Þrusuframboð.

Magnús H. Magnússon var bæjarstjóri í Vestmannaeyjum á ögurstundu í gosinu 1973 og varð landsþekktur á svipstundu. Í framhaldinu varð hann alþingismaður og ráðherra 1978. 

Ekki þarf að kynna son hans Pál Magnússon né undrast að hann vilji nú hasla sér völl í stjórnmálum.

Hann elst upp við ilm af pólitík, bæði sveitarstjórnarpólitík og landsmálapólitík, og naut sín vel sem þingfréttamaður þegar hann tók það að sér 1985, og ekki síður sem kraftmikill fyrsti fréttastjóri á Stöð 2.

Ekki á heldur að þurfa að koma á óvart að hann vilji í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi, þótt faðir hans hafi verið í Alþýðuflokknum.

Suðurkjördæmi er sterkt vígi Sjálfstæðisflokksins og Páll veðjar á vera í vinningsliði á fyrrum heimaslóðum sínum.  

 


mbl.is Páll Magnússon vill leiða listann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morðhótun eða misskilningur?

"Nei, heyrðu nú!" hefur verið algengt viðbragð þegar frést hefur af nýjustu ummælum Donalds Trump, sem virðist á stundum vera í samkeppni við sjálfan sig í því að segja eitthvað ennþá galnara en hann hefur áður sagt. 

Í stöðu forseta Bandaríkjanna er nauðsynlegt að sá, sem gegnir því embætti, tali jafnan skýrt og af yfirvegun, því að óvarleg ummæli geta valdið miklum usla, ef ekki gefst tími til að leiðrétta þau.

Sum ummæli geta verið hættuleg þegar viðkvæmt ástand ríkis, til dæmis í samskiptum þjóða.

Og í þessu tilfelli gæti einhver byssuglaður maður átt það til að hrópa upp yfir sig eins og norðlenski veiðimaðurinn gerði í meðförum Ladda: "Skjóta helvítið!"

Yfirlýsingagleði Trumps bendir ekki til þess að honum sé treystandi fyrir valdamesta embætti heims. 

Fáheyrð ummæli hans, sem fólust í því að tengja stjórnarskrárvarinn rétt fyrir bandarískra borgara til að bera vopn til við það að koma í veg fyrir að Clinton verði forseti voru skilin sem hótun um að vopnavaldi verði beitt til að koma í veg fyrir að Clinton verði forseti. Morðhótun.  

Eftir á reyna stuðningsmenn Trumps og hann sjálfur að draga úr áhrifum ummæla hans með því að hann hafi átt við það að fjölmennir stuðningsmenn óbreyttra byssulaga gætu stöðvað Clinton í kjörklefanum.

Þegar ummæli Trumps féllu, var engin leið að skilja þau á þennan hátt: "Skjóta helvítið!"

Í embætti forseta er hætt við því að útskýringar eftirá geti komið of seint.   

 


mbl.is Gefur í skyn að vopn geti verið eina lausnin gegn Clinton
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru Bláfjöllin ekki nóg? Þar eru vannýttir möguleikar.

Nú er á teikniborðinu stórbrotin hugmynd um svifbraut upp á Esju sem gefi eigendum hennar hundruð milljóna króna í tekjur. Á sama tíma er annar útsýnisstaður nálægt Reykjavík vannýttur á sumrin. 

Efsti bletturinn á Bláfjöllum er í um 700 metra hæð yfir sjávarmáli. Þangað liggur þegar greið leið á bílum og komin eru skíðamannvirki með veitingastað.

Útsýnið af þessum stað er mikilfenglegt, Reykjanesskaginn og Faxaflóinn með Snæfellsjökul sem ysta vörð, þegar horft er til vesturs og norðvesturs, meginfjöllin ofan byggða frá Akrafjalli um Esju, Botnssúlur, Hengil, Langjökul fjær til norðausturs og síðan Suðurlandsundirlendið með Heklu, Tindfjöll og loks Eyjafjallajökul og Mýrdalsjökul sem útverði í suðaustri.

Fyrir landi Vestmannaeyjar með sinn útvörð, Surtsey.

Frá Snæfellsjökli til Mýrdalsjökuls eru tæplega 300 kílómetrar í loftlínu.

Tiltölulega örfáir koma þarna á sumrin. 

Af því að þegar er komið rask og mannvirki í Bláfjöllum, er toppur þeirra ákjósanlegasti og upplagðasti útsýnisstaður sem völ er á á Suðvesturlandi, og Bláfjallaskáli eða nettur skáli efst uppi gæti orðið að fjölsóttum ferðamannastað þegar vel viðrar.

Þúsundir fólk hafa þegar hagsmuni af því að fá að ganga á Esjuna í eins og hún er, í friðsæld hennar og fegurð, sér til andlegrar og líkamlegra heilsubótar, og hlýtur þetta fjallgöngufólk að teljast ígildi lögaðila með ákveðna hagsmuni, ef Árósasamningurinn er pappírsins virði hér á landi.

Þótt víða um lönd séu kláfar á borð við Flöjen í Björgvin, er ekki þar með sagt að það þurfi að drita slíku niður hvar sem er.  Raunar er svæðið, sem Flöjen liggur um engan veginn sambærilegt við Esju hvað snertir ásýnd og ímynd. 

Í Arches-þjóðgarðinum í Utah er Delicate Arch frægasti steinboginn, og hann er meira að segja í skjaldarmerki Utah-ríkis.

Þangað liggur samt ekki hraðbraut sem rútur geti ekið á 90 kílómetra hraða í upphafslandi bílismans.

Þangað liggur svipaður og álíka langur göngustígur og liggur upp á Esju, svo að ferðafólk geti upplifað staðinn á sem líkast hátt þeirri upplifun, sem fyrstu hvítu landkönnuðirnir fengu að njóta.

Í Esjuhlíðum býðst upplifun hinnar einföldu gönguleiðar og áskorun og hressing fjallgöngunnar í viðbót, sem sífellt fleiri, já, þúsundir fólks sækjast eftir og veitir því mikla lífsfyllingu, sem flokka má undir hagsmuni.

Ekki er að sjá að spurt hafi verið um álit þessa fólks á svonefndri Esjuferju né um álit fólks á þeirri útlitsbreytingu Esjunnar, sem fyrirhuguð mannvirki munu hafa í för með sér.   


mbl.is Afþakka svifbraut á Esju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. ágúst 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband