Eru "hálaunin" til skammar?

Hversu lengi hefur hann ekki verið sunginn, söngurinn um öll hin vel borguðu störf sem byðust í álverum landsins?

Hve lengi hefur ekki verið sungið um dýrð þess að selja orkuna til "orkufreks iðnaðar" og fólki talið trú um að orðið "orkufrekur iðnaður" sé það jákvæðasta sem finnst.

Það er til marks um mátt áróðursins að hægt hafi verið að gera þetta heiti jákvætt því að orðanna hljóðan segir allt annað, sem sé það að þetta er mesta orkubruðl sem mögulegt er.

Þar á ofan eru störfin, sem sköpuð eru, hin dýrustu í heimi. 

Nú kemur í ljós að dýrustu störf í heimi eru "til skammar" í álverinu á Grundartanga og þegar litið er á stórfelldan gróða álversins liggur tvennt á borðinu: Þessi gríðarlegi gróði, sem fer allur úr landi, er fenginn með því að hafa launin skammarlega lág og orkuverðið sömuleiðis.

Svo lágt er orkuverðið að Landsvirkjun er sífellt rekin með tapi og skuldar 350 milljarða króna. Ekki er afkoma OR beysin heldur.   

Og til þess að álfurstarnir hafi allt sitt á hreinu er verkfallsrétturinn tekinn af starfsmönnunum sem vita að álver verða að vera gangandi dag og nótt.

Samningsstaða starfsmanna álversins á Grundartanga er í raun engin.

Eigendur álversins eru búnir að búa þannig um hnúta að þeir skófli á öruggan hátt milljarðatuga gróða úr landi á meðan starfsmennirnir eru samkvæmt eigin lýsingu í hlutverki hundsins, sem tekur við því, sem að honum er rétt, og bítur ekki í höndina sem fæðir hann, þótt fóðrið sé svo lélegt að það sé "til skammar."  


mbl.is Vilja af skammarlega lágum launum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Beittur!

Sigurbjörn Sveinsson, 16.3.2010 kl. 14:07

2 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Góður, Ómar. Ég er þér innilega sammála. Þessi fyrirtæki eru hér af gróðarsjónarmiði einu saman. Þessi frasi um græna orku er yfirskin. Orkan hefur verið þeim seld á spottprís. Laun eru lág og gróðinn "lekur" út úr landinu. Það er rétt sem kemur í fréttinni að þessi fyrirtæki eru vel í stakk búin til að hækka laun og greiða betur en gert er. Af hverju gera þau það þá ekki? Mér er spurn!

Sigurlaug B. Gröndal, 16.3.2010 kl. 15:10

3 Smámynd: ThoR-E

Tek undir þetta.

En hvernig er þetta með verðið á orkunni, er samið til einhverja áratuga?? afhverju er þetta ekki tekið til endurskoðunnar..?? nú hefur verið vitað lengi að t.d álverin hafa borgað minnst hér á landi í orkukostnað.

Skammarlegt.

ThoR-E, 16.3.2010 kl. 16:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband