Eitt af kjörorðum Þjóðfundanna.

Á tveimur afar athyglisverðum Þjóðfundum, þar sem 1000 manna slembiúrtak úr þjóðskrá settist á rökstóla einn dag, voru nokkur kjörorð lögð til grundvallar um það hvernig ætti að vinna úr Hruninu.

Einnig var unnin gagnmerk og ítarleg skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis og ætla hefði mátt að þetta einstaka veganesti hefði átt að skila einhverju.

Meðal kjörorðanna voru heiðarleiki, gagnsæi og virkt lýðræði, en atburðir síðustu vikna eru einmitt dæmi um að á þetta allt skortir enn í stjórnmálum.

Í kjölfar Þjóðfundanna kom mikil vinna stjórnlaganefndar skipaða sérfræðingum, sem skilaði af sér ríflega 800 blaðsíðna grunni fyrir nýja stjórnarskrá sem stjórnlagaráð skilað síðan af sér nýrri stjórnarskrá til forseta Alþingis í júlí 2011. 

Í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2012 var fylgi við hana í kringum 65-70 prósent ef ég man rétt.

En í dag stöndum við frammi fyrir því að vera í sömu sporum og strax eftir Hrun, að óheiðarleiki, leynd og skortur á lýðræði ráða enn ríkjum að mestu.  

Spurningin "hvað er í gangi?" sem var inntakið í Hraðfréttum rétt áðan, er spurningin um þessar mundir.

Svarið liggur í því að þau valdaöfl, sem reyna að koma í veg fyrir umbætur, hafa í krafti auðs og aðstöðu getað komið fram vilja sínum nú sem fyrr.

Umbótaöflin hafa verið of sundruð og of flækt í atburðarás síðustu tíu ára til þess að ná að sýna samstöðu og vilja til samvinnu.    


mbl.is Vilja reka heiðarleg stjórnmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju ekki fleiri ríki?

Sádi-Arabía er einræðisríki stórfelldra mannréttindabrota á grundvelli forneskjulegra trúarbragða.

Valdhafarnir eru umvafnir rotinni spillingu.

En ekkert ríki heims vogar sér annað en að makka rétt við þetta olíuauðugasta ríki heims, sem ræður ferðinni í orku- og efnahagsmálum heimsins.

Sérkennilegt er af hverju Sádar taka einir ríkja óstinnt upp að njóta ekki lengur friðhelgi bandarískra dómstóla vegna hryðjuverkaárása á bandarískri grund.

Af hverju gera ekki fleiri ríki það?

Við fyrstu sýn virðist það benda til að Sádarnir hafi óhreint mjöl í pokahorninum.

Eða þá að hinir firrtu valdhafar telja sig vera í svo sterkri stöðu vegna olíuauðsins, að þeir komist upp með það sem aðrir þora ekki.  


mbl.is Hóta að selja allar bandarískar eignir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt miklu betra hér í gamla daga?

Þegar bilanir hafa orðið í flóknum rafeindabúnaði nýjustu bílanna hef ég stundum sagt í hálfkæringi með röddu gamla mannsins hans Ladda: "Þetta var allt miklu betra hér í gamla daga."

Það urðu smá tímamót fyrir nokkrum árum þegar BMW setti nýja gerð BMW 5 á markað og margir bílablaðamenn tóku sig til og felldu einkunn sína fyrir bílinn úr 5 stjörnum niður í 3, eingöngu vegna hins dýra og margslungna rafeindabúnaðar bílsins, sem var svo flókinn, að nýr eigandi þurfti nánast að fara á tölvunámskeið til þess að geta gangsett og ekið af stað.

Það var ekki einu sinni hægt að setja miðstöðina í gang nema að lesa drjúglangan kafla um þann verknað í hnausþykkum leiðbeiningarbækling í bílsins.

Ég minnist Jeep Cherokkee jeppans sem Stöð 2 átti og drapst á inni í Þórsmörk.

Það varð að láta draga hann þaðan alla leið til Hvolsvallar vegna þess að smá raki komst í tölvukubb í bílnum.

Enn verra kom upp í hitteðfyrra á Sauðárflugvelli, sem er upp við Brúarjökul, 128 kílómetra frá Egilsstöðum.

Þar fór bíllinn, sem ég var á, allt í einu ekki í gang og eftir mikið basl var eina ráðið að ná í viðgerðarmenn frá Egilsstöðum.

Þeir komu bílnum í gang en þegar drepið var á honum við verkstæðisdyr á Egilsstöðum fór hann heldur ekki í gang.

Þessi staður fyrir bilaðan bíl var skárri en sá fyrri, - verkstæðisdyr, - og orsökin reyndist vera bilun inni í tölvukubbnum í bíllyklinum.


mbl.is Ný tækni við bílþjófnaði vekur ugg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband