"Ég hélt að Eyjabakkar væru gata í Breiðholtinu."

Sagan um strútinn sem stingur höfðinu í sandinn og heldur, að þar með sé hann úr allri hættu, er þekkt. Hann losnar við allt sem er óþægilegt og dæmir allt út frá vanþekkingu sína í myrkrinu.

Þeir sem hafa barist fyrir og berjast enn fyrir því að troða sem stórkarlalegustu mannvirkjum á allt hálendi Íslands hafa eðlilega amast við því að almenningur vissi eitthvað um það.

Þess vegna var þess krafist að ég yrði rekinn úr starfi í Sjónvarpinu fyrir það eitt að hafa sýnt virkjanasvæðin áður en þeim yrði umturnað og sýna jafnvel landsvæði sem síðar voru eyðilögð gersamlega til eilífðar eins og Hjalladalur, sem meira að segja var nafnlaus þangað til setja varð á hann nafn eins og allt annað sem fjalla þarf um eða veita upplýsingar um.

Í sjónvarpi sagðist Davíð Oddsson hafa haldið, eins og velflestir landsmenn, að Eyjabakkar væru ekki til nema sem gata í Breiðholtinu.

Þessi röksemd átti að duga til þess að réttlæta að þeim yrði sökkt, - þeir væru svo ómerkilegir að enginn þekkti þá nema örfáir sérvitringar.

Áfram hafa þessi rök verið notuð og málið einfaldað með því að segja að aðeins sé um að ræða ómerkilegar urðir og sanda, sem væri þjóðþrifamál að drekkja í "snyrtileg og falleg miðlunarlón."

Svo vill reyndar til að bestu svæðin fyrir miðlunarlón hafa verið og eru í dölum, sem eru oftast einu grænu og grónu svæðin á hálendinu.

Ætla að setja inn nokkrar myndir af slíkum svæðum í kvöld og kannski með mynd af Hálslóni eins og það er á þessum árstíma. .

En ef menn vilja endilega afgreiða "grjót" sem einskis vert fyrirbæri, liggur beint við að vaða inn í Öskju, Jökulsárgljúfur, Friðland að Fjallabaki og hvaða annað náttúruverðmæti sem er gert úr grjóti. 

Ef út í það er farið er skilgreiningin "grjót" ansi víðtæk. Gígar, eldvörp, stuðlaberg, tindar, fjöll og víðerni um allt land.  


mbl.is Hálendið betra heilt en gróið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjúgverplum kastað á loft til að hefja "steingelt þras".

Sjónvarpsþátturinn Eyjan skiptist í tvö horn í gær. Í fyrri hlutanum komu fram tveir ungir og hæfileikaríkir frambjóðendur með jákvæðum, uppörvandi, framsýnum og víðsýnum málflutningi í formi innihaldsríkra umræðna frekar en "kappræðna" sem lúta lögmálum hanaslags og skítkasts.

Andri Snær Magnason hefur skýra framtíðarsýn, sem lífsnauðsyn er fyrir þjóðir heims að tileinka sér þegar við blasir og ég vil túlka svona:

"Aðeins ein jörð  /

á henni plágur mæða  / 

auðlindir þverra ef að þeim er sótt  /

aðeins til skamms tíma að græða...", -

og að við blasa tröllaukin verkefni á 21. öldinni  við að vinda ofan af slæmum umhverfisáhrifum af völdum núlifandi jarðarbúa og þess verks að efla lýðræði og jafnrétti.  

Í síðari hluta Eyjunnar var annar tveggja frambjóðenda hins vegar bergmál af hasar og átakastjórnmálum liðinnar aldar, sem Halldór Laxness lýsti svo vel í frægum þætti með orðunum "þetta steingelda þras".

Nóbelskáldið lýsti þessu steingelda þrasi sem böli á borð við hallæri, eldgos og hungur liðinna alda, og væri að því leyti sýnu verra, að þrasið væri af mannavöldum.

"Stjórnandi," bað Laxness, "er til of mikils mælst að reynt sé að lyfta þessum umræðum á bara örlítið hærra plan, - bara örlítið hærra plan?"

Í viðtalsbók við Ásdísi Höllu Bragadóttur lýsti Davíð Oddsson því vel hvaða aðferðir hann notaði meðan hann var í stjórnarandstöðu í borgarstjórn, í aðdraganda kosninganna 1982.

Hann kvaðst hafa leitað uppi alls konar atriði, sem jafnvel kæmu valdsviði borgarstjórnar ekkert við, en væri þó með síbylju hægt að klína á hana. 

Á öðrum vettvangi lýsti Davíð þessari aðferð með smíði nýyrðis, "smjörklípuaðferðin."

Davíð hóf kosningabaráttu sína á dögunum á nokkuð þekkilegan hátt með yfirvegðum blæ góðsemi og kímni. Hefðí betur haldið áfram á þeirri braut.

En fljótlega fór hann í sitt gamla far, að "leita að einhverju á hann".

Í gær sakaði hann Guðna Th. til dæmis um það að hafa sagt, Þorskastríðin hefðu bara verið þjóðsaga og ekki hið minnsta afrek hjá þjóðinni "allt saman".

Gamalt trix sem lýst var forðum daga með vísunni:

 

"Lastaranum líkar ei neitt. /

Lætur hann ganga róginn. /

Finni hann laufblað fölnað eitt / 

fordæmir hann skóginn.

 

Laufblöðin voru þau að Guðni hefði dirfst að greina frá þeirri staðreynd , að enda þótt þjóðin stæði sem órofa fylking að baki hverri útfærslu landhelginnar, þann dag sem hún tók gildi, hefði stundum verið ágreiningur í aðdragandanum og einnig varðandi framkvæmd íslensku baráttunnar.

Það er staðreynd, að rétt eins og í sjálfstæðisbaráttunni forðum voru menn sammála um lokatakmarkið, voru samt svo hatrömm átök innanlands um útfærslu landhelginnar 1958, að litlu munaði að ríkisstjórnin spryngi út af þeim síðsumars eins og Lúðvík Jósepsson lýsti frá sínu sjónarhorni í bæklingi sem hann gaf út um málið.

1961 myndaðist djúp gjá milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Stjórnarandstaðan lýsti samningnum við Breta sem landráðum og lýsti yfir því, að hún teldi sig óbundna af loforði Íslendinga í samningnum um að bera álitamál um landhelgismálið framvegis undir Alþjóðadómstólinn í Haag.

Í heilan áratug var tekist á um þetta og heil kosningabarátta fyrir Alþingiskosningarnar 1971 og kosningarnar sjálfar snerust um landhelgismálið, sem felldi Viðreisnarstjórnina.

Í kjölfarið kom síðan útfærslan 1972 í 50 mílur.

Ásakanir Davíðs um óþjóðhollustu Guðna eru bjúgverplar (bjúgverpill=boomerang) sem hann kastar, því að flokkur hans sjálfs stóð á tíu ára tímabili frammi fyrir ásökunum þáverandi stjórnarandstöðu á hendur Viðreisnarstjórninni um "landráð" með samningunum 1961.

Enn fleiri bjúgverplum hafa Davíð og fylgismenn hans verið að kasta að þeim forsetaframbjóðendum, sem Davíð sækir nú að og vænir um óþjóðhollustu í ESB og Icesavemálum.

Sjálfur Davíð var sem formaður áramótanefndar Sjálfstæðisflokksins 1989 eindreginn fylgjandi aðildarumsóknar að ESB, varði Landsbankann og Icesave 2008 og lýsti yfir því opinberlega innanlands sem utan að bankakerfið íslenska væri traust og á bjargi byggt.

Hafnaði tilboði breska seðlabankans á útmánuðum um samvinnu við að hemja Icesave og útþensluævintýri íslensku bankanna.

Að vísu talaði Davíð á annan veg í nokkrum einkasamtölum inn á við, en út á við alls ekki, heldur þverneitaði því að nokkuð væri að og nokkuð þyrfti að gera.

Sem Seðlabankastjóri stóð hann með ríkisstjórn Geirs Haarde að því að leita samninga við Breta og Hollendinga um Icesave, sem á þeim tímapunkti var á verri nótum en Icesave I, og Ólafur Ragnar Grímsson undirritaði raunar þann samning.

Ásakanir Davíðs á hendur mótframbjóðendum sínum eru því bjúgverplar í anda smjörklípuaðferðarinnar.

Nú spyr ég eins og gert var forðum í sjónvarpssal: "Er til of mikils mælst að reynt sé að lyfta þessari umræðu á örlítið plan?"

Ég lýsi eftir þeim Davíð Oddssyni, sem mér hefur alltaf líkað best við og hefur margt ágætt gert um tíðina þrátt fyrir ýmis mistök, sanngjörnum, málefnalegum, jákvæðum og skemmtilegum Davíð.

Umræða þeirra Davíðs og Guðna hefði getað orðið jafn uppbyggjandi og umræða þeirra Höllu og Andra Snæs ef hið "steingelda þras" til að búa til leðjuslag hefði ekki verið keyrt af stað af öðrum þátttakandanum í síðari hluta forsetaþáttar Eyjunnar.   


mbl.is Hart tekist á í forsetakappræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. maí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband