EG, EJ og EM.

Það er kannski ekki alveg rétt orðað að tala um að Eyjafjallajökull eða Ísland hafi verið "vinsælt" meðal annarra þjóða, en fram að því hafði þó ekkert annað orð komið Íslandi jafn rækilega á kortið um allan heim.

Eyjafjallajökulsgosið olli stórfelldum truflunum á samgöngum um allan heim, en fyrir bragðið varð eftirsóknarverðara að fara til þessarar eyju nyrst í höfum og setja með því af stað hina stórfelldu fjölgun ferðamanna, sem hefur nánast ein og sér skapað hér kærkomina uppsveiflu efnahagslífsins eftir Hrunið.

Á því sást, að bölmóður í gosinu og fyrst eftir það  vegna afleiðinga af því var á algerum misskilningi byggður, því að aldrei fyrr í sögu Íslands hafði nafn landsins fengið eins rækilega kynningu og auglýsingu.

EM-ævintýrið er jákvæðara en eldgos og þegar nafninu Eyjafjallajökuli er bætt við EM og eldgos koma út þrjár skammstafanir sem byrja á stafnum E.

 


Hættan sem fljótfærni og of hörð viðbrögð skapa.

Þegar Tyrkir skutu niður rússneska herþotu við landamæri sín í fyrra og Rússar sögði að hún hefði verið utan lofthelgi Tyrklands en Tyrkir sögðu að hún hefði verið í sinni lofthelgi, skóp það harkaleg viðbrögð.

NATÓ lýsti yfir eindregnum stuðningi við málstað Tyrkja en Rússar gripu til refsiaðgerða gegn Tyrkjum.

Á tímabili óttuðust margir að þetta gæti undið upp á sig og stigmagnað hernaðarástand myndast.

Ef Tyrkir hefðu þá gefið út sams konar yfirlýsingu og þeir gefa nú, ári síðar, hefði slíkt ekki gerst.

Þetta minnir á það hve viðkvæmt ástand getur orðið vegna aðgerða, sem snerta hernaðarlegt öryggi þjóða og mikilvægt það er að hrapa ekki að stórum yfirlýsingum og aðgerðum.

Á þeim tímum þar sem hagsmunir öflugra hernaðarbandalaga og þjóða rekast á, og tilvist kjarnorkuvopna, sem búa yfir gereyðingarmætti, er staðreynd, er þetta sérstaklega mikilvægt.

Raunar átti þetta fyrirbæri, harkaleg viðbrögð vegna hryðjuverks, sem skópu á keðjuverkandi hátt heila heimsstyrjöld, aldar afmæli í hitteðfyrra.   


mbl.is Biðst afsökunar á árás á herþotu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stade de France 2000, - hvað nú? Rússarnir 2008.

Þegar úr vöndu var að ráða fyrir þáttaröðina "Fréttir aldarinnar" árið 2001 vegna vals á 100 mestu íslensku fréttunum á 20. öldinni, varð árangur íslenska karlalandsliðsins í EM 2000 fyrir valinu sem ein af þeim.

Ástæðan var sú, að á Stade de France í landsleik við heimsmeistara Frakka, þar sem Íslendingar höfðu lent í riðli með þeim, gerðist það í fyrsta sinn í íslenskri knattspyrnusögu, að íslenskt landslið hafði í fullu tré við sjálfa heimsmeistarana í alvöru landsleik, þýðingarmiklum leik í undanfara stórmóts.

Í leiknum hér heima höfðum við gert magnað jafntefli við heimsmeistarana og á Stade de France að viðstöddum tugþúsundum áhorfenda á þessum þjóðarleikvangi Frakka, reyndist íslenska liðið eiga fullt erindi og standa að öllu leyti gullaldarliðið stórþjóðarinnar á sporði.

Frökkum tókst að merja eins marks sigur í lok leiksins og Íslendinga var heiðurinn.

EM draumurinn, að komast í úrslitakeppni á stórmóti, rættist að vísu ekki það sinn, en nú hefur hann ræst, og nú verður Stade de Franca að nýju örlagavettvangurinn.

Íslenska liðið núna minnnir að því leyti á rússneska liðið á EM 2008, að það á hug og hjörtu knattspyrnuáhugafólks um víða veröld.

Knattspyrnan, sem Rússarnir léku 2008 var sú skemmtilegasta og besta um áraraðir og fleytti þeim upp í undanúrslit.

Það var einkum sóknarleikur þeirra með Arzhavin sem skærustu stjörnuna, sem gladdi mann og sýndi fram á að ekki væri hægt að drepa góða sóknarknattspyrnu með því að gera leikinn að langdregnu tafli, þar sem annað liðið spilar aðeins upp á að fá ekki á sig mark.

Það sem er svo æðislegt við leik íslenska liðsins í gær, var hvað sóknarleikurinn var beittur hjá íslenska liðinu.

Eitt mikilvægt atriði er sameiginlegt íslenska liðinu og því rússneska 2008, gífurleg yfirferð leikmanna.

Sagt var að að meðaltali hefðu íslensku leikmennirnir hlaupið 50% lengri vegalengd samanlagt í leiknum en hver leikmaður enska liðsins.

Rússarnir léku einnig svona 2008, en af einnþá meiri hraða en nokkurt annað lið sem ég man eftir.

Í undanúrslitunum kom hins vegar í ljós, að þeir höfðu gengið fram af sér, og að of mikið hafði verið lagt á of fáa menn.

Þetta verður aðalatriðið varðandi leikinn á Stade de France næsta sunnudag.

Þess vegna var það afar dýrmætt að leikurinn i gær fór ekki í framlengingu og vítaspyrnukeppni.

Innáskiptingarnar í lok tveggja síðustu leikja gefa vonir um að hægt verði að dreifa álaginu meira en hingað til, þar sem sama byrjunarliðið hefur leikið nánast alla leikina.

Í vináttulandsleikjunum í ár hafa Lars og Heimir reynt að prófa sem flestar útfærslur af samsetningu liðsins og leikaðferðum.

Vonandi tekst þeim að leysa úr komandi vandamálum af sömu færni og þeir hafa gert hingað til.


mbl.is Ísland ekki jafn vinsælt frá eldgosinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband