Tónninn gefinn í fordyri landsins.

Útlendingar lokkast til Íslands á þeim forsendum að hér sé að finna ósnortna náttúru sem eigi ekki sinn líka í heiminum.

Í sjálfu fordyrinu, Leifsstöð, og út frá henni er hins vegar allt annar tónn sleginn.

Á leið inn í Leifsstöð blasir við risastór auglýsing Landsvirkjunar með mynd af sundurristum bakka Hafrahvammagljúfurs þar sem tilbúinn foss, stærsti foss landsins í nokkra daga eða mest 2-3 vikur í september, steypist ofan í gljúfur, sem alla aðra tíma ársins hefur verið svipt skapara sínum, Jöklu,  og horfir myrkvað, steindautt og autt við þeim tiltölulega fáu sem þarna koma þrátt fyrir malbikaðan veg alla leið.

Samkvæmt niðurstöðu rammaáætlunar á sínum tíma fól Kárahnjúkavirkjun í sér mestu mögulegu óafturkræfu neikvæðu umhverfisáhrif og landspjöll á Íslandi á sínum tíma en samt velur Landsvirkjun þennan stað til sýningar, þótt vel hefði mátt birta mynd af Ljósafossvirkjun eða Búrfellsvirkjun sem tákn fyrir vatnsorku Íslands.Hverandi 18.10.15

Myndin hér af fossinum Hverfanda er sú skásta sem hægt er að taka af þessu yfirfalli af Kárahnúkastíflu, en á mynd Landsvirkjunar sést öll hin niðurskorna renna, sem vatnið rennur eftir að fossinum.

Nú hamast Landsnet við að vaða yfir allt og alla með nýja risaháspennulínu til að tryggja að ferðamenn fái engan frið fyrir slíkum mannvirkjun, hvert sem ekið er.Eldvörp. Grindavík í fjarska.

Og senn hefjast framkvæmdir við að framlengja virkjanasvæðið við Svartsengi, sem hið tilbúna Bláa lón er hluti af, 15 kílómetra þaðan og í sjó fram fyrir vestan Grindavík og ramma inn í gufuleiðslur, háspennulínur, vegi, borholur og stöðvar- og skiljuhús gígaröðina Eldvörp, sem á engan sinn líka fyrr en austur við Lakagíga eða norður í Mývatnssveit.

Á myndinni er horft yfir hluta af þessari rúmlega tíu kílómetra löngu gígaröð, og sést glytta í Grindavík og Atlantshafið.

Ekki veit ég hvað ferðabloggararnir í tengdri frétt á mbl.is myndu segja, ef þeir vissu af öllu þessu ofan á það sem þeir kalla "sóun á tíma, peningum og sálu" sinni í Bláa lóninu.    


mbl.is Sóun á tíma, peningum og sálu þinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svikin söluvara græðgisþjóðar.

Þingvellir, Gullfoss og Geysir, öðru nafni Gullni hringurinn, eru þekktasta söluvara mörg hundruð milljarða króna atvinnuvegar, sem skilar gjaldeyri rakleitt í þjóðarbúið.

Skömmu fyrir síðustu aldamót var hafin stórsókn í þá veru að afskrifa alla aðra möguleika til atvinnuuppbyggingar hér á landi nema stóriðju, og "eitthvað annað" gert að skammar- og háðsyrði.

Þar á ofan buldi síbyljan um að enga ferðamenn væri hægt að fá til landsins að vetrarlagi.

Nú hefur ferðaþjónustan samt orðið öflugasti atvinnuvegur þjóðarinnar og vöxturinn hvað mestur á veturna, - skapar tæp þrjú þúsund ný störf á hverju ári, en eftir sem áður ríkir algert tómlæti í garð hennar þegar kemur að því að standa að henni af einhverju viti.

Í þeim efnum ríkja hin fleygu orð um að við ætlum sjálf "að græða á daginn og grilla á kvöldin".

Ástandið við Geysi hefur verið þjóðarskömm í áratugi og í því felst að selja svikna vöru að loka aðgengi að Gullfossi með keðju og gera ekkert þar til að tryggja öruggt aðgengi að fossinum og vörslu við hann.

Gullfoss sést ekki nema að hluta til ofan frá bílaplaninu og þar að auki standa ferðamenn þar það langt frá honum, að upplifunin verður ekki nema brot af því sem hún er með því að ganga niður að norðurenda neðri fossins eins og fólk getur gert og gerir margt að sumarlagi.

Á sama tíma og talið er skylt að ryðja snjó og klaka af þúsundum kílómetra af gangstéttum og hjólastígum í Reykjavík (sem reyndar er hvergi nærri sinnt nægilega) er ekki eytt krónu í það einfalda verkefni að halda nokkur hundruð metra göngustígum og öryggisgæslu við helstu ferðamannastaði í nothæfu ástandi fyrir brotabrotabrot af þeim tekjum sem ferðaþjónustan skapar.

Tillögur nefndar sem lagði fram tillögur um úrbætur og framkvæmdir við tugi tilgreindra ferðamannastaða fyrir fjórum árum var einfaldlega stungið undir stól.

Þannig er allt á sömu bókina lært í þessum málum.  

 


mbl.is Rústum ferðaþjónustu líkt og síldinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Órólega hornið á Evrópu" og vandræða bandamaður.

Í aðdraganda Heimsstyrjaldarl fyrir rúmri öld var Balkanskaginn oft kallaður "órólega hornið á Evrópu."

Á skaganum laust saman trúarbrögðum og ólíkum menningarheimum þáverandi stórvelda, sem leiddi af sér styrjaldir, sem þó breiddust ekki út fyrr en allt fór í bál og brand eftir morðið á ríkisarfa Austurríkis 28. janúar 1914.

Þegar Tyrkjaveldi féll varð lítill hluti Tyrklands eftir í suðausturhorni Evrópu og múslimatrú var nokkuð útbreidd á því svæði á Balkanskaga sem Tyrkir misstu.

Í Balkanófriðnum eftir upplausn Júgóslavíu í lok síðustu aldar blossuðu upp átök, sem áttu rót í trúarbragðadeilum.

Tyrkland er erfiður og varasamur nágranni fyrir löndin í kring.

Tyrkir frömdu grimmilegt þjóðarmorð á Armenum fyrir öld, sem þeir vilja ekki viðurkenna enn í dag.

Þeir hafa sýnt og sýna áfram Kúrdum vægðarlausa grimmd, og vegna veru sinnar í NATO flækja þeir öll stjórnmál í miðausturlöndum, reyna að láta líta út sem þeir geti komist inn í ESB en eru ekki tækir vegna ástandsins í landinu.

Við suðausturbæjardyr Evrópu leynist mesti vandi álfunnar um áratuga skeið af völdum flóttamannavandans og upplausnarinnar í Sýrlandi.

Sú ætlan Bandaríkjamanna að "hreinsa til" með innrásinni í Írak 2003 og öflugum stuðningi við svonefnt "Arabískt vor" 2011 var hrapalleg gjörð sem hefur skapað óskapleg vandræði, stríðshættu og ólgu, sem sendir skjálfta í gegnum alla Evrópu.  


mbl.is Dulin tilraun til útrýmingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband