Orrustan mikla.

"Við berumst öll í átt af sama landi" er upphaf á íslenskum texta við lag Rogers Whittakers, "The last farewell". Sama er hvort við erum hraust og gengur vel eða berjumst við sjúkdóma og erfiðleika, "orrustan mikla" liggur fyrir okkur öllum.

Íslenski textinn við lag Whittakers felur í sér hughreystingu og uppörvun til þess, sem stendur frammmi fyrir stórri orrustu, kannski þeirri stærstu í lífinu, og verður að vera viðbúinn hinu versta en vona það besta. 

Hryggjarstykkið í textanum er í þriðja erindinu, "...til jöklanna og himinsins frjáls fer ég. /  Þar fegurð ofar hverri kröfu er vís..." og er þar vísað til frægrar setningar Nóbelskáldsins um að þar sem jökulinn og himinninn mætast ríki fegurðin ein ofar hverri kröfu. 

1. erindið lýsir förinni upp í brimgarðinn á "ógnarströnd óttans", sem er líking fyrir dauðann, sem okkur er áskapað að óttast og forðast til þess að viðhalda lífinu á jörðinni. En jafnframt er lýst vissunni eða voninni um landið handan brimgarðsins þar sem friðurinn ríkir. 

2. erindið snýst um ástvinina og það sem er næst hverjum manni. 

3. erindið snýst um fósturjörðina með moldunina sem upphafsorð en síðan andartakinu, sem margir þeir er hafa komist alveg að mörkum lífs og dauða,  lýsa sem "eldingu", hinni undrafögru ofurbirtu og sælu þess augnabliks. 

Í 4. erindinu er farið á vit "alheimsanda" hinna hinstu raka tilverunnar í hinu fullkomna sköpunarverki. 

En hér er textinn og lagið er efsta lagið á tónlistarspilaranum hér vinstra megin á síðunni. 

 

ÞAR RÍKIR FEGURÐIN.   (Lag: The last farewell) 

 

Við berumst öll í átt að sama landi  / 

í ólgusjóum lífs í gleði og þraut.  /   

Þótt fley okkar á boðum steyti´og strandi   /

í stormi fárs á örlagnanna braut   /

ég veit að handan ógnarstrandar óttans  / 

til orrustunnar miklu er ég býst   / 

þar ríkir fegurðin  /

í fullkomnun og sælu, -  /

fegurðin sem engin orð fá lýst. 

 

Ég þáði ást og atlot foreldranna   / 

og ástin stóra kom og gaf mér allt.   / 

Ef núna skal ég nýjar lendur kanna   /

og nístir brotið fley mitt brimið kalt   / 

ég lít í anda ástvinina kæru   / 

sem aldrei bregðast, hvernig sem allt snýst.  / 

Þá ríkir fegurðin  / 

já, fegurð hreinnar ástar,  -  / 

kærleikans sem engin orð fá lýst. 

 

Af moldu landsins kæra kominn er ég.  / 

Ég hverf til moldar og af henni rís.  / 

Til jökulsins og himinsins frjáls fer ég. /

Þar fegurð ofar hverri kröfu´er vís.   /

Er jarðlífs hinsta andvarp af mér líður  / 

og eldingin mig lýstur er það víst:  / 

Þá ríkir fegurðin,  -  / 

já, fegurð alvalds ástar, - 

fegurðin sem engin orð fá lýst. 

 

Ég lyftist upp til andans háu fjalla   /

og óma sinfóníu Drottins nýt   / 

við ljúfan englasöng er lúðrar gjalla  /

ég lýt þeim örlögum er taka hlýt.   / 

Ég fer þangað sem friðurinn mér veitist.  / 

Til ferðalagsins mikla nú ég býst.   / 

Þar ríkir fegurðin, -  / 

já fegurð alheimsandans,  / 

fegurð Guðs, sem engin orð fá lýst. 

 

Vilhhjálmur Guðjónsson sá um útsetningu og hljóðfæraleik við hina íslensku gerð lagsins. 

Halla Vilhjálmsdóttir söng bakraddir. 

Góðar stundir.


mbl.is Geðraskanir helsta skýring örorku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Síðasta kveðjan: Óður til lífsins og fegurðarinnar handan þess.

Þetta var skemmtilegt og óvænt Ómar. Vona samt að þú sért langt frá því að kveðja!

Ein af mínu bestu og hlýjustu æskuminningum er platan þín:

Ómar Ragnarsson: Gamanvísur og annað skemmtiefni hljóðritað að viðstöddum áhorfendum".

Veit ekki hvað ég hef keypt hana oft síðan fyrsta eintakið spilaðist í gegn og því síður hversu oft ég hef hlustað á hana. Alltaf skemmti ég mér jafn vel yfir henni.

Ágætt að fá hér tækifæri til að þakka fyrir þá perlu og reyndar allt sem þú hefur gert til að skemmta og gleðja aðra alla tíð. Það flokkast undir forréttindi að hafa haft þig að samferðarmanni í þessu lífi. Vona að svo verði áfram lengi.

ps. Það vantar eina línu í erindi 3.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 4.5.2010 kl. 00:03

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Ómar.

Þetta er yndislegt, takk fyrir kærlega.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 4.5.2010 kl. 00:08

3 Smámynd: Einar Karl

Fallegur texti, Ómar.

Skírskotunin í Laxness vakti athygli mína, svo vill til að við í Söngsveitinni Fílharmóníu erum einmitt nú um helgina að frumflytja nýtt tónverk, 'Heimsljós - íslensk sálumessa' eftir Tryggva M. Baldvinsson tónskáld, við texta skáldsins góða. Það er mikinn innblástur að finna í hans verkum. Frá þessu verkefni okkar er sagt á bloggsíðu kórsins, www.filharmonia.blog.is. Einmitt þau fallegu orð sem þú skírskotar til skipa háan sess í verkinu.

Með góðri kveðju.

Einar Karl, 4.5.2010 kl. 00:14

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk kærlega, - Grefill. Þetta fór fram hjá mér í fyrstu útgáfu og hefur nú verið leiðrétt.

Ómar Ragnarsson, 4.5.2010 kl. 00:18

5 Smámynd: MUSA

Rosalega fallegt ljóð Ómar, og söngurinn þinn glimrandi !!

MUSA, 4.5.2010 kl. 00:44

6 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

~ Fallegt ~

Vilborg Eggertsdóttir, 4.5.2010 kl. 00:49

7 identicon

Ver gert Ómar, vel gert.

Við berumt öll í átt að sama land /

en ekki: Við berumst öll að einu og sama landi /

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 4.5.2010 kl. 09:36

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ferjumaðurinn Karon, sem hefur lengi verið í Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF), hefur að sögn Morgunblaðsins mjög takmarkaðan áhuga á Ómari Ragnarssyni.

Hann mun því að öllum líkindum halda áfram að hrella Landsvirkjun næstu þúsund árin.

Þorsteinn Briem, 4.5.2010 kl. 10:26

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk, Haukur.  Var í tímahraki þreyttur eftir vökunótt að setja þetta inn og nú ætti þetta að vera orðið villulaust.

Ómar Ragnarsson, 4.5.2010 kl. 11:24

10 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Til hamingju með þennan texta Ómar. Hann er vel gerður eins og allt hjá þér. Það er fengur að fá góðan íslenskan texta við þetta lag.  Ég hef lengi dáðst að því, var einmitt að hlusta á það og fleiri góð lög með Roger Whittaker í fyrradag, fann plötu með honum í Góða hirðinum. Má ég birta textann á bloggsíðunni minni á kirkju.net? Þar er samantekt nokkurra trúarlegra texta við nýleg erlend lög.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 13.5.2010 kl. 13:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband