"Einsetukonurnar" í Hvammi. Þjóðarkrafan 1976.

Þegar ég var fimm sumur að Hvammi í Langadal árin 1950-54 bjuggu þrjár nokkurs konar einsetukonur í gömlum, hálfhrundum torfbænum, skammt frá íbúðarhúsinu, sem var úr steinsteypu og þá 18 ára gamalt.

Þessar þrjár konur, móðir og tvær dætur, voru niðursetningar á kostnað sveitarsjóðs, en í einu herbergi íbúðarhússins bjó fjórði niðursetningurinn, sem einnig var kona.

Hún var einsetukona að því leyti til að hún dvaldi ávallt ein í herbergi sínu án þess að vera á ferli að öðru leyti innan húss, en að fór út og kom heim þegar hún fór í stanslausar gönguferðir sínar um dalinn sem förukona.

Gisti hún þá stundum annars staðar, einkum á Björnólfsstöðum, sem voru yst í dalnum.

Einsetumenn voru í héraðinu og einn þeirra, Þorvaldur Pétursson, bjó einn á Strjúgsstöðum eftir að hann missti son sinn ungan.

Önnur dóttir Ásdísar Jónsdóttur, skáldkonu frá Rugludal, var lengstum í kaupavinnu að heiman, og mægðurnar í torfbænum voru sveipaðar ákveðinni dulúð.

Ýmislegt, sem heyrðist um þær og fortíð þeirra, hefði hugsanlega getað valdið fordómum í þeirra garð, en þegar sú yngsta þeirra varð að lokum ein af vistmönnum á hæli á Blönduósi kom í ljós að hún var í engu ólík öðru vistfólki og furðu fróð um þjóðfélagið þótt einangrunin í torfbænum og síðar í kofa við Blöndu, hefði bent til annars.

En andrúmsloft galdraofsókna getur vel gripið nútíma fólk. Eftir óvenjulega mörg mannshvörf var svo komið í lok árs 1975, að hávær bylgja reis um það að upplýsa þessi mannshvörf, og ekki aðeins það, heldur gaf almenningsálitið sér það að hvörfin væru af mannavöldum og að finna þyrfti hina seku og refsa þeim.

Þetta viðhorf smitaðist inn í fjölmiðlana, einkum í harðri samkeppni tveggja síðdegisblaða, Vísis og Dagblaðsins og loks lék allt þjóðfélagið á reiðiskjálfi, allt frá miklu umtali almennings upp í gegnum Alþingi og ríkisstjórnina.

Galdranornir þessara tíma voru fíkniefnaneytendur, sem meðal annars neyttu ofskynjunarlyfsins LSD, en afleiðingar af neyslu þess og afleiðingar af neyslu fleiri fíkniefna í senn, sem gátu valdið afar slæmum afleiðingum, gerðu þetta fólk og hegðun þess að ógn í hugum margra.

"Þetta eru nú engir kórdrengir" var sagt þegar harðir dómar voru felldir, án þess að fyrir lægju lík, morðvopn eða bein sönnunargögn, og dómsmálaráðherra sagði að þungu fargi væri létt af þjóðinni.

 


mbl.is Af nornabrennum og fóstureyðingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Let it be done!"

Það er gaman að geta fjallað um skref í átt til óhjákvæmilegra orkuskipta í tveimur samliggjandi bloggpistlum. Annars vegar fyrsta flug sögunnar umhverfis jörðina án brennslu jarðefnaeldsneytis, og hins vegar miklu betri árangurs en vænst var varðandi bindingu koltvísýrings í basaltberglögum við Hellisheiðarvirkjun.

Ég átti þess kost að hafa samvinnu við Orku náttúrunnar í fyrra í sambandi við verkefnin "Orkuskipti, - koma svo!" og "Let it be done" og finna áhugann og metnaðinn, sem starfsfólkið þar hefur.

Það er með hjólaklúbb þar sem þau sjálf gefa gott fordæmi, og hópur úr því hjólaði síðasta spölinn með mér frá Akureyri til þess að sýna fram á, að það kostar aðeins 115 krónur að skila einum manni á milli þessara staða ef notað er rafknúið reiðhjól.

Koltvísýringurinn er að vísu aðeins 0,4% af útblæstri virkjunarinnar, sem nemur yfir 80 prósentum af orku hennar, og enn liggur fyrir að koma jafn góðum böndum á útblástur brennisteinsvetnis og koltvísýrings, en að sjálfsögðu er koltvísýringurinn lang mikilvægata viðfangsefni með tilliti til útblásturs gróðurhúsalofttegunda og loftslagsbreytinga.

Slóðin á "Let it be done!", sem var myndband um verkefni núlifandi jarðarbúa, gert í fyrrahaust, er:  https: // youtu.be/y_rFz-gFz-gF5dg

Einnig voru gerð tvö önnur myndbönd í með samvinnu frá Orku náttúrunnar: "Aðeins ein jörð" og "Only one earth".  Slóðin á það síðarnefnda: 

https: www.youtube.com/wathc? v=mj3MeN9QgPk


mbl.is Geta bundið kolsýring á tveimur árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærstu skrefin eru oft lítil.

Fyrsta ökuferð Karls Benz á fyrsta bulluhreyfilknúða bíl hans var talinn í hundruðum metra.

Fyrsta ökuferð konu hans utan þéttbýlis, milli Mannheim og Porzheim, var aðeins 106 kílómetrar, en reyndist miklu mikilvægari en ökuferð manns hennar til þess að breyta hugmyndum manna um getu bulluhreyfilsins.

Bertha bjargaði sér þegar hemlarnir fóru, með því að finna upp hemlaklossana, og keypti upp sprittlager apóteks þegar eldsneyti vantaði.

Fyrsta flugferð Wrigth-bræðra var 37 metra löng, tók 12 sekúndur, flughraðinn aðeins 10 km/klst og flughæðin mest um þrír metrar.

Þannig eru margir af stærstu áföngunumm í tækniframförum manna oft hlægilega litlir, oft hafðir að athlægi og virka fáránlega smáir þegar stundir líða fram.

Um þróunina, þegar hún er á frumstigi, gildir kjörorðið "let it be done!", en í því lagi á Youtube er minnst á nokkra möguleika varðandi óhjákvæmileg orkuskipti, sem kunna að þykja barnaleg í núinu. 

Slóðin er:  https://youtu.be/y_rFz-gF5dg

 

 

 

 

 

 


mbl.is Sol­ar Impul­se lenti í New York
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband