Sagan skrifuð í svörðinn.

Ég var að koma úr flugi yfir Eyjafjallajökul með gufumökk standandi upp í 15-18 þúsund feta hæð líkt og var fyrr í gosinu. Tók af því myndir sem ég mun reyna að setja inn síðar.

Allt er kolsvart fyrir austan jökulinn en það er samt mikil upplifun út af fyrir sig að fara þar um og takast á við nýjan veruleika, sem bætist í hið ótrúlega fjölbreytta litróf íslenskrar náttúru öfga og átaka. 

Um stærstan hluta Íslands má lesa sögu eldgosa og hamfara þegar grafið er í svörðinn eða jarðlögin. Þannig á það eftir að verða á þeim svæðum, sem nú eru kolsvört eftir öskufallið úr Eyjafjallajökli.

Í Hraukunum svonefndu norðan Brúarjökuls hafa hröðustu framhlaup jökuls, sem þekkist í heiminum, vöðlað gróðrinum upp í stóra, langa hólaröð. 

Þegar vísindamenn hafa grafið þversnið í Hraukunum hefur það litið út eins og rúlluterta, þar sem gróðurlögin eru brún en öskulögin eins og krem. 

Þar má lesa hluta af eldgosasögu landsins og eru öskulögin úr Heklu 1104 og Öræfajökli 1262 sérlega áberandi. 

Þegar gróðurinn í Þórsmörk hefur myndað græna þekju ofan á dökkt öskulagið úr gosinu mun ekki aðeins litadýrð þessa dásamlega svæðis verða eins og fyrr, heldur mun jörðin geyma söguna um gosið 2010 og kynslóðir framtíðar geta séð minjar um það sem okkar kynslóð fékk að reyna.

Þetta er sérstaða hinnar einstæðu og heillandi náttúru Íslands, sem ég hef reynt að lýsa eins og oft og ég get, til dæmis í ljóðinu "Sveitin milli sanda", en ekkert byggðarlag á Íslandi varð fyrir annarri eins eyðingu og Litla-Hérað í Öræfajökulsgosinu 1262. 

Þennan texta gerði ég í samráði við höfund lagsins skömmu áður en hann lést. 

Eyjafjöll og Fljótshlíð eiga um þessar mundir ýmislegt sameiginlegt með Öræfasveitinni. 

 

SVEITIN MILLI SANDA.  (Lag: Magnús Blöndal Jóhannsson) 

 

Heiðblá er himinhvelfing víð. 

Fannhvít er frerans höll. 

Iðgræna bratta birkihlíð

ber við sandsins svarta völl. 

 

Hæst hæð og mannsins mikla smæð, -

marflöt og lóðrétt jörð. 

Andstæður alveg beint í æð, 

já, undra listasmíð af Drottni gjörð. 

 

Hvergi´er að finna´í heimi hér 

hliðstæðu, segja menn. 

Sveitin á milli sanda er

seiðandi og ógnvekjandi í senn. 

 

Eldrauð eru undir jökli glóð, - 

umturnar köldum ís. 

Dökkbrúnt um sandinn fossar flóð, 

sú feiknarbylgja sem hið efra rís. 

 

"...Sköpun og eyðing öllu hér 

umturna lægst og hæst. 

Eldfjallið þó af öllu ber, -

ó, hve þessi höll er stór og glæst. 

 

Hátt upp af jörðu höll sú rís. 

Hér skín mitt óskaland: 

Blátt hvel með birtu´af hvítum ís

slær bjarma´á græna hlíð og svartan sand. 

 

Þótt í bili sé kannski í hálfkæringi hægt að syngja:

 

Ofarlega mér er í sinni, - María, María, 

að það var ferlegt í Þórsmörkinni, - María, María. 

Askan blindaði, allt var ljótt, - 

yfir oss hvelfdist svifryksnótt...

 

...þá kemur sá tími að það verður aftur fagurt í Þórsmörkinni og birkið mun ilma á stjörnunótt. 


mbl.is Áfall að sjá ástand Þórsmerkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Það eiga fáir eins mikla tengingu við náttúru Íslands og þú Ómar hafðu þökk fyrir þín skrif og störf í þágu hennar til okkar

Sigurður Haraldsson, 7.6.2010 kl. 01:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband