(Frb.9366) Hættan á stigmögnun.

Aðalhættan af Kóreustríðinu 1950-53 var stigmögnun stríðsins. Upphaf stríðsins var það að Stalín taldi það áhættunnar virði að gefa Norður-Kóreumönnum samþykki sitt fyrir óvæntri innrás inn í Suður-Kóreu.

Von hans var sú að með því að koma Suður-Kóreumönnum á óvart og nýta meiri herstyrk Norður-Kóreumanna gæti unnist alger sigur í leifturstríði og að Vesturveldin stæðu þá frammi fyrir orðnum hlut. 

Stalín hafði misreiknað styrk Vesturveldanna í Berlínardeilunni og haldið að þeir gætu ekki haldið stöðu sinni þar með loftbrú. Annað kom á daginn og deilan þjappaði vestrænum þjóðum saman. 

Eftir deiluna var NATO stofnað með þeirri yfirlýsingu að árás á eitt aðildarríki jafngilti árás á þau öll. 

Stalín fór því að svipast um annars staðar og nýstofnað Alþýðulýðveldi Kína hafði fært honum nýjan bandamann í Asíu og stórfellda landvinninga kommúnista þar. 

Í Kóreu sá hann ef til vill færi á að bæta upp vonbrigðin í Evrópu, en hann gerði í þá í staðinn önnur mistök, sem sé þau, að hafa stillt því óvart svo til að Sovétmenn höfðu dregið fulltrúa sinn tímabundið út úr Öryggisráðinu. 

Fyrir bragðið gátu þeir ekki beitt neitunarvaldi þegar Öryggisráðið ákvað að stofna til herafla SÞ og fela Bandaríkjamönnum yfirstjórn hans. 

Litlu munaði að Norður-Kóreumönnum tækist að ná öllum Kóreuskaganum en kannski réði úrslitum um að það tókst ekki, að herafli SÞ varð stærri og fyrr kominn til bardaga en ef Bandaríkjamenn hefðu einir brugðist við. 

Þegar herir SÞ sóttu norður Kóreuskagann og voru að ljúka við að leggja Norður-Kóreu undir sig var tekin áhætta á íhlutun Kínverja. 

Ráðamenn Vesturveldanna vildu að ekki yrði farið alla leið norður skagann en Douglas McArthur yfirhershöfðingi fór lengra og afleiðingin varð sú að Kínverjar sendu her til að taka þátt í stríðinu, sem sótti langt suður eftir skaganum og tók Seoul, höfuðborg Suður-Kóreu.

Kannski hefðu Kínverjar hvort eð er blandað sér í stríðið, því að sameining Kóreu í eitt lýðræðisríki að vestrænni fyrirmynd hefði talist ósigur fyrir kommúnistaríkin. 

McArthur vildi þá fara í kjarnorkustríð við Kínverja og ráðast inn í Kína en Truman Bandaríkjaforseti rak hann þá úr embætti.

Herjum SÞ tókst að snúa vörn í sókn og þegar pattstaða myndaðist nálægt fyrrum landamæra ríkjanna. Niðurstaðan varð samningaferli sem var einstaklega erfitt og langt vegna djúpstæðrar gagnkvæmrar andúðar og tortryggni.

Hættan nú er nákvæmlega sú sama og fyrir 60 árum, sem sé sú að átök stigmagnist og fari úr böndum.

Aðilar telja sig ekki geta komist hjá því að fara út í hefndaraðgerðir, sem gætu hæglega orðið sífellt stærri og afdrifaríkari.

Leitun er að firrtari og spilltari ráðamönnum í heiminum en alræðisherrum Norður-Kóreu. Í landinu ríkir ömurleg fátækt, kúgun og hungursneyð og eina svar ráðamannanna hefur verið að koma sér upp kjarnorkuvopnum og eldflaugum til þess að nota þau sem hótun til að fá erlenda aðstoð í skiptum fyrir að halda friðinn. 

1950-53 óttuðust menn heimsstyrjöld ef ástandið í Kóreu færi meira úr böndunum en orðið var. 

Nú er vonandi ekki hætta á slíku en hins vegar myndi kjarnorkustríð á Kóreuskaga verða óskaplegur harmleikur og valda gríðarlegu tjóni í Asíu, miklu verra tjóni en stórstríð þar hefði valdið fyrir 60 árum, því að nú eru Asíuríkin margfalt stærri hluti heimsframleiðslu og viðskipta en þá var. 

Stórstríð í Kóreu myndi því valda alheimskreppu. 

 

 


mbl.is Segja Suður-Kóreu hafa byrjað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Teitur Haraldsson

Góð skyring hjá þér Ómar.

Allur fjárhagur Kína byggist á sölu til vesturlanda. Mér finnst ákaflega ólíklegt að þeir hætti þessum peningum fyrir Norður Kóreu. 
En þetta jú kommar og eins og sést hefur hérlendis er ómuglegt að vita hvað þeir gera.

Það er hinsvegar al rangt hjá þér að stríð myndi valda heimskreppu, það myndi þver öfugt útríma atvinnuleysi á einu bretti á vesturlöndum og koma af stað mikilli velmegun.

Teitur Haraldsson, 23.11.2010 kl. 20:15

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég get engan veginn séð að kjarnorkustríð geti gert annað en valdið miklu tjóni.

Hitler trúði því að stórkostlegasta hervæðing allra tíma myndi útrýma atvinnuleysi og þetta gekk í nokkur ár og margir sakleysingjar á Vesturlöndum létu glepjast af þessu.

En brátt kom í ljós að þetta var ekki hægt nema að nýta hernaðarmáttinn til að fara í stríð og leggja undir sig lönd sem hægt væri að mergsjúga til að standa undir kostnaðinum. 

Bandaríkin komu út úr heimsstyrjöldinni sem annað af tveimur risaveldum á kostnað annarra þjóða, sem máttu þola gríðarlega eyðileggingu af völdum stríðsins á sama tíma og Bandaríkjamenn sluppu alveg við slíkt. 

Rússar komu sterkir út hernaðarlega á kostnað annarra þjóða og lífskjaranna í eigin landi. 

Samanlagt var tjónið af völdum stríðsins margfalt meira en takmarkaður og hæpinn ávinningur tveggja þjóða, Bandaríkjamanna og Íslendinga. 

Ómar Ragnarsson, 23.11.2010 kl. 20:48

3 Smámynd: Teitur Haraldsson

Sæll.
Það er ekki til neitt kjarnorku stríð (í mínum huga allavega), það er til kjarnorku styrjöld og það eru góðar líkur á að það yrði síðasta "stórvirki" manna.
Þannig að ég myndi vilja halda fram að þetta geti eingöngu verið "venjulegt" stríð.
Hitt er of hræðilegt til að íhuga það.

Ég er ekki að tala um hergagna framleiðslu.
Það er nefnilega þannig að ef við hættum að fá vörurnar okkar frá Asíu þá verðum við að framleiða það sjálf hér á vesturlöndum. Og það þýðir meiri vinna og meiri hagvöxtur.

Þetta myndi valda nákvæmlega því sama og hervæðing Hitlers gerði á sínum tíma, nema í þetta skiptið yrði framleiðslan neysluvörur af ýmsum toga.

Hinsvegar myndi þessi tilfærsla á störfum og framleiðslu til vesturlandana valda þvílíkri skelfingu í Asíu að það ef til vill jafngildir "kjarnorkustríði".

Skilgreining þín á gróða Bandaríkjanna og Rússlands af heimstyrjöldinni seinni er vægast sagt umdeilanleg.

Teitur Haraldsson, 23.11.2010 kl. 21:15

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Bandaríkin eru stórskuldug við Kína og viðskiptaheimurinn er samansúrraður um allar álfur.

Þegar um er að ræða stjórnvöld á borð við ráðamenn Norður-Kóreu, sem ráða yfir kjarnorkuvopnum, er ljóst að ef hallar á þá í hefðbundinni styrjöld munu þeir beita kjarnorkuvopnunum og þá er fjandinn laus.

Kjarnorkuveldin hafa ekki útllokað "takmarkaða kjarnorkustyrjöld". 

Í þessu tilfelli myni hún verða þannig að ef Norður-Kóreumenn varpa kjarnorkusprengjum á Suður-Kóreu munu Bandaríkin áskilja sér rétt til að varpa jafnmörgum sprengjum á Norður-Kóreu. 

Í slíku tilfelli er vafasamt að Kína eða Sovétríkin muni blanda sér í málið, svo framarlega sem Bandaríkjamenn sýna að þeir muni ekki varpa fleiri sprengjum en Norður-Kóreumenn. 

Ein spurningin er hvort Bandaríkin og Suður-Kóreumenn muni fara í herför til að leggja Norður-Kóreu undir sig og að aftur muni gerast hið sama og í Kóreustríðinu fyrra, að Kínverjar komi til skjalanna, en án þess að beita kjarnorkuvopnum. 

Ég held að hvernig, sem þetta veltist, muni hugsanlegt kjarnorkustríð takmarkast við Kóreuskagann því að það væri óhugsandi að takmarka kjarnorkustríð á annan hátt en að halda því innni á Kóreuskaganum, allt annað væri sameiginlegt sjálfsmorð allra aðila eftir hinni frægu MAD-formúlu, GAGA, Gagnkvæm Gulltryggð Gereyðing (Mutual Assured Destruction)  

Takið eftir hvað orðin í íslensku skammstöfunni eru háðskari en í þeirri ensku. 

Ómar Ragnarsson, 23.11.2010 kl. 22:14

5 Smámynd: Teitur Haraldsson

Ef Kína og USA fara í stríð er alveg öruggt að Kína fær skuldir sínar aldrei borgaðar, það kæmi USA ekki illa.
Má jafnvel segja að það sé draumastaða...

Um leið og USA nær loft-yfirráðum verður næsta ómögulegt fyrir Norður Koreu að lyfta svo mikið sem skóflu á loft, hvað þá eldflaug.
Fyrir utan að kjarnorku-vopna-staða Norður Kóreu er mjög óörugg.
Persónulega finnst mér ólíklegt að Kínverjar myndu leyfa Norður Koreu að vera með kjarnavopn.

Það er ekki magn kjarnavopnanna frá USA sem telur, heldur aflið.
Ég myndi frekar vilja lenda í 1000 sprengjum frá Norður Kóreu en 10 frá USA.
USA eiga að baki 65 ára þróun á þessu vopni og það sem skiptir í raun meira máli, hvernig þvi er komið að skotmarkinu.

GAGA er sem betur fer ólíklegt, og það er annari bölvun að þakka, peningar og græðgi.

Teitur Haraldsson, 23.11.2010 kl. 22:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband