Babelsturn okkar tíma?

Sagnirnar um Babelsturninn sem á að hafa verið reistur í Babylon hinni fornu þálifandi valdhöfum og mönnum til dýrðar kemur upp í hugann við fréttirnar af langhæsta turni heims í Dubai. 

Turninn í Dubai er reistur til dýrðar núverandi valdhafa þar og ber nafn hans og á að vera vitni um dýrð og mikilleik hans og núlifandi landsmanna hans á sama tíma og landið er í raun gjaldþrota og því haldið uppi með hjálp nágrannaþjóða, sem sjálfar ausa af fyrirhyggjuleysi af skammvinnri orkulind og nota gróðann af henni til að viðhalda spilltum og einræðisfullum valdhöfum í þjóðfélögum misréttis á marga lund.

Í mannkynssögu framtíðarinnar verður veldi olíuríkjanna við Persaflóa minnst sem einhvers skammvinnasta og skammsýnasta fyrirbæris sögunnar og turninn mikli í Dubai og önnur fáránleg bruðlmannvirki þessa ríkis verða tákn um græðgi og sjálfumgleði sem skilur eftir sig sviðna jörð þegar spilaborgin hrynur.

Samsvarandi turnar risu líka hér á landi í gróðærinu mikla, og byrjunin var auðvitað sú að okkar kynslóð reisti stærsta mannvirki sem nokkur íslensk kynslóð hefur reist eða mun geta reist um sjálfa sig, Kárahnjúkavirkjun.

Var þar engu skeytt um rétt milljóna ófæddra Íslendinga, heldur eyðilögð um aldur og ævi náttúruverðmæti sem voru ekki metin krónu virði. 

Eins og það væri ekki nóg fylgdu í kjölfarið fleiri tákn bruðls, hroka og yfirlætis. 

Eitt þeirra, Hálvitinn við Borgartún, sem ég kalla svo,  ber innantómt að mestu við loft séð frá þeim stað sem ég bý á og byrgir fyrir sjálfan Snæfellsjökul sem áður var augnayndið mesta á góðviðrisdögum auk þess sem eyðilögð var sjónlína frá innsiglingarvita Reykjavíkur og mun kosta ótalda milljónatugi ef ekki hundruð að lagfæra það.  

Það merkilega við Babelsturna Babylons, Dubai og Íslands er að svo virðist sem menn  geti ekki lært af sögunni. 


mbl.is Mikið um dýrðir í Dubai
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Jú þarna er eitthvað sem við erum sammála í og það þessi böðulsháttur sem einkennir mest allar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Og að koma svo líka og ætla að breyta nafni á Skúlagötunni og öðrum götum á nágrenni við hana. Það á ekki að gera svona. Hvað mundi fólk segja ef Esjan héti allt einu Þórunnarfell eða Skakkibakki eins og Noregi. Amma og afi áttu heima á Lindargötunni á meðan þau voru. Húsið hefur sloppið, en flest húsanna eru horfin, rifin þó að rifvingskarlarnir hafi bent á að húsin voru ófúin undir Bárujárninu. Svo var líka með Hraun í Kringlumýri þar sem ég er fæddur og uppalinn, þar er núna svona umbabil Hús Sjálfsstæðisflokksins og hafa þeir til og með tekið Stórastein og satt hann upp á  rönd sem Bautastein og stendur vel undir því. Það söfnuðust allir krakkar hverfisins til ákveða hvaða leik átti að fara í. Svona er þetta út um allan bæ. Það var svo margt sem fór svo vel með sálina hjá okkur, Esja,fjaran, Viðey , Engey og holtið.

Wolfang

Eyjólfur Jónsson, 4.1.2010 kl. 22:53

2 identicon

"Kallar hann mig kallar hann þig, kuldaleg rödd og djúp". Risinn í Lómagnúp gæti gist þarna. 11 Hallgrímskirkjur eru enginn mælikvarði. Turninn er jafnhár f...... Lómagnúp!

stefan benediktsson (IP-tala skráð) 4.1.2010 kl. 23:59

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já, eða tveimur Empire State byggingum.

Ómar Ragnarsson, 6.1.2010 kl. 14:29

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Horfið upp á Kjalarnes frá Reykjavík og sjáið litlu blettina, bæina sem kúra undir Esjunni. Kerhólakambur fyrir ofan þá er 852 metrar á hæð. Ef Dubai-turninn stæði þar myndi hann bera við kambinn.

Ómar Ragnarsson, 6.1.2010 kl. 14:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband