Einleikarar og hljómsveitir íþróttanna.

Íþróttir heimsins eru ekki á flæðiskeri þegar samtímis eru uppi margir snillingar á í ólíkum greinum, svo sem Lionel Messi í knattspyrnu, Roger Federer í tennis og Manny Paquiao í hnefaleikum.

Þegar keppnislið eins og Barcelona skartar þar að auki fleiri snillingum en Messi er ekki að sökum að spyrja, að úr verður íþróttasinfónía í hæsta gæðaflokki eins og lengsti valdi kaflinn, sem hægt er að nálgast á YouTube af leik Barcelona og Real Sociedad ber glögglega með sér. 

Það er hægt að horfa aftur og aftur á aðdraganda glæsimarka Barcelona og dást að því hvernig snilld þessara tónskálda knattspyrunnar gerir jafnvel bestu mótherja að hreinum áhorfendum.

Einleiksmark Messi er kapítuli út af fyrir sig.

Liðið, hljómsveitin, leggur grunninn með því að skarta svo mörgum snillingum að útilokað er að ná árangri með því að reyna að kippa einum úr sambandi, - þá blómstra hinir enn betur. 

Messi er hægra megin við enda varnarlínu mótherjanna, fær boltann, en spilar til fyrst til baka í átt frá markinu og virðist vera algerlega hættulaus með fimm varnarmenn á milli sín og marksins og er varnarmönnunum raðað þvert yfir völlinn eins og þéttri varnarlínu. 

Messi hefur nú einleik, sem "svæfir" mótherjana, því að hann leikur þvert til vinstri yfir völlinn meðfram varnarlínunni fram hjá varnarmönnunum fimm en stefnir þó aldrei í átt að markinu. 

Allan tímann þurfa mótherjarnir að vera á varðbergi vegna hættunnar á því að Messi gefi, á hvaða augnabliki sem er, meistarasendingu hina snjöllu samherja sína. 

Þegar hann hefur síðan rúllað vörninni upp og skilið hana eftir að baki sér, siglandi hraðbyri út á vinstri vænginn, hleypir hann á hárréttu augnabliki af skoti í fjærhorn marksins og bætir þar með markverðinum í hóp sex varnarmanna, sem mega horfa eins og statistar á eftir boltanum i markið. 

Meðan við eigum kost á að sjá svona knattpyrnu þarf ekki að óttast um gengi þessarar íþróttagreinar, þótt margt misjafnt sé á boðstólum. 

Sagan geymir nöfn tugþúsunda tónskálda, sem koma og fara, en Mozart, Beethoven og Back lýsa upp tilveru okkar. 

Frábærir einleikararar eru ekki aðeins í liði Barcelona, heldur einnig í öðrum hljómsveitum knattspyrnunnar eins og nýjustu mörk Ronaldos, annað úr aukaspyrnu og eftir skæra"hlaup bera gott vitni um.

Það sambland hópíþróttar og einstaklingsframtaks, sem knattspyrnan býður upp á, gerir hana svona vinsæla.

Frumskógarseiður einstaklingsíþrótta þar sem maður er á móti manni kitlar bardagaþorsta lífsbaráttunnar. 

Þar gnæfir Ali í minningunni, fágætur meistari gáfna, tækni, hraða, mýktar, snerpu og afls.  

 


mbl.is Mögnuð mörk hjá Messi (myndband)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er á því að Messi sé að gera fyrir knattspyrnu álíka hluti og Jordan gerði fyrir körfuna. Þá á ég við hvað þeir báðir gerðu hluti svo útí hött stundum en af svo miklum þokka og einfaldleika í sömu andrá að það er ekki hægt að lýsa því. Valtýr Björn lýsti því í beinni hér um árið þegar úrslítakeppnin milli Bulls og mig minnir Pheonix, Jordan var búinn að vera óstöðvandi og setti niður enn eitt skotið þá kom þessi óborganlega lína "Hann er ekki hægt!" Það sama má segja um Messi. Honum er að takast að lyfta leiknum á æðra stig já og Barcelona með sínu leiftrandi hraða spili þannig að andstæðingurinn á enga möguleika á að ná boltanum, við sáum það nú bara í leiknum við Real Madrid um daginn. Góðar stundir.

Þórarinn (IP-tala skráð) 13.12.2010 kl. 12:38

2 identicon

Falleg lýsing hjá Ómari.

Elvar (IP-tala skráð) 13.12.2010 kl. 12:54

3 identicon

Þarna finnst mér þér breggtða málsnilldin Ómar, en orðið sinfónía er tökuorð fyrir "symphony".  Sem byggir á latneska orðinu "simphonia".  Ítalir stafa þetta "sinfonia", en mér er spurn.  Er ekki til betra orð á Íslensku.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 13.12.2010 kl. 13:32

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jú, Bjarne, "hljómkviða." En meðan við eigum tvær sinfóníuhljómsveitir er erfitt að verjast orðinu "sinfónía".

Ómar Ragnarsson, 13.12.2010 kl. 14:37

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég held að orðið "sinfónía" hafi öðlast þegnrétt hér. En það er verðugt verkefni fyrir nýyrðasmiði að koma með annað orð en hef grun um að það verði alltaf klúðurslegt. Mér dettur í hug t.d. "fjöltónar".... "fjöltónaverk".... ljótt er það

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.12.2010 kl. 14:39

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Já, auðvitað hljómkviða.... skárra

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.12.2010 kl. 14:39

7 Smámynd: Gunnar Waage

Sammála, þetta eru listamenn.

Gunnar Waage, 13.12.2010 kl. 16:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband