum án þess að til þess þurfi tvennar kosrningar, og að hún er ekki flókin fyrir kjósandann þótt úrvinnsla kjörstjórnar sé nokkuð flókin.

Galli hennar og einnig galli svonefndrar frönsku aðferðar, þar sem tvennar kosningar þarf, er sá, að á endanum hlýtur kannski frambjóðandi meirihluta sem ekki var í fyrstu með flest atkvæði í fyrsta sæti.

Merkilegt má heita að fyrst á annað borð var sett á fót stjórnarskrárnefnd til þess að setja nokkrar greinar í þjóðaratkvæði, skyldi ekki vera drifið í því að breyta ákvæðinu um kjör forseta Íslands í tæka tíð fyrir kosningarnar í sumar.

  


mbl.is Baráttan um Bessastaði harðnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með áhrif fyrir meira en 90% landsmanna.

Sundabraut styttir að vísu leiðina frá Grafarvogshverfi og Mosfellsbæ til norðvesturhluta Reykjavíkur og gagnaast þar að auki öllum, sem eiga þangað leið frá vestanverðu, norðanverðu og austanverðu landinu.

En Sundabraut er ekki aðeins fólgin í lagningu brautar yfir Elliðavog, heldur ekki síður leiðar yfir norðanverðan Kollafjörð sem styttir leiðina frá Kjalarnesi og þar með vestanverðu, norðanverðu og austanverðu landinu til nær alls höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja.

Rætt hefur verið um allt að sjö kílómetra styttingu, sem er fimmtungur styttingarinnar um Hvalfjarðargöng miðað við það að fara fyrir Hvalfjörð.

Styttingin er í raun mun meiri þegar litið er til þess hve miklu hindrunarlausari þessi leið er en núverandi Vesturlandsvegur-Miklabraut með öllumm sínum hringtorgum og þungu umferð.

Sundabraut hefur verið á dagskrá í aldarfjórðung en einhvern veginn hefur dofnað yfir áhuganum á þessari samgöngubót á þessari öld.

En ýmislegt breytist í áranna rás og það er full ástæða til þess að taka lagningu þessarar brautar til athugunar að nýju og huga að því, hvort og þá hvernig forsendur hennar hafa breyst í aldarfjórðung með endurbótum á Vesturlandsvegi.  


mbl.is Til í viðræður um gerð Sundabrautar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband