Slæmar fréttir á degi umhverfisins af illri meðferð jarðargæða.

Orðtakið "lengi tekur hafið við" túlkar almenna hugsun í hegðun mannkynsins sem gerir núlifandi kynslóðir jarðar ábyrgar fyrir einhverjum mestu vandkvæðum í lífsbaráttu jarðarbúa, sem yfir þá hafa dunið. 

Giskað hefur verið á af vísindamönnum, að eins og jarðarbúar haga sér núna, þyrfti margar jarðir til þess að gera aflétta rányrkju í nýtingu helstu auðlinda hennar.

Í neyslunni sem skapar þetta ástand, erum við Íslendingar fremstir í flokki, þannig að ef allir jarðarbúar höguðu sér eins og við, þyrftu jarðirnar að vera 19. 

 

Óheyrilegur vöxtur plastúrgangs í öllum höfum og á öllum ströndum jarðarinnar getur ekki gengið svona lengur, og þegar er svo komið, að héðan af munu engar nýjar olíulindir finnast, sem er jafn ódýrt að nýta og þær, sem senn fara að ganga til þurrðar.

Önnur frétt dagsins er að nú stefnir í enn nýtt hitamet á Indlandi og að ekkert lát er á hlýnun lofthjúps jarðar.

Á Degi umhverfisins eru jarðarbúar minntir á óábyrga hegðun sína gagnvart móður jörð, sem er brot gegn komandi kynslóðum.  


mbl.is Plast í sjó vanmetið um 80%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Firring, jafngömul mannkyninu.

Yfirgengileg auðæfi, bruðl, sóun, munaðarlíf, dans í kringum gullkálf, alger firring, allt eru þetta fyrirbæri sem hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda.

Lýsing Ashle Mears á lifnaðarháttunum í því samfélagi sem skapast hefur meðal hinna örfáu ofurríku, sem vita ekki aura sinna tal, sem hún gat smeygt sér inn í, og greint er frá á mbl.is, er hrollvekjandi, vegna þess að þetta fyrirbrigði er stundað á okkar tímum upplýsingar og viðleitni til kjarabóta alls almennings, en ekki á tímum alræðis aðalsins í Evrópu fyrr á öldum. 

Að sönnu er mikilvægt fyrir venjulegt fólk að geta gert sér dagamun af og til, en af lýsingu Mears á bílífi og firringu "eina prósentsins" svonefnda má ráða, að hjá því er búið að fletja svo út bruðlið, að það er orðið erfitt fyrir það að gera sér dagamun, því að allt hið stærsta og afbrigðilegasta er orðið að hversdagslífi, sem er ofar skilningi þorra fólks.

Um aldir hefur hugsuðum og vitru fólki verið ljóst, að hamingjan fæst ekki með því að eiga óendanleg auðæfi, heldur jafnvel þvert á móti.

Og sem betur fer, er að finna auðugt fólk, sem berst ekki á, heldur reynir að verja auði sínum ó góð og nytsamleg málefni. 

 

En lifnaðarhættirnir, sem stærstur hluti "eina prósentsins" sem á helming auðæfa jarðar, stundar, eru ekki aðeins sóun sem bitnar á öðrum, heldur má efast um að þetta líferni færi því sjálfu í raun neitt í samræmi við eyðsluna og bruðlið.     

 

 


mbl.is „Allir sammála að þetta er fáránlegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Landið fýkur burt"?

"Landð fýkur burt" söng Ríó tríó fyrir um aldarfjórðungi. Þá var að baki um 20 ára tímabil, sem skiptist gróflega í tvennt, áratugur eftir 1974 þegar svonefnd þjóðargjöf sem þjóðin gaf sjálfri sér á 1100 afmæli Íslandsbyggðar á Þingvöllum, hafði bókstaflega "fokið burt" í eyðimerkurstormi óðaverðbólgu og einnig vegna þess að sauðfé og hrossum hafði fjölgað svo mikið með tilheyrandi beitarálagi á land, sem var að stórum hluta óbeitarhæft land, að stórsá á því.

Stormarnir, sem sjást svo vel á gervitunglamyndum, eru að stórum hluta til óumflýjanlegir eftir aurflóð jökuláa, sem engin leið er að græða upp, en því miður einnig vegna þess að gróður og jarðvegur fjúka burt af svipuðum ástæðum og lýst var laginu magnaða og í þeim sjónvarpsþáttum og fréttum sem reynt var að gera til að varpa ljósi á hina miklu afneitun varðandi meðferð okkar á landinu. 

Persónulega rann þetta ástand upp fyrir mér í könnunarflugferðum með Sveini Runólfssyni og við það að sjá með eigin augum hvernig rofabörð við sunnanverðan Kjalveg, sem ég notaði til viðmiðunar í akstri um veginn, hurfu hvert af öðru gersamlega á örfáum árum. 

Hlaut ákúrur hagsmunaaðila vegna umfjöllunar um þetta, sem gat raunar birst í húmor hagyrðinga, svo sem þessari um mig: 

Hefur víða á FRÚnni farið, -

filmað bæði hraun og sker, - 

en ætli´hann hafi augum barið 

ofbeitina á höfði sér?

Að sönnu napurt háð, en því miður um stórfelldan napran sannleika hvað snertir meðferðina, sem gróður og jarðvegur lands okkar verður að sæta of víða. 

 


mbl.is Sandstrókar á haf út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband