Þegar einn maður býr til milljarða á örfáum sekúndum.

Um það bil fimm sekúndur á knattspyrnuvelli í lífi einstaklings, sem er með boltann í vonlausri stöðu aftur undir endamörkum til hliðar við markið. Pottþétt valdaður af heimsklassa varnarmanni. 

Hann notar þessar fjórar eða fimm sekúndur til þess að plata varnarmanninn upp úr skónum og gefa hnitmiðaða sendingu á nákvæmlega þann stað fyrir miðju marki, þar sem samherji hans getur ekki annað en skorað. 

Þetta er í keppni, þar sem eitt mark getur skipt sköpum um meistaratign eða ekki meistaratign á stórmóti, þar sem unninn leikur skapar margra milljarða verðmæti. 

Maður, sem vitað er að getur gert svona hluti, verður sjálfkrafa milljarða virði. Jafnvel þótt fyrrnefnd snilld nægði ekki til að vinna sigur í úrslitaleiknum, getur hann gert svona hluti. Verðmiðinn er auðvitað bilun, en þó blákaldur veruleiki í heimi hinna trylltu íþrótta nútímans þar sem milljarðar fólks borga fyrir að fá að upplifa svona augnablik. 

Menn spyrja: Fær maðurinn virkilega borgað svona mikið fyrir að gera þetta?

Svarið er: Nei, hann fær svona mikið fyrir að geta þetta. 

Heimsmeistaratign eða ekki heimsmeistaratign, það er spurningin. Ali-Liston II, eitt högg í fyrstu lotu, sem tekur 1/25 hluta úr sekúndu að slá, og úrslitin eru ráðin. 

Bardagi Ali við Brian London, heimsmeistaratign í veði, 11 högg í höggafléttu á 2,9 sekúndum, og bardaganum er lokið.  Fyrstu tíu höggin eingöngu sleginn til að opna fyrir lokahögginu.  

Enginn spyr um margra ára aðdraganda, blóð, svit og tár í þjálfun snillingsins, stundum af því tagi það virðist bilun út af fyrir sig. 


mbl.is Verðmiðinn er algjör bilun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar byrjað að tala um "untermenschen".

Nú halda innreið sína ýmsar umhugsunarverðar kenningar hér á landi og eru nýnasistar ekki einir um það að flytja boðskap, sem miðar við það að skipta þjóðum heims í tvo aðskilda hópa, annars vegar "untermenschen", "óþjóðir", "óþjóðalýð", "ómenningarfólk" og hins vegar auðvitað "ubermenschen" eða ofurmennin sem við og nágrannaþjóðir okkar í Evrópu verða teljast vera svo að skiptingin sé skýr. 

Hege Storhaug er nefnd sem snillings boðari þessara fræða og fara einmitt núna fram fjörugar umræður um hann í bloggheimum, þar sem mikilli hrifningu er lýst yfir skrifum hans.

Yfirskrift eins bloggpistilsins er einmitt "Untermenschen" og í kjölfarið fylgir hárnákvæm skilgreining á fyrirbærinu.  

Þessum óþjóðum er lýst þannig, að þær séu svo mikill rumpulýður, að þeim sé ekki við bjargandi, - þær geti ekki stjórnað sér sjálfar og muni aldrei geta gert það, hvorki núlifandi kynslóðir né afkomendurnir.

Af þeim og sókn þeirra í að flytjast til Vesturlanda stafi mikil ógn, sem verði að bregðast hart við. 

Þetta er fróðlegt í ljósi þess, að ég er orðinn nógu gamall til að muna eftir því þegar nýlokið var tímabili þar sem farið hafði fram öflug "vísindastarfsemi" í að rannsaka óþjóðirnar, hverjar þær væru, hvar þær byggju, og gera öflugar ráðstafanir til þess að verjast þeirri óværu og ógn, sem væri fólgin í tilvist þeirra.

Þá var niðurstaðan að það væru einkum slavneskar þjóðir í austanverðri Evrópu sem væru óæðri að öllu leyti og þyrftu á því að halda vera stjórnað og þjóna hinum æðri kynþætti.

Nú eru það einkum arabískar þjóðir sem fá þennan dóm.

Þegar slavar voru skilgreindir á þennan hátt vildi svo til að helstu auðæfin, sem þeir réðu yfir, voru kornforðabúr Úkraínu og olíulindir í Rúmeníu og Kákasus.

Nú bregður svo við að helstu auðæfin, sem óþjóðir untermenschen-kvikindanna ráða yfir, eru olíulindirnar í Arabalöndunum.

Tilviljun? 

Orðalagið, "þær geta ekki stjórnað sér sjálfar", sem bæði nú og þá var notað, leiddi til þess fyrir um þremur aldarfjórðungum, að reynt var að bregðast við þessu með því að fá þær til að lúta stjórn ofurmennanna í vestri og norðri og verjast þeirri hættu, sem stafaði af þessum ómenningarlýð. 

En raunar er fyrirbærið "untermenschen" eða "óæðra fólk" mun eldra. 

Þannig var sagt spurt fyrir um tvö þúsund árum: "Getur nokkuð gott komið frá Nasaret?"

Tilefni þessarar spurningar var það, að frést hafði af merkilegum mani frá þessari guðsvoluðu borg, og fólst í spurningunni rökstuddur efi um að nokkuð gott gæti fylgd neinum þeim, sem kæmi úr röðum slíks óþjóðalýðs.

Við þekkjum svo sem gaurinn, Jesús Jósepsson trésmiðs.  

Grunsemdir um vafasaman boðskap hans spegluðust í ýmsu sem hann sagði. Hann valdi til dæmis sem persónu í eina af dæmisögum sínum mann af mjög vafasömum og lágum stigum, Samverja, en þeir voru taldir lítilsigldir í meira lagi.

Í dæmisögu Krists passaði Samverjinn alls ekki inn í lýsinguna af hinum hefðbundna Samverja.

Einnig valdi hann einn af æðri mönnum þess tíma, fræðimann og farísea, í aðra dæmisögu sína og lagði honum í munn þessa bæn: "Guð, ég þakka þér að ég er betri en aðrir menn". 

Á þeim tíma var ekki til neitt fyrirlitlegra en bersyndugar konur, og maðurinn frá Nasaret tók sig til og bjargaði henni frá verðskuldaðri refsingu að dómi þeirra tíma, með því að forða henni frá að vera grýtt í hel.

Aldrei datt mér það í hug fyrir 65 árum, þegar ég hlustaði á umræður um nýliðnar og stórfelldustu aðgerðir allra tíma gegn "óæðri" kynþáttum, óþjóðum, óþjóðalýð og rumpulýð utan vestanverðrar og norðanverðrar Evrópu, að ég myndi lifa það að heyra þetta allt saman á ný.

En lengi má manninn reyna og ekkert er nýtt undir sólinni.  


mbl.is Nýnasistar leita fylgismanna á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir menn á landinu og á jörðinni eru landverðir.

Fyrir 20 árum gerði ég lag sem bar heitið "Við eigum land." En síðan hefur það lokist upp fyrir mér að þótt það sé í lagi að túlka tilfinningar okkar gagnvart landinu svona, er þetta ekki rétt. 

Við eigum ekki landið og mannkynið á ekki jörðina, heldur eru allir menn og allar þjóðir landverðir. Í Nepal hefur verið sagt að við eigum ekki landið, heldur höfum það að láni frá afkomendum okkar, sem eru margfalt, margfalt fleiri en við erum.  

Í einu af nýjustu lögum mínum, "Let it be done!", er reynt að orða þetta svona á ensku fyrir erlenda áheyrendur: 

"We are the rangers, pledged to save the nature of the earth.

We are the generations that shall give it´s life new birth!" 

(Sjá lagið á Youtube)

Við landnám Íslands var það skoðun flestra frumbyggja á norðurhveli jarðar, að landið ætti sig sjálft og að það eignarhald birtist í landvættum. 

Ingólfur Arnarson var trúaður og hafði meðferðis til Íslands öndvegissúlur sínar, en í þær voru skorin andlit eða tákn heimilisguðanna, Þórs og sennilega Freys að mati Þóris Stephensen, fyrrumm dómkirkjuprests, sem hefur rannsakað sérstaklega trúarlegt ástand á norðurslóðum við útbreiðslu kristinnar. 

Sonur Ingólfs hét Þórsteinn og af því að Ingólfur ætlaði að brjóta land til ræktunar og stunda landbúnað, var landbúnaðarguðinn Freyr líklegur ásamt Þór. 

Hjörleifur fóstbróðir Ingólfs var trúlaus og friðmæltist ekki við landvættina þegar hann nam land. Ingólfur taldi að Hjörleifur hefði goldið þessa þegar þrælarnir drápu hann. 

Þegar Ingólfur sigldi vestur með Suðurlandi og fyrir Reykjanes, var suðurströnd Kollafjarðar fyrsti staðurinn sem líktist Hrífudal við Dalsfjörð í Noregi, með eyjum sínum og þremur fjöllum handan fjarðarins, fjörðinn fullan að fiski og fugli, skógi vaxnar hæðir (holt er íslensk samsvörun við þýska heitið holz) og gott hafnarlægi, hugsanlega hægt að draga skip upp eftir Læknum inn í Tjörnina. 

Hann ákvað því að láta öndvegissúlurnar, heimilisguðina, taka land í Reykjavík með því að varpa þeim þar fyrir borð nálægt fjöruborði svo þær ræki á land. 

Útilokað var að varpa þeim fyrir borð út af suðurströndinni eða vestan Garðskaga svo þær ræki á land í Reykjavík, - hafstraumarnir liggja til Snæfellsness eins og kom í ljós þegar Goðafossi var sökkt. 

Úr fjörunni voru öndvegissúlurnar bornar að helguðum fórnarstað við komandi bæjarstæði þar sem heimilisguðirnir friðmæltustog söndu við landvættina gegn fórn. 

Síðan segir Landnáma að öndvegissúlurnar séu enn í eldhúsi í Reykjavík meira en 200 árum síðar, þótt búið sé að lögtaka kristni, enda máttu ásatrúarmenn blóta á laun, þ. e. stunda sínar trúarathafnir heima hjá sér. 

Þegar evrópskir landvinningamenn þeystu á hestum sínum yfir árnar í Ameríku undruðust indíánarnir þann glannaskap og óvirðingu hjá þeim að biðja ekki landvættina um leyfi til þess. 

Einna merkilegast finnst mér að Grænlendingar telja sig ekki eiga Grænland, heldur eigi landið sig sjálft. Þetta veldur ýmsum töfum og vandræðum við mannvirkjagerð þar í landi af því að það rímar illa við hinn grunnmúraða hugsunarhátt og reglur okkar um að eignarétturinn sé friðhelgur, eins og stendur í stjórnarskrá okkar.

Hjá stjórnlagaráði lagði ég fram tillögu um að náttúra Íslands væri friðhelg, að uppfylltum vissum skilyrðum eins og er varðandi eignarréttinn. Þessi tillaga var felld, mjög naumlega þó. 

Nú hefur stjórnarsrkárnefnd hins vegar kynnt tillögu um að íslensk stjórnarskrá hnykki sérstaklega á rétti landeigenda, og hefur ekki spurst til annarrar stjórnarskrár í veröldinni með slíkt ákvæði. 

Í Suður-Ameríku hefur verið gerð tilraun til að setja það í stjórnarskrá að náttúran, landið, eigi sig sjálft og sé svonefndur lögaðili. 

Takið eftir muninum á orðinu landnemi og landeigandi. Kannski svipaður munur og á því að nema fræði eða eiga þau. 

Búið er að stofna samtök, sem heita "Rödd náttúrunnar." Þau hafa það meðal annars á stefnuskrá að ryðja braut nýjum hugsunarhætti varðandi yfirráð mannkynsins yfir náttúrunni og meðferðinni á henni. Þótt maðurinn sé hluti af náttúrunni kemst hún vel af án hans, en maðurinn kemst ekki af án náttúrunnar. 


mbl.is Fagna alþjóðadegi landvarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband