Susan Boyle og Stella í Knarrarnesi.

Ég var að sjá þátt um Susan Boyle á Stöð 2, hina 47 ár gömlu Öskubusku, sem varð heimsfræg á mettíma á YouTube og hefur selt 4,5 milljónir platna með söng sínum.

Susan kom fram á réttum tíma þegar heimurinn þurfti uppörvun í kreppunni og hún gat því látið drauminn rætast og gefið öðrum með því vonir og drauma. 

P1011181

Í fyrra var borin til grafar Guðríður Jóna Árnadóttir, fyrrum húsfreyja í eyjunni Knarrarnesi undan Mýrum, ævinlega kölluð Stella. 

Rétt fyrir heimsstyrjöldina var búið að ganga frá því að Stella færi til söngnáms í Þýskalandi vegna þess að hún hafði fágæta sönghæfileika, sem minnti fólk síðar á frænku hennar, Guðrúnu Á. Símonar.

Þá dó faðir hennar og móðir Stellu og hún urðu að snúa sér í bili að því að vinna sig út úr því með þremur bræðrum hennar.

Stella gerði ráð fyrir því að einhver þeirra myndi kvænast og taka við búskapnum í eyjunni, en aldrei kom til þess.

Í þess stað bjó þetta fólk allt sitt líf í þessari litlu eyju, sem ég get flogið á 15 mínútum út í og lent þar í krafti gamals leyfis Stellu, en eyjan er samt það afskekkt, að Knarrarnesfólkið fór aðeins tvisvar í land á hverju ári, á vorin og haustin, til að selja vörur sínar og birgja sig upp. Eftir að móðir systkinanna dó komst Stella aðeins einu sinni á ári í land.

Stella fór því aldrei til söngnáms en fyrir tilviljun heyrði ég hana einu sinni syngja þegar ég kom heim að bænum og undraðist af hverju hún hafði, aldrei þessu vant, ekki komið út úr bænum til að taka á móti mér.

Þegar ég nálgaðist húsið heyrði ég háværa tónlist sem hljómaði inni í bænum og barst út á tún. Greinilegt var að Stella var búin að hækka í útvarpinu til að njóta óperutónlistar En það vakti furðu mína að verið var að spila upptöku með Maríu Callas þar sem önnur frábær söngkona söng með henni tvísöng.

Ég minntist þess ekki að hafa heyrt Callas syngja þessa aríu með annarri söngkonu og því síður að til væri dúett útgafa af þessari einsöngsaríu.

En þegar ég kom nær áttaðí ég mig á því að það var Stella sem söng svona frábærlega vel með hinni heimsfrægu söngkonu, Callas hljómaði af hljómplötunni en Stella í beinni útsendingu fyrir mig einan.

Þetta atvik kemur í hugann þegar þátturinn um Susan Boyle er sýndur í sjónvarpinu.

Stella í Knarranesi hefði getað orðið hin íslenska Öskubuska á sínum tíma, fræg óperusöngkona í stað þess að lifa allt sitt líf á einu byggðu eyjunni í Faxaflóa, svo afskekktri að aðeins tvisvar á ári fór hún í land.

Ég harma enn þessi örlög Stellu en henni auðnaðist með lestri, hlustun á útvarp og síðar áhorfi á sjónvarp að sætta sig við þetta hlutskipti sitt og ferðast í huganum um heiminn og verða heimskona á sinn hátt.

Á hverju hausti fór hún í eina viku til Reykjavíkur og eyddi tímanum í að fara á alla tónleika og sýningar sem í boði voru áður en haldið yrði til baka heim til bræðranna þriggja sem hún fórnaði lífi sínu til að þjóna til viðhalds hinni einstæðu byggð og mannlífi í Knarrarnesi.  

P1011183

Ef einhverjir vilja kynna sér nánar þetta mál má geta þess að ég gerði nokkra sjónvarpsþætti og fréttir bæði á Sjónvarpinu og á Stöð tvö um hin stórmerku systkin í Knarrarnesi, - og í bókinni "Fólk og firnindi" er kafli um heimsókn út í eyjuna.  

Hér til vinstri er mynd úr bókinni þar sem einsmannsfisið "Skaftið" flögrar yfir bænum áður en komið er inn til lendingar á túnbleðlinum neðst á myndinni. 

Vegna tæknilegra mistaka eru myndirnar tvær. 

P1011183

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Sumarip 1959 var ég í sveit í Hjörsey. Þá var hún enn í byggð á báðum bæjum.

Sigurður Þór Guðjónsson, 7.1.2010 kl. 00:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband