Rangur dalur í fyrirsögn.

Ég lærði það "the hard way" þegar ég var fréttamaður að vanda sérstaklega til allra atriða í fréttflutningi þegar um alvarlegan atburð væri að ræða. 

Séra Emil tók okkur, lærisveina sína, rækilega til bæna þegar slíkt gerðist og brýndi okkur til að vanda fréttaflutninginn í smáu sem stóru þegar svona stóð á.

Mér finnst leiðinlegt að telja mig knúinn til að leiðrétta fyrirsögn á hinni dapurlegu frétt í mbl.is um alvarlegt slys við Bólstaðarhlíð en rétt verður að vera rétt. 

Í stað þess að nota heitið Bólstaðarhlíð, sem hefði verið eðlilegast, því að áreksturinn varð í landi þess kirkjustaðar, er talað um Húnaver, sem er ein af byggingunum á staðnum. 

Látum það vera. Fleiri kannast við Húnaver en Bólstaðarhlíð og kannski er ætlunin með því að nota nafn félagsheimilisins að lesendur geti glöggvað sig betur á málsatvikum. 

Hitt er verra að blanda Langadal við þetta í fyrirsögn fréttarinnar því að Langidalur er næsti dalur fyrir vestan slysstaðinn. 

Bólstaðarhlíð (og þar með Húnaver) má telja ysta bæ í Svartárdal en kórréttast mun þó að telja Bólstaðarhlíð vera í Ævarsskarði,  sem liggur á milli Svartárdals og þess staðar þremur kílómetrum vestar þar sem mætast Langidalur og Blöndudalur. 

Að segja að atburður við Bólstaðarhlíð hafi orðið "við Langadal" er álíka vitlaust og að segja að atburður við Lágafell hafi orðið "við Mosfellsdal"

Það hlýtur að vera til kort á vegg í Morgunblaðshúsinu þar sem hægt er að glöggva sig á aðstæðum. 

Nema að þessi villa hafi komið frá Vegagerðinnni. Varla hefur hún komið frá lögreglunni á Blönduósi, sem er staðkunnug. 

P. S. 

Nú sé ég það í nýrri frétt að hætt hefur verið við að tala um að slysið hafi átt sér stað "við Langadal" og sagt fullum fetum að það hafi átt sér stað "í Langadal" og er nánar tiltekið að þetta hafi gerst í næstu "brekku fyrir vestan Bólstaðarhlíðarbrekku". 

Sú brekka heitir reyndar ekki Bólstaðarhlíðarbrekka heldur Botnastaðabrekka með réttu svo að ekki er heldur farið rétt með það heldur bæði það nafn haft rangt og sömuleiðis það að þetta hafi gerst í Langadal. 

Slysið átti sér stað í miðju Ævarsskarði, sem tilheyrir engum dalanna þriggja sem að því liggja, Svartárdal, Langadal né Blöndudal því að það tengir þessa þrjá dali saman. 

Hvernig hefði nú verið að einhver hefði hringt frá fjölmiðlunum, sem fjalla um þetta, og spurt heimamenn sjálfa hvar þessi staður væri fyrr í kvöld?  Nú er klukkan að verða tólf og það orðið of seint. 

P. S. II.  Til gamans "gúglaði" ég kort af staðháttum og kom upp síða sem heitir "travellingluck" sem útleggst ferðagæfa. Ekki er það nú gæfulegt þótt staðhæft sé að staðsetningar séu samkvæmd nákvæmum GPS-gervitunglamælingum. 

Æsustaðir eru vitlausu megin við Blðndu, Finnstunga ofan í miðri á, Strjúgsstaðir uppi í miðju fjalli og Hvammur svo langt frá veginum uppi á Langadalsfjalli, að vegurinn sést ekki einu sinni, hvað þá Blanda!  Eins gott að blaðamenn og aðrir reiði sig ekki á svona arfavitlaus gögn! 


mbl.is Alvarlegt slys við Langadal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Tek undir með þér Ómar. Auk þess er þessi frétt mjög flausturslega unnin. Það eru því miður alltof oft óvönduð vinnubrögð í fréttavinnslu. Í gær var t.d. sagt í hádegisfréttum RÚV að víða á Norðausturlandi væru vegir ófærir, til dæmis Vatnsskarð eystra og Breiðdalsheiði. Þar finnst mér nú Norðausturlandið teygt nokkuð langt suður.

Haraldur Bjarnason, 27.12.2010 kl. 21:00

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Framsetning frétta hefur versnað til muna upp á síðkastið. Hvort um er að ræða of miklu álagi á fréttamenn eða einfaldlega leti þeirra skal ósagt látið, en ljóst er að yfirlestur þeirra virðist oft á tíðum lítill sem enginn. Verst er þó að lesa fréttir sem þýddar eru af erlendum fréttamiðlum. Oft eru þessar þýðingar beinar orðrétt en ekkert farið að íslensku málfari.

Varðandi fréttina á slysinu í Langadal / Bólstaðahlíð, er spurning hvort slysið hafi kannski átt sér stað í Langadalnum, en þá á Húnaver enn síður að koma fram í fréttinni.

Gunnar Heiðarsson, 27.12.2010 kl. 21:17

3 identicon

Sammála þér í þessu Ómar. En það eru því miður alltof margir sem telja sig vera enn í Langadal uns þeir fara að keyra upp Botnastaðabrekkuna.

Guðrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 27.12.2010 kl. 21:17

4 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Þetta er alveg rétt hjá Ómari, fyrirsögnin er villandi og fréttaflutningurinn ekki vandaður þannig lagað séð. Ég er allvel kunnugur þarna og var í vandræðum með að skilja staðsetninguna út frá fréttinni.

En þjóðvegurinn liggur úr Langadal um Ævarsskarð að Bólstaðarhlíð og slysið virðist hafa orðið á þeim slóðum. Svo liggur vegurinn áfram upp úr Svartárdal um Bólstaðarhlíðarbrekku upp á Vatnsskarð og áfram yfir í Skagafjörð. En það er kannski viðbúið að ókunnugir átti sig ekki á þessu þó Ómar, sem þekkir allt landið eins og tærnar á sér, og aðrir staðkunnugir menn láti sér bregða við svona ónákvæmar lýsingar í fréttum.

Jón Pétur Líndal, 27.12.2010 kl. 21:32

5 Smámynd: Jón Sigurðsson

Þetta er óþarfa viðkvæmni Ómar! Það vita langflestir hvar Langidalur í A-Hún er. Það eru margir á því að Langidalir nái að Ævarsskarði en það eru mun færri sem vita hvar Ævarsskarð er. Sumir telja  það vera skarðið þar sem Svartárdalur, Langidalur og Þverárdalur mætast. Ég kom á vetvang og þetta slys er í landi Æsustaða og deila menn eflaust um það því menn eru ekki sammála um merki á milli Bólstaðarhlíðar og Æsustaða. Slysavetvangur er ekki fjarri þeim stað sem Steingrímur Joð fór útaf um árið. Fréttin er nokkuð rétt og staðhættir ekki fjarri lagi fyrir þá sem þekkja ekki svæðið í hörgul. Vitlausari fréttir hef ég lesið og upplýsingarnar frá vegagerðinni varðandi færð í gær voru skelfilega rangar og til þess fallnar að fólk hættir að taka mark á þeim og þá er fjandinn laus  

Jón Sigurðsson, 27.12.2010 kl. 22:36

6 identicon

Sæll Ómar:

Þú ert nú ágætlega staðkunnugur á þessum slóðum eftir að hafa verið í sveit hjá Möngu, en segðu mér þá eitt, hvort myndir þú segja að brekkan uppfrá Húnaveri héti Bólstaðarhlíðarbrekka eða Botnastaðabrekka?  Ég held að ég fari með rétt mál en nánast allir sem búa á þessum slóðum segja Botnastaðabrekka.  Ég sagði alltaf Bólstaðarhlíðarbrekka en eftir að ég bjó á Skagaströnd í rúmlega þrjú ár þá var mér tilkynnt að þessi brekka héti Botnastaðabrekka.  Hver er þín skoðun á þessu?

Kv Jón Brynjar:-)) 

Jón Brynjar Sigmundsson (IP-tala skráð) 27.12.2010 kl. 22:46

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég fæ stundum á tilfinninguna að sumir blaða og fréttamenn séu vart komnir af fermingaraldri, svo illa þekkja þeir landið okkar. En nú á tímum "upplýsingaaldarinnar", hefði maður haldið að auðvelt væri að "gúggla" hlutina.

Ég held að standardinn í blaðamannastéttinni dragi dám af ástandinu á fjölmiðlamarkaðinum. Taprekstri til margra ára er svarað með töfraorðinu "hagræðingu", sem er fínna orð yfir það að reynslumiklir blaðamenn eru látnir taka pokann sinn og nýgræðingar ráðnir í þeirra stað

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.12.2010 kl. 22:49

8 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Ég er ekki viss um að þetta sé allt jafn skynsamlegt. Blaðamaðurinn er barn sinnar kynslóðar. Hann er að koma alvarlegri frétt til skila fyrir sem flesta að átta sig á. Staðreyndavillur eru auðvitað stundum neyðarlegar og sumar óafsakanlegar. Í þessu tilfelli held ég að þekkingarleysið hafi gert gagn. Flestir hafi skilið við hvað var átt og fleiri en nefnt hefði verið Ævarsskarð tam Húnaver er og miklu þekktara kennileiti en Bólstaðarhlíð hin síðari ár.  

Hér er hvorki staður né stund til að kenna þjóðinni kórrétta landafræði.

Sigurbjörn Sveinsson, 27.12.2010 kl. 23:08

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í frétt í sjónvarpinu í kvöld var allt í einu sagt frá því að slysið hefði orðið tvo kílómetra fyrir vestan Bólstaðarhlíð og þar með tvo kílómetra fyrir vestan Húnaver. 

Ef menn vilja ekki nota hið rétta staðarnafn, Ævarsskarð, má segja að áreksturinn hafi orðið tvo kílómetra vestan við Bólstaðarhlíð, eða skammt austan við vegamót Langadalsvegar og Blöndudalsvegar. 

Ekki minnkar það ruglinginn og gegnir furðu á tímum upplýsinganna að horfa upp á svona hringl með Húnaver og Langadal. 

Hvað brekkuna austan Bólstaðarhlíðar áhrærir aðhyllist ég staðarnafnið "Botnastaðabrekka" og beygi mig ekki fyrir staðarvillum, sem sífellt vaða uppi, eins og þeirri að segja að Bláfjöll, Langahlíð og Vatnsleysuströnd séu á Reykjanesi. 

Ómar Ragnarsson, 27.12.2010 kl. 23:30

10 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Ferðu þá vestur yfir Brattabrekku Ómar?  Ekki hef ég tekið eftir því. Eða norður í Kaldakinn?

Sigurbjörn Sveinsson, 28.12.2010 kl. 01:16

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ævarsskarð, sem slysið var í, liggur nánast beint vestur-austur. Ég nota að sjálfsögðu réttar áttir þegar ég tala um vegarkaflann sem liggur í vestur frá Bólstaðarhlíð yfir í Langadal.

Þegar síðan er ekið út Langadal á suðurleið er akstursstefnan samt í norðvestur. 

Þegar ekið er á norðurleið eftir Langadal er ekið suður eftir dallnum eða frameftir, enda er akstursstefnan í suðaustur. 

Ómar Ragnarsson, 28.12.2010 kl. 01:52

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Á leið vestur á Vestfirði er ekið norður Bröttubrekku frá Dalsmynni yfir í Miðdali.

Ómar Ragnarsson, 28.12.2010 kl. 01:53

13 Smámynd: Guðmundur Paul

Í landnámu er Bólstaðarhlíð (Hlíð) sögð vera í Svartárdal en Ævar hafi numið land frá Móbergi og Langadal allan upp þaðan og norður um háls, þeas Gautsdal og inní Laxárdal. Bæir í Langadal bera enn nöfn barna hans. Hann er sagður hafa búið í Ævarsskarði en Hauksbók segir hann hafa dáið þar. Skv þessu hefur Ævarsskarð verið að öllum líkindum þar sem í dag er kallað Litla-Vatnsskarð. Seinni tíma menn hafa svo yfirfært Ævarsskarð að mótum Svartárdals og Langadals. Deilur voru um staðsetninguna í lok 19. aldar og byrjun þeirrar 20. og sýndist sitt hverjum. Í Landnámu er jafnframt sagt að Þorkell vignir Skíðason hins gamla hafi numið Vatnsskarð allt og Svartárdal, og hefur að öllum líkindum búið í Bólstaðarhlíð. Fundur þeirra feðga Ævars gamla og Véfröðar bendir heldur ekki til þess að hann hafi komið í Svartárdal. Bólstaðarhlíð var hinsvegar oft í gömlum skjölum sögð vera í Langadal þó hún standi í "Svartárdalsopinu norðast" eins og segir í Árbók hins íslenska fornleifafélags 39. árgangi. Vildi bara skjóta þessu inní umræðuna.

Guðmundur Paul, 28.12.2010 kl. 04:30

14 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Þar skriplaði á skötu Ómar. Úr Norðurárdal í Borgarfirði er farið vestur í Dali þó í hánorður sé eins og farið er vestur Svínadal þó eins hátti. Gamla póstleiðin vestur í Dali lá handan árinnar nær Baulu og vestur af þar sem kallast Brattinn.  Af honum dregur leiðin nafn sitt og því farið um Brattabrekku. Um þetta má finna heimildir m.a. í Árbók FÍ eftir Þorstein Þorsteinsson sýslumann.

Þetta er auðvitað smámunasemi í mér en sýnir að ekki er hægt að segja fréttir bara fyrir staðkunnuga.

Sigurbjörn Sveinsson, 28.12.2010 kl. 08:35

15 identicon

Af því ég er þokkalega kunnugur á þessum slóðum, úr Skagafirði og var í brúarvinnu í mörg sumur í Langa- og Blöndudal, vildi ég skjóta því inn að Ævarsskarð þekkir „enginn“ (hugsanlega hefur einhver heyrt á það minnst) maður í nágrenninu og aldrei er um það talað. Þá var aldrei minnst á Botnastaðabrekku í mín eyru fyrr en eftir að nýi vegurinn var lagður upp, eða niður, hana; brekkan var ævinlega kölluð Bólstaðarhlíðarbrekka.

Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 28.12.2010 kl. 11:16

16 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jæja, jæja, kannski fer þessi orðræða að minna á orð Nóbelskáldsins, sem sagði að Íslendingar elskuðu að rífast um nær einskisverða hluti

Skal ég þá taka á mig þá ábyrgð að hafa  komið þessari umræðu af stað.

Ómar Ragnarsson, 28.12.2010 kl. 14:14

17 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Hér skal staldra við. Í fyrsta lagi er þetta ekki rifrildi og í öðru lagi þá er alls ekki fjallað um einskisverða hluti. Er ekki sagt, að tungan sé sá þráður, sem heldur þjóðinni saman? Þetta er með öðrum umræða um lífið sjálft.  

Sigurbjörn Sveinsson, 28.12.2010 kl. 14:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband