Deilan snýst um sjókvíaeldi, ekki um fiskeldi.

Þeim sem hamast í því að tífalda helst sjókvíaeldi hér við land á örfáum árum og gefa norskum eldisrisum frítt spil, stilla málinu sífellt upp á þann veg að annað hvort verði að leyfa sjókvíaeldi eða að fara að vilja laxveiðimanna að ekkert fiskeldi sé leyft.

Og síðan er fundinn út þúsundfaldur munur á tekjum af þremur ám í Ísafjarðardjúpi og sjókvíkaeldi í Djúpinu á afar yfirborðslegan hátt. 

Þetta er álíka rökræða og þegar stóriðjufíklarnir stilltu málum þannig upp að annað hvort yrðum við að taka upp eins mikla stóriðju og öll orka landsins leyfði eða að fara að vilja náttúruverndarmanna, sem væru á móti rafmagni og atvinnuuppbyggingu og vildu fara aftur inn í torfkofana. 

Það hefur margoft komið fram hjá andófsmönnum gegn hömlulítilli gróðafíkn innlendra og erlendra sjókvíaeldismanna, að málið snúist um það að rækta geldfisk og færa eldið úr sjókvíum þar sem sleppingar hafa reynst óviðráðanlegar.

Og að unnendur laxveiða séu ekki á móti laxeldi í samræmi við nýja tækni og kröfur, sem gerðar væru í staðinn fyrir hið skaðlega og úrelta sjókvíaeldi. 

 

En sjókvíafíklarnir breiða kyrfilega yfir þetta atriði í málflutningi sínum.  


mbl.is Tekjur laxeldis „þúsund sinnum meiri“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómarinn beið í tæplega lotu og það var nóg.

Það er alþekkt fyrirbæri að eftir að bardagaáætlun hefur hrunið hjá hnefaleikamanni og hann beðið ósigur, sér hann bardagann ekki aðeins í öðru ljósi en sigurvegarinn, heldur öðruvísi en flestir sem á horfðu. 

Þetta á við um bardaga Floyd Mayweathers og Conors McGregors. 

Nú er of seint fyrir McGregor að klóra í bakkann eftir verðskuldaðan ósigur fyrir Floyd Mayweather, sjá nánari útlistun í næsta bloggpistli á eftir þessum. 

Það kom fljótlega í ljós að það var örþreyttur og máttlaus hnefaleikari sem var kominn inn í níundu lotuna, en dómarinn leyfði henni samt að klárast og að láta það koma í ljós hvort mínútan í hléinu nægði fyrir hann til að ná vopnum sínum.  

En í tíundu lotunni blasti við að McGregor hafði i engu jafnað sig í hléinu, heldur var orðinn að máttlitlum æfingabolta fyrir Mayweather og gat alls ekki svarað fyrir sig. 

Í slíkum tilfellum er það skylda hnefaleikadómara að gæta að því að bjarga viðkomandi hnefaleikara frá óþörfum barsmíðum og hugsanlegu heilsutjóni eða örkumlum. 

Frá því að hörmulegt ástand McGregors kom í ljós og þangað til bardaginn var réttilega stöðvaður leið hátt í eina lotu og það var nóg. 

Til samanburðar má benda á það þegar Svíinn Ingemar Johansson rotaði Floyd Patterson í júní 1959 og varð heimsmeistari. 

Eftir að Ingemar hafði slegið Floyd niður á þann hátt að Floyd hafði ekki hugmynd um hvar hann var og ráfaði hálfmeðvitundarlaus í átt frá Ingemari, leyfði dómarinn Ingemari að elta Floyd og slá hann niður aftur með höggi, sem Floyd sá ekki. 

Ingemar sló Floyd niður alls sex sinnum, þegar eitt skipti hefði átt að vera að nægja. 

Þetta ljóta atvik hefndi sín síðar þegar Floyd fékk "boxaraveikina", heilaskemmdir af völdum hnefaleika sem drógu hann til dauða um aldur fram. 

Leikslokin í nótt voru svipuð og í bardaga Anthony Joshua og Vladimirs Klitschko fyrr á þessu ári og enginn ásakaði þann dómara um að hafa gert mistök. 

Munurinn á MMA og hnefaleikum er meðal annars sá að í hnefaleikum er bannað að slá mann, sem snertir gólfið með hné eða höndum eða situr í köðlunum. 

Þess vegna virkar leyfið til að slá liggjandi mann í MMA oft glæfralega fyrir óhorfendur. 


mbl.is „Leyfið manninum að slá mig niður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Floyd Mayweather hafði rétt fyrir sér. Spáin 50-0 gekk eftir.

Flest af því sem Floyd Mayweather sagði fyrir bardagann í nótt reyndist vera rétt. 

Hokinn af reynslu fleiri stórbardaga en flestir hnefeleikarar hafa á ferilskránni, skipulagði hann bardaga næturinnar af færni meistarans. 

Spá mín um sigur hans gekk eftir, - Mayweather nýtti sér til fullnustu það að vera með bestu vörnina í bransanum, nokkuð, sem er afar dýrmætt fyrir fertugan hnefaleikara sem hefur óhjákvæmilega misst eitthvað af fyrri hraða sínum og höggþunga. 

Mayweather byrjaði með því að standa allt að því glæfralega kyrr og flatfættur beint fyrir framan McGregor  og verja höfuðið kyrfilega í stíl Muhammads Ali á síðari hluta ferils hans. 

Hann gerði nákvæmlega ekkert til að afsanna þá fullyrðingu McGregors að Mayweather væri hálfgert gamalmenni í slæmu formi heldur spilaði sinn leik, að lofa McGregor að blása og sóa mesta krafti sínum.  Svipað og Muhammad Ali gerði frá og með annarri lotu í bardaganum við Foreman. 

Hafi McGregor haldið að það myndi koma Mayweather úr jafnvægi að fullyrða að hann væri í lélegu formi, lét Mayweather það sem vind um eyrun þjóta, bæði við vigtunina og í bardaganum sjálfum. 

Hann spilaði sinn leik sallarólegur. 

Það eina sem skyggði á lengi vel var sú leiðinlega tilhneiging Mayweathers að snúa bakinu við andstæðingnum, sem í staðinn lagðist á Mayweather og sló ólögleg hnakkahögg. 

Dómarinn áminnti McGregor margsinnis fyrir að leggjast á Mayweather á þennan hátt og það er sálrænt þreytandi fyrir hnefaleikara að koma sér í þá stöðu að það líti út eins og dómarinn sé á bandi andstæðingsins. 

Þegar leið á bardagann kom í ljós að Mayweather var búinn að kortleggja McGregor það vel, að hann gat leyft sér að sækja meira án þess að eiga hættu að fá á sig eitt af hinum frægu vinstri handar gagnhöggum McGregors.

Hraðinn hélst mikill, svo að eftir 8. lotu var spennan fólgin í því hvor þeirra myndi hafa meira úthald. 

Báðir voru móðir í hornum sínum og spurningin var: Hvort myndi aldur Mayweathers verða honum að falli eða sú staðreynd, að McGregor hafði aldrei fyrr farið jafn langt í bardaga. 

Í ljós kom að Mayweather hafði reiknað dæmið rétt einu sinni enn, alveg eins og í öllum fyrri stórbardögunum við bestu boxara heims. 

Hann hafði gætt þess að berjast helst ekki við þá þegar það hentaði þeim best, heldur þegar það hentaði honum sjálfum. 

Þess vegna dró hann uppgjörið við Manny Paquiao nógu lengi til að Manny væri ekki lengur á tindi getu sinnar. 

Allt í einu var bensínið búið á tanknum hjá McGregor, fótavinnan góða var rokin út í veður og vind, hann riðaði á fótunum og kraftlaus högg hans voru stundum líkari fálmi en höggum. 

Honum tókst að komast í gegnum hræðilega níundu lotu þar sem öll sund virtust lokuð og allt þrek á þrotum, og vonir áhangenda hans um að hann sækti í sig veðrið, fengi "second wind", rættust ekki.

Endirinn var óhjákvæmilegur í næstu lotu, "tæknilega sleginn út", TKO, og bardaginn var sigur fyrir góða hnefaleika, því að þetta varð aldrei leiðinlegur bardagi eins og mátti óttast.

Fyrir 110 árum var uppi svipaður varnarmeistari og Mayweather, að vísu í þungavigt, Jack Johnson, fyrsti blökkumaðurinn sem varð heimsmeistari og ruddi með því brautina fyrir kappa eins og Joe Louis og Muhammad Ali. 

Johnson skipulagði bestu bardaga sína fyrirfram, var með varnartækni sem var sú allra besta í hnefaleikunum. 

Hann leyfði öflugum andstæðingum að blása í hæfilega langan tíma en nagaði þá smám saman niður til þess að enda bardagann svipað og Mayweather gerði nú. 

110 ára gömul saga að endurtaka sig. 

Johnson andæfði kenningum um yfirburði hvíta kynsstofnsins og sigur Mayweathers var sætari fyrir þá sök, að fyrir bardagann gortaði McGregor af yfirburðum írska kynsstofnsins og fannst mér það leiðinlegt og afar hæpið, jafnvel þótt í hálfkæringi væri. 

Það gerði hann að minnsta kosti ekki fyrir mína hönd og míns rauða hárs. 

Mayweather er nú með einstæða og fullkomna ferilskrá:  50-0 (27) og ef þetta verður dýrlegur endir á feril hans er ekki ónýtt að enda hann með KO eftir að tíu ár liðu frá að hann yfirbugaði síðast andstæðing með tæknilegu rothöggi.  


mbl.is MMA-reynslan vinnur með og á móti Conor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ein birtingarmyndin: "Mál dagar uppi og eru svæfð í nefndum."

Það þættu ekki góðir viðskiptahættir í verslun ef það gerðist að viðskiptavini "dagaði uppi" á hverjum degi og síðan áfram dögum, vikum og mánuðum saman. 

Og að viðskiptavinirnir þyrftu að koma aftur á hverjumm degi. 

Að sönnu tekur það einhverja daga, vikur eða jafnvel mánuði að taka mál til meðferðar á Alþingi, kanna það vel og taka til vandaðrar umræðu, meðal annars með því að leita álits og umsagna hjá þeim, sem málið snertir, en það er aldeilis kostulegt hve það gengur seint að taka mál á dagskrá til þess eins að þau falli dauð niður í þinglok og að þá þurfi að byrja á öllu ferlinu að nýju. 

Einhvern tíma var það sagt að það væri ömurlegt hlutskipti fyrir þingmann að lenda í stjórnarandstöðu. 

En nú er svo að sjá að stjórnarþingmönnum sumum sé farið að finnast hið sama um sitt hlutskipti enda sé ég á netinu að Theodóra Þorsteinsdóttir, sem segir af sér þingmennsku, hafi ekki lagt fram neitt frumvarp sjálf, enda alþekkt hvernig þingmannafrumvörp eru "svæfð" í nefndum. 

Mikill halli er á þrískiptingu valdsins í samræmi við stjórnarskrána, því að löggjafarvaldið fer mjög halloka fyrir framkvæmdavaldinu. 

Í frumvarpi stjórnlagaráðs eru tillögur til úrbóta, meðal annars með því að stjórnarskrárbinda aukið vald þingsins, þingnefnda og formanna þeirra, - og að ráðherrar megi ekki gegna þingmennsku á sama tíma og þeir sitja í ráðherrastólum. 

 


mbl.is Theodóra segir af sér þingmennsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband