Mun frambjóðendafjöldinn verka hvetjandi til frekari framboða?

Það er einföld stærðfræði að ef tólf bjóða sig fram til forseta muni meðalfylgi hvers og eins verða aðeins rúm 8 prósent. Spurningin er hvort það kann að virkja frekar hvetjandi en letjandi fyrir fleiri til að taka slaginn á þeim forsendum, að það þurfi kannski ekki svo mikið til þess að verða með mest fylgi.

Í þessu felst helsti galli núverandi fyrirkomulags aðeins einnar umferðar kosningar til forseta sem gefur upp möguleika á því að forseti verði kosinn með miklum minnihluta kjósenda.

Í frumvarpi stjórnlagaráðs er sett undir þennan leka með því að leggja fram svonefnda STV-kosningatilhögun, þar sem kjósendur raða í efstu sæti á kjörseðlunum, og sú röðun síðan notuð eftir ákveðinni aðferð til að finna út þann frambjóðanda, sem flestir sætta sig við og hefur á endanum hlotið meirihluta.

Þessi aðferð, oft kölluð írska aðferðin, er notuð víða erlendis, einkum í engilsaxneskum löndum, svo sem Írlandi, Kanada, Ástralíu og Bretlandi og hefur þann kost að ná fram meirihluta að lokum án þess að til þess þurfi tvennar kosrningar, og að hún er ekki flókin fyrir kjósandann þótt úrvinnsla kjörstjórnar sé nokkuð flókin.

Galli hennar og einnig galli svonefndrar frönsku aðferðar, þar sem tvennar kosningar þarf, er sá, að á endanum hlýtur kannski frambjóðandi meirihluta sem ekki var í fyrstu með flest atkvæði í fyrsta sæti.

Merkilegt má heita að fyrst á annað borð var sett á fót stjórnarskrárnefnd til þess að setja nokkrar greinar í þjóðaratkvæði, skyldi ekki vera drifið í því að breyta ákvæðinu um kjör forseta Íslands í tæka tíð fyrir kosningarnar í sumar.

  


mbl.is Baráttan um Bessastaði harðnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ef allir frambjóðendur fá að meðaltali 8%, en einn þeirra fær ekki nema 1%, þá þýðir það að einhver hinna fær 15%. Fái tveir frambjóðendur ekki nema 1% þýðir það að þessi eini sem er yfir meðaltalinu fær 22%. Séu þeir þrír sem fá ekki nema 1% fær sá hæsti jafnframt 29% o.s.frv. Það er að segja miðað við þá forsendu að allir hinir fái meðaltalsfjölda atkvæða eða 8%.

Það eru nefninlega aldrei allir að fara að fá nákvæmlega jafn mörg atkvæði, og meirihluti þeirra sem hingað til hafa lýst yfir framboði eru ekki líklegir til að fá mikið meira en 1% hver. Þess vegna eru allar líkur á því að sá sem fái flest atkvæði verði með nálægt þriðjungi atkvæða eða meira.

Fólk sem hefur skoðun á kosningamálum ætti að kynna sér fyrirbærið "tölfræðileg normaldreifing" áður en það dregur álykktanir útfrá meðaltalságiskunum, sem segja ekkert um raunverulega dreifingu atkvæða.

Þessi gagnrýni á okkar lýðræðislega kosningafyrirkomulag á engan rétt á sér, og er í raun aðeins lítt dulbúin birtingarmynd andúðar á forsetanum og embætti hans fyrir að hafa tekið málstað almennings gegn borgunarsinnum í Icesave málinu. Þeir sem þannig tala hafa sannarlega rétt á skoðunum sínum, en væru menn að meiri ef þeir kæmu þá hreint fram með þær í stað þess að dulbúa þær með einhverjum innihaldslausum fullyrðingum um kosningakerfið.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.3.2016 kl. 11:45

2 identicon

Það er enginn að pæla í þessum kosningum.  Ég sé enn fyrir mér Bjarna Ben bíðandi á skrifstofunni og Sigmund í flugvélinni á leiðinni til Flórída.  Það er ekkert hægt að laga þetta atriði með einhverjum excelskjölum eða prósentureikningi.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 21.3.2016 kl. 11:52

3 identicon

Stjórnarskrárnefnd hafði það umfram stjórnlagaráð að þar var ekki fyrir hendi hvati til að breyta bara til að breyta. Þetta kosningafyrirkomulag hefur virkað ágætlega hingað til og engin ástæða til að ætla að breyting verði þar á.

Í stjórnarskrárnefndum er viss tregða til að breyta og því aðeins reynt að breyta því sem þörf er á. Í stjórnlagaráði var mikill hvati til að breyta öllu sem hægt var að breyta burtséð frá því hvort þörf væri á eða ekki.

Hábeinn (IP-tala skráð) 21.3.2016 kl. 12:04

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012:

1.
Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

Já sögðu 67,5%.


2.
Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?

Já sögðu 82,9%.


3.
Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?

Já sögðu 57,1%.


4.
Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?

Já sögðu 78,4%.


5.
Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?

Já sögðu 66,5%.


6.
Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Já sögðu 73,3%.

Þorsteinn Briem, 21.3.2016 kl. 12:21

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

"11. gr. Til þess að spurning eða tillaga sem er borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslu teljist samþykkt þarf hún að hafa hlotið meiri hluta gildra atkvæða í atkvæðagreiðslunni."

Sem sagt ekki meirihluta þeirra sem eru á kjörskrá hverju sinni.

Lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna nr. 91/2010


Já sögðu 48 og enginn sagði nei

Þorsteinn Briem, 21.3.2016 kl. 12:22

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þjóðaratkvæðagreiðslur hér á Íslandi eru einungis ráðgefandi nema á grundvelli 26. greinar stjórnarskrárinnar:

"26. gr. [...] Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar og fær það þó engu að síður lagagildi en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu.

Lögin falla úr gildi ef samþykkis er synjað en ella halda þau gildi sínu."

Lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna nr. 91/2010

Þorsteinn Briem, 21.3.2016 kl. 12:25

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

17.6.2004:

"Svisslendingar, Írar og Frakkar hafa ekki gert lágmarksþátttöku að skilyrði fyrir gildi þjóðaratkvæðagreiðslu."

"Engin skilyrði um lágmarksþátttöku [í þjóðaratkvæðagreiðslum] eru fyrir hendi á Írlandi og raunar má finna dæmi þess frá 1979 að breytingar á stjórnarskrá hafi verið samþykktar í kosningum með innan við 30% þátttöku."

"Franska þjóðin kaus um Maastricht-sáttmálann árið 1992 og árið 2000 var þjóðaratkvæðagreiðsla um styttingu á kjörtímabili forsetans úr sjö árum í fimm.

Engin skilyrði um lágmarksþátttöku voru í þessum kosningum og úrslit kosninganna árið 2000 voru bindandi, þrátt fyrir aðeins um 30% kosningaþátttöku."

Rúmlega 460 þjóðaratkvæðagreiðslur í Evrópu frá 1940

Þorsteinn Briem, 21.3.2016 kl. 12:27

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Forsetakosningar árið 1980:

Vigdís Finnbogadóttir fékk 33,8% atkvæða,

Guðlaugur Þorvaldsson fékk 32,3% atkvæða,

Albert Guðmundsson fékk 19,8% atkvæða,

Pétur J. Thorsteinsson fékk 14,1% atkvæða.

Þorsteinn Briem, 21.3.2016 kl. 12:48

9 identicon

Getur einhver leiðrétt þessa sögu?  Þjóðin er föst í þætti af Óvæntum endalokum nema bara að þátturinn hélt áfram.  Þetta er ekki góð tilfinning.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 21.3.2016 kl. 14:29

10 identicon

Þegar fólk sér hverjir eru í framboði þá er mjög auðvelt fyrir meðalJón að sjá að hann er margfalt betri kostur.

Þegar Ólafur Ragnar var kosin þá dróg Guðrún Péturs sig til baka og í dag eru mun öruggari skoðanakannair í gangi.

Kjósendur munu ekki nenna að fara á kjörstað til að henda atkvæðinu sínu í ruslið.

Eða vilja menn meina að kjósendur séu fífl?

Grímur (IP-tala skráð) 21.3.2016 kl. 18:40

11 identicon

það koma fram turnar, 2-3 svo fjöldi minni spámenna með 1-2% munu ekki skipta máli. 2ja umferða kosning átti að vera í upphaflegri stjórnarskrá eins og hjá frökkum.

GB (IP-tala skráð) 21.3.2016 kl. 19:04

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er nýtt fyrir mér að vera vændur um að vera á móti forsetaembættinu. Sem betur fer eru til næg gögn um það úr starfi stjórnlagaráðs hve ég lagði mikla áherslu á að þessi eini þjóðkjörni embættismaður þjóðarinnar fengi verðugt og nauðsynlegt hlutverk í stjórnskipuninni.

Ómar Ragnarsson, 21.3.2016 kl. 19:49

13 identicon

Það er rétt að sá möguleiki er vissulega fyrir hendi að forseti verði kjörinn í sumar með mjög lágt hlutfall atkvæða hvað sem úrslitum úr fyrri kosningum líður. Það væri mjög slæmt fyrir embættið og þann einstakling sem hlýtur slíka kosningu. Fjöldi meðmælenda til að framboð teljist gilt hefur staðið í stað þrátt fyrir að íbúafjöldi hafi nánast þrefaldast frá 1944. Það er Alþingi til vansa að hafa ekki komið í verk að lagfæra svo augljósan galla í stjórnarskrá okkar sem ekki ætti að vera neinn ágreiningur um.

Afraksturinn af slóðaskap Alþingis er að það er farið að líta á það sem einhvers konar samkvæmisleik að bjóða sig fram til að gegna æðsta embætti þjóðarinnar. Það getur hver og einn spurt sjálfan sig hvers þessi stofnun, sem er jafnaldri sjálfstæðis okkar, eigi að gjalda.  

Ólafur Bjarni Halldórsson (IP-tala skráð) 21.3.2016 kl. 20:56

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Alþingi er miklu eldra en sjálfstæðið, sem íslenska þjóðin nýtur í dag.

Ómar Ragnarsson, 21.3.2016 kl. 21:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband