Stórt framfaraskref. Fyrsta sending, 32 bílar, seldir á 1. degi.

Þyngd orkunnar um borð í rafbílum er helsta vandamálið varðandi þá og hver bíll af meðalstærð er 200 til 400 kílóum þyngri en samsvarandi bensínbíll.  

Einfalt dæmi: Bíll með dísilvél af svipaðri stærð og Volkswagen Golf, Ford Focus eða Toyota Auris er með eldsneyti, sem nægir til um það bil 50 kíló af eldsneyti til að komast allt að 1000 kílómetra, og það tekur um tíu mínútur að endurnýja orkuna. Renault Zoe.

Hingað til hafa rafbílar af svipaðri stærð þurft um 300 kílóa þunga orku til þess að komast allt að 140 kílómetra við íslenskar aðstæður og endurnýjun orkunnar hefur annað hvort tekið 6-7 klukkustundir eða hálftíma á hraðhleðslustöð til þess að komast allt að 1110 kílómetra.

Af þessum sökum hefur rafbílaflotinn aðeins nýst á stuttum vegalengdum.

En nú er að hefjast stórt framfaraskref. Renault Zoe er fyrsti rafbíllinn á viðráðanlegu verði, sem kemst allt að 400 kílómetra, sem er að vísu óraunhæf tala við íslenskar aðstæður, en gæti verið allt að 250 kílómetrar í íslensku veðurfari. Framförin felst í því að nú er bíllinn með 41 kílóvattstunda rafgeyma í stað um 23ja áður.  Til samanburðar er sá rafbíll, sem hefur selst best, Nissan Leaf, kominn með 30 kílóvattstunda rafhlöður, en var áður með 24 kílóvattstundir. 

Handan við hornið er Chevrolet Bolt / Opel Ampera-e, sem er heldur stærri og dýrari og verður með 60 kílóvattstunda rafhlöður. 

Samtímis er að hefjast uppsetning hraðhleðslustöðva með að meðaltali um 100 km millibili, sem gefur ökumönnum nýjustu rafbílanna, sem verða með stóraukinni drægni, möguleika á miklu meira afhendingaröryggi og þar með ferðamöguleikum.   

Sölumaður á sýningu á nýjustu Zoe bílunum í dag sagði mér, að fyrsta sendingin, 32 bílar, hefði selst strax upp. 


mbl.is BL kynnir rafbílinn Renault ZOE
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einu sinni voru bækur brenndar.

"Það er meðal annars það sem ekki má" var sungið í einum af söngleikjum Jónasar og Jóns Múla Árnasona. 

Það er ekki nýtt að bækur séu skilgreindar sem eins konar vopnabúnaður og því stórhættulegar. 

Á uppgangstíma Nasista í Þýskalandi voru voru bækur, sem Nasistar tölu óæskilegar, teknar og bannfærðar og brenndar í stórum stíl, oft á stórum opinberum bókabrennum.  

Bækurnar töldust annað hvort innihalda óæskilegt efni eða vera eftir Gyðinga eða aðra óæskilega höfunda. 

Eftir fall Þriðja ríkisins kviknuðu vonir um að svipað fyrirbæri ryddi sér ekki aftur til rúms á Vesturlöndum. Að vísu voru hafðir uppi tilburðir í Bandaríkjunum til að bregða fæti fyrir bækur eftir sósíalista, og varð Halldór Laxness fyrir barðinu á því að verk hans á borð við Sjálfstætt fólk fengust ekki útgefnar vestra. 

Nú tekur tortryggni á hæsta stigi á sig nýjar myndir, meðal annars með því að verða fyrir hremmingum á borð við þær sem sagt er frá í tengdri frétt á mbl.is að norskur blaðamaður hafi lent í vegna þess að hann hafði óæskilega bók meðferðis í farangri sínum. 

 


mbl.is Bókin var mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að finna að samnefnara slysannna.

Til þess að hægt sé að minnka slysahættu í Silfru þarf að finna samnefnara slysanna. Nema að menn vilji fara einföldustu leiðina og banna alla köfun þar.

En þótt slikar lausnir séu alltaf einfaldastar, felst í slíku alger uppgjöf gagnvart viðfangsefninu, sem er að leita leiða til að auka öryggi með því að greina og rannsaka málið ofan í kjölinn með sem minnstum afleiðingum. 

Nú eru slysin orðin það mörg, að með því að grandskoða þau og bera þau saman, eru meiri líkur en ella á því að lausn finnist án afdrifaríkra skyndiákvarðana. 

Ýmsar athafnir, tómstundaiðja og íþróttir eru hliðstæðar, þar sem slysahætta er að vísu fyrir hendi, en reynt í ljósi reynslu að minnka hana eins og kostur er. 

Í flugi gilda til dæmis reglur, sem beinast gegn helstu áhættuþáttum á því sviði. Um flugvélar, smíði þeirra, viðhald og rekstur, gilda ákveðnar reglur, og sömuleiðis um líkamlega færni og getu flugmanna og andlega þætti, alhliða lágmarksþekkingu þeirra á flugi og færni til að stjórna flugvélum. 

Nefna má sem dæmi, að til þess að halda við þeim réttindum til takmarkaðs atvinnuflugs, sem ég hef, þarf að fara tvisvar á ári í fluglæknaskoðun, fara í færnispróf á ákveðnu fresti í samræmi við réttindin og fljúga ákveðinn lágmarkstíma varðandi einstök atriði réttindanna. 

Í því skyni var ég síðast að fljúga fyrir nokkrum dögum og sem reglulega persónulega athugun að hlaupa í gærvkvöldi upp stiga undir tímatöku á skeiðklukku sem lið í 50 mínútna líkamsrækt.  

 


mbl.is Sammála lokuninni á Silfru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erdogan gaf tóninn.

Þeir fyrstu, sem valdafíknir stjórnmálamenn ráðast gegn, eru oft í dómskerfinu og fjölmiðlunum. Þetta gerði Erdogan í Tyrklandi í stórum stíl eftir valdaránstilraun gegn honum. 

Donald Trump hóf sókn sína á þessum tveimur vígstöðvum á fyrstu dögum sínum í embætti og linnir ekki látum. 

Þegar dómari úrskurðaði að lögbann yrði sett á tilskipun hans um ferðabann fólks frá sérvöldum múslimaríkjum taldi Trump dómarann óhæfan í starfi. Stefnan var þegar sett og hefur kúrsinn verið haldinn síðan varðandi það að beita framkvæmdavaldinu gegn dómsvaldinu.  

Spurningin er bara hve langt hann ætlar að ganga og hve lengi hann verður að. 

Í fortíðinni í heimssögunni er hægt að finna ýmis dæmi um slíkt. 


mbl.is 46 ríkissaksóknarar taki pokann sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband