Léttir að hluta til, - en líka mikil vonbrigði.

Drög að lokaáfanga þriðja áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar verkefnanefndar rammaáætlunar, sem kynnt voru í dag, eru að hluta til léttir vegna þeirra virkjanakosta, sem nú er búið að færa í verndarflokk.

Þessir kostir eru einkum á miðhálendinu, þar sem munar um hvern áfanaga í þá átt að stofnsetja stóran þjóðgarð.

Sá kostur að sökkva Krókdal með virkjun í Skjálfandafljóti, sem lýst var hér á síðunni um daginn, ætti nú að vera úr sögunni og sömuleiðis stórfelldar hugmyndir um virkjun jökulsánna suður af Skagafirði, sem áttu að að fóðra komandi álver við Skagaströnd á orku.

Þjórsárfossavirkjun, virkjun stórfossanna þriggja í Efri-Þjórsá, sem gengið hefur undir dulnefninu Kjalölduveita og þar áður Norðlingaölduveita, er samkvæmt þessum drögum komin í verndarflokk, og Búlandsvirkjun, sem ætti auðvitað að heita Skaftárvirkjun, sömuleiðis.

En Skrokkölduvirkjun með sinni 65 kílómetra löngu háspennulínu langt inn á hálendið er enn á borðinu, - virkjun sem veldur slæmum umhverfisáhrifum fyrir sáralitla orku, 35 megavött.

Aðförin að Mývatni er í sama fari og fyrr með Bjarnarflagsvirkjun og aðgerðarleysi gagnvart afleiðingum af fjölgun ferðamanna við vatnið.

Og við Kröflu virðist sami feluleikurinn vera í gangi og hingað til varðandi virkjanaframkvæmdir þar sem að hluta til er sótt inn á Leirhnjúks-Gjástykkis svæðið.

Og ásóknin í virkjanir í "ruslakistu rammaáætlunar" á Reykjanesskaga, svo sem við Eldvörp og Krýsuvík, er í fullum gangi.

Fleira mætti nefna sem veldur miklum vonbrigðum.

Þótt með þessum drögum verkefnisstjórnar rammáætlunar felist von um ákveðna áfangasigra í baráttunni við hernaðinum gegn landinu má búast við að Jón Gunnarsson og þingmeirihlutinn, sem hann er í, muni leggja sig fram síðasta ár kjörtímabilsins til að reyna að koma einhverjum af þeim kostum, sem settir voru í verndarflokk, yfir í orkunýtingarflokk.

Boðað er að 28 virkjanakostir í viðbót verði næst á dagskrá verkefnisstjórnar rammaáætlunar.

Allt þetta stingur í stúf við hin Norðurlöndin, þar sem tími stórra virkjana leið undir lok fyrir fjórtán árum.   


mbl.is Mikilvægur áfangi fyrir náttúruvernd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varaformaður Framsóknar: Bara persónuleg kennitala viðkomandi.

Í útvarpsviðtali í morgun sagði varaformaður Framsóknarflokksins að í aflandsfélagamálunum svonefndu og hliðstæðum málum ætti aðeins að skoða fjármál sem væri skráð á persónulega kennitölu viðkomandi.

Samkvæmt þessari kenningu skipta aðrar kennitölur ekki máli, hvorki maka né einkahlutafélaga sem menn kunna að stofna til að færa fjárhagslega starfsemi sína til.

Nú ætti almenningur að skilja hvers vegna hann á að falla fram og samþykkja það að forsætisráðherranum hafi ekki borið skylda til að greina frá eignum konu hans.

Og ef SDG hefði átt svona peninga sjálfur hefði hann samkvæmt þessum Framsóknarskilningi getað stofnað ehf um þá fjármálastarfsemi sem þá hefði þá ekki komið nokkrum við, úr því að hún var ekki skráð á persónulega kennitölu hans.

Í ljósi þessa er skiljanlegt að forystumenn Framsóknarflokksins fari fram á það við almenning að hann falli fram og lofi og tilbiðji forsætisráðherrann fyrir að hafa veitt upplýsingar sem honum hafi ekki borið skylda til að veita, já, og sjái, að auðvitað á ekki að orða vantraust á ráðherrann, heldur þvert á móti, - hans sé mátturinn og dýrðin að eilífu. Amen.

 


mbl.is Snýr fyrst og fremst að Sigmundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í 1100 ár hefur sjórinn tekið þúsundir Íslendinga.

Það er þekkt fyrirbæri að meira að segja dýr, sem stundum eru kölluð skynlausar skepnur, hafa í sér innbyggð viðbrögð vegna reynslu margra kynslóða, sem á undan komu.

Þúsundir Íslendinga hafa farist í sjóslysum síðan landið var byggt, og það ástand, að sjóslys séu allt í einu horfin, er alveg nýtt fyrirbrigði.

Á 20. öld fórust líklega meira en þúsund manns í sjóslysum og voru mörg þeirra afar mannskæð, svo sem þegar togarinn Júní fórst 1959 með 30 manns.

Halaveðrið á þriðja áratugnum var dæmi um ofboðslegar mannfórnir, sem færðar voru til þess að þjóðin gæti lifað af sjávarfangi.

Afleiðingin hlaut að verða almenn hræðsla við hafið, "innbyggt í fólk" eins og Kári Logason orðar það, og kannski þarf margar kynslóðir til þess að aftengja þessa hræðslu.


mbl.is Íslendingar hræddir við hafið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gera þingmenn og ráðherrar, beinir þjónar fólksins?

Þingmenn eru í beinu trúnaðarsambandi við kjósendur sína og almenning í landinu, og þegar þeir verða ráðherrar verður það trúnaðarsamband enn mikilvægara.

Gjaldkeri stjórnmálaflokks er hins vegar ekki í slíku beinu trúnaðarsambandi við almenning. 

Engu að síður hefur Vilhjálmur Þorsteinsson sagt af sér vegna aflandsmáls sem tengist Luxemborg.

Það hefur margoft komið fram áður að í gegnum tengsl sín við CCP, sem keppir á alþjóðlegum markaði, og svipaða starfsemi, hefur Vilhjálmur fjárfest í Luxemborg.  

Seyselle-eyjar og Tortóla eru hins vegar talin mun meiri "skattaskjól" en Luxemborg, svo að ef þingmenn og ráðherrar fara að fordæmi Vilhjálms ættu þeir að segja af sér.

Og enn frekar ef þeir hafa árum saman leynt eignum sínum í þessum skattaskjólum.  

En eins og er rembast þeir eins og rjúpur við staura við að sitja sem fastast og bera af sér nokkrar siðferðilegar skyldur við kjósendur sína.


mbl.is Hættir sem gjaldkeri Samfylkingarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband