Hin byltingarkennda breyting af völdum snjallsímanna.

Það þarf ekki að líta lengi yfir fréttir hvers dags til að sjá, hvað almenn notkun myndavéla í snjallsímum hefur umbylt öllu umhverfi nútímamannsins. 

Daglega má sjá atburði sem aldrei hefðu orðið að fréttum ef ekki hefðu verið snjallsímar við hendina. 

Þetta þýðir að starfsfólk af öllu tagi verður að hafa alveg nýjan vara á sér varðandi það að hlaupa ekki á sig í starfi. 

Eins og alveg ný atvik af þessu tagi sýna, geta svona uppákomur verið afar slæm auglýsing fyrir hvers kyns fyrirtæki eins og til dæmis flugfélög. 

Skuggahliðin á síauknu umfangi kvikmyndunar um allar koppagrundir getur hins vegar verið sú, að vegið sé að persónufrelsi og friðhelgi einkalífs með því að þessi tegund "Stóra bróður" sé kominn til skjalanna við að vaka yfir og skipta sér af öllum mögulegum hlutum. 

Og að hver einasti borgari geti hvergi um frjálst höfuð strokið. 

En kostirnir eru enn miklu fleiri en gallarnir. 


mbl.is „Sláðu mig! Komdu bara“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk flutt eins og fénaður.

Það er sjálfsagt mál að sérsveitarmenn lögreglu æfi sig vel og gangi af öryggi til verks við sín störf.  

Öðru máli gegnir þegar einstakar aðgerðir eru framkvæmdar með látum úr öllum takti við tilefni eða raunverulegar aðstæður og gögn.

En það gerðist í tengdri frétt á mbl.is um stórkarlalegar aðgerðir í Grímsnesi, þar sem í stað þess að rannsaka málið á viðunandi hátt og miða aðgerðir, eða öllu heldur aðgerðarleysi í þessu tilfelli við sannanlegar staðreyndir, í stað þess að rjúka af stað og láta eins og naut í flagi. 

Þótt héraðsdómur hafi í þessu tilfelli dæmt sérsveitarmönnum í óhag, eru dæmi um að dómsvaldið sjái í gegnum fingur sér varðandi framkvæmd aðgerða sérsveitarmanna, þótt hún hafi greinilega farið í sér brot á reglum um meðalhóf og jafnvel brot á lögum og verklagsreglum lögreglunnar sjálfrar. 

Í Gálgahraunsmálinu hafði lögregla heilan mánuð til að fylgjast með því útivistarfólki og náttúruunnendum, sem dvaldi við jaðar hraunsins þetta tímabil. 

Það var flest komið á eftirlaunaaldur, konur og karlar, og ekkert af því hafði komist í kast við lögin, heldur viðurkennt friðsemdarfólk. 

Aldrei voru þarna fleiri en um 25 manns. 

Vitað var fyrirfram að fólkið ætlaði ekki að hreyfa hönd né fót né blaka hönd við neinum. 

Þrátt fyrir þetta var sent á vettvang um 60 manna sérsveit með handjárn, kylfur og gasbrúsa að vopni og farið með stærsta skriðbeltatæki landsins í átt að hinu hreyfingarlausa sitjandi fólki.  

Framkvæmdin varðandi merkingu vinnusvæðisins var í tómu rugli og marklaus, og vaðið í átt að einum úr hópnum með orðunum: "Tökum hann! Tökum hann."

Hann benti á að hvergi væri að sjá neina merkingu sem sýndi að hann væri inni á vinnusvæði.

Var þá komið með línu, sem marka ætti vinnusvæðið, og tóku lögreglumenn þátt í því og reyndu að leggja hana út fyrir þennan mann, svo að hægt væri að handtaka hann. 

Þegar hann færði sig út fyrir þá línu, var reynt að stjaka honum inn fyrir línuna, svo að hægt væri að handtaka hann! 

Minnir á gamla djókið um lögreglumanninn, sem fann lík í Fishersundi, en dró það upp í Garðastræti af því að hann vissi ekki hvernig ætti að skrifa orðið Fishersund í lögregluskýrsluna. 

Ekki var látið nægja að fjarlægja fólkið út fyrir vinnusvæðið með því að bera það út fyrir, heldur var því smalað inn í Econoline lögreglubíl, þar sem því var neitað um að fá að spenna bílbelti, en í staðinn flutt eins og hver annar fénaður á lögreglustöð og sett þar í fangaklefa. 

Öll var þessi framkvæmd með hreinum ólíkindum og úr öllum takti við aðstæður. 

 

 


mbl.is „Leggstu niður, leggstu niður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira en jafnoki "Obamacare" á Íslandi í 70 ár?

Ástand heilbrigðismála í Bandaríkjunum kemur flestum Evrópuþjóðum spánskt fyrir sjónir. Áætlað hefur verið að á síðasta aldarfjórðungi hafi um 20 milljónir Bandaríkjamanna dáið ótímabærum dauðdaga vegna skorts á sjúkratryggingum. 

Heilbrigðislöggjöf Barack Obama hefur verið ætlað að bæta úr þessu og færa kerfið í átt til þess sem hefur lengi þótt sjálfsagt víðast í Evrópu. 

En Donald Trump lítur öðruvísi á málið. Í hans augum voru Bandaríkin "stórfengleg" ("great") meðan þessum mannslífum var fórnað og séð var til þess að hinir ríkari gætu setið að sínu án þess að þurfa að leggja þeim, sem minna máttu sín, lið. 

Í ævisögu Ólafs Thors segir hann frá því að helsta vandamálið við að mynda Nýsköpunarstjórnina 1944 hafi verið tregða innan Alþýðuflokksins til myndunar stjórnarinnar.

Sjálfur var Ólafur í vandræðum með fimm þingmenn Sjálfstæðismanna, en þeir voru þó aðeins hluti þingflokksins.

Hins vegar var þetta spurningin um meirihluta þingmanna krata, annað hvort af eða á, því annars var samkomulag Sjalla og komma ekki með nægan þingstyrk.

Ólafur fór því út í það að "fiffa" tilboð til kratanna, sem þeir gátu ekki hafnað varðandi það að koma á tímamóta alþýðutryggingum á Íslandi, einhverju því besta á byggðu bóli á þeim tíma.

Þetta hafðist og það má dunda sér við að bera það kerfi saman við Obamacare, þar sem útkoman kann að vera sú að við séum búin að vera 70 árum á undan "America the great."   


mbl.is Berst við að standa við loforðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband