Fer ekki alltaf eftir gæðastimplum.

Reynslan sýnir að það fer ekki alltaf eftir þeim gæðastimplum, sem ljómað hafa um nöfn bílategunda, hvort gallar komi upp í þeim með þeim afleiðingum að innkalla þurfi þá.

Ég hef í mörg ár fylgst með úttektum þýska bílablaðsins Auto motor und sport á gæðum og bilanatíðni mismunandi tegunda og þar hafa oft verið dálitlar sveiflur eftir árum og gerðum.

Tímaritið hefur gefið út árlega bæklinga um þetta undir heitinu Gebrauchtwagen.

Tímaritið hefur sett einfalda útlistun á bilanatíðni þannig að hún hefur verið flokkuð eftir því hvar hún er í bílnum, svo sem hemlar, rafkerfi, drifbúnaður, stýrisbúnaður eða lekatíðni.

Síðan hefur notaður grænn litur þar sem bilanir voru minni en í meðallagi en súlurnar hafa verið rauðar, þegar bilarnir voru tíðari en í meðallagi.

Árum saman var áberandi hvað grænu súlurnar voru einkennandi fyrir sumar bílgerðir eins og Mazda og Toyota. Má segja, að hér á landi hafi Mazda verið einhver vanmetnasta bílategundin hjá íslenskum bílakaupendum. 

Allt fram til ársins 2000 skar ein bílategund sig algerlega úr, því að á hverju ári voru allar súlurnar rauðar. 

Það var gamla upprunalega gerðin af Mini. 

Stundum hefur bilanatíðni verið ótrúlega há á einstökum gerðum "eðalbíla" eins og Benz og BMW.

Ákveðin þróun átti sér stað á fyrri hluta síðasta áratug þegar bílategundir eins og Hyundai og Skoda skutust hratt upp á við í gæðum. 

Var Skoda á tímabili kominn upp fyrir Volkswagen, sem er móðurfyrirtæki Skoda.

Ég hitti bílaáhugamann í Berlín fyrir nokkrum árum þar sem þetta bar á góma og ég spurði hann álits á því. 

Hann svaraði: "Ég skal útskýra þetta , en segðu ekki frá því að það hafi verið Þjóðverji sem sagði þér það. Ástæða þess að Skoda er kominn fram úr Volkswagen er sú, að það eru Tékkar sem setja Skodann saman en Tyrkir setja Volkswagen saman."

Ég stóð við loforðið  meðan ég var ytra en hér í fámenninu úti í Ballarhafi mörgum árum seinna held ég að það sé allt í lagi að láta þetta flakka. 

 


mbl.is Innkalla þúsundir Benz-bifreiða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Var ekki ein VW týpan ungversk smíði?

Jón Logi (IP-tala skráð) 5.4.2011 kl. 21:12

2 identicon

Skil vel að Þjóðverjinn bað þig að fara ekkert lengra með þetta, enda tómt bull.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 5.4.2011 kl. 22:18

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

VW er ekki bara samansettur í Tyrklandi, heldur víða um heim og svo er um fleiri þýskar bílategundir.

Þegar tölvur fóru að ryðja sér til rúms í þýskum bílum, m.a. VW, þá voru hnökrar á þeim nokkuð tíðar og því fékk t.d. VW nokkuð af rauðum súlum. Bilanirnar voru hins vegar ekki slitlegs eðlis, heldur frekar ómerkilegar, en stundum óþægilegar.

Ég held að það hafi breyst hratt til batnaðar allra síðustu ár.

Ég á tvo VW Passat og hef keyrt þá samtals 160.000 km. og þeir hafa ekkert klikkað.

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.4.2011 kl. 22:29

4 Smámynd: Einar Steinsson

Þið misskiljið brandarann, VW seldur í Evrópu er að mestu settur saman í Þýskalandi en verkamennirnir eru að stórum hluta Tyrkneskir innflytjendur. Tékkar hafa síðan alltaf verið góðir smiðir, margt gott sem hefur komið frá þeim í gegnum tíðina þannig að brandarinn er ekki alveg út í hött.

Benz jeppinn sem um er að ræða (M-línan) hefur hins vegar aldrei verið settur saman í Þýskalandi, eldri gerðin fram til 2005 var framleidd í USA og Austurríki en yngri gerðin frá 2005 er framleidd í USA og Mexíkó.

Mercedes Benz hefur raunar nánast aldrei framleitt neina 4x4 bíla í Þýskalandi, G-línan hefur alla tíð verið framleidd í Austurríki og fólksbílarnir með fjórhjóladrifi (4-Matic) eru líka framleiddir þar.

Einar Steinsson, 5.4.2011 kl. 22:56

5 Smámynd: Sævar Helgason

Einn bíll getur verið smíðaður ,að hluta , víða. Ég heimsótti t.d eitt lítið en mjög fullkomið sveitaverkstæði fyrir utan Gent í Belgíu. Þeir voru m.a að alsmíða stýrisbúnað og skila fullsamsettum fyrir Scania vörubíla og rútur. Þetta sendu þeir síðan á samsetningastað bílsins í Svíþjóð. Sá bíll var" sænskframleiddur. Og þetta er almennt. Þeir voru líka í að smíða fyrir álver ,steypuvélar,m.a Ísal í Straumsvík.

Sævar Helgason, 5.4.2011 kl. 23:25

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Íhlutir í bíla koma allstaðar að úr heiminum. Rétt sem Sævar segir, ... seinustu skrúfurnar skrúfaðar í landinu sem fær framleiðslustimpilinn.

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.4.2011 kl. 00:44

7 Smámynd: Einar Steinsson

Það er ekki nóg með að bílar séu smíðaðir út um allt og síðan safnað saman og skrúfaðir saman heldur eru mismunandi framleiðendur oft að framleiða sama bílinn. Nokkur dæmi:

Toyota Aygo er sami bíll og Peugeot 107 og Citroen C1 allir settir saman í Tékklandi

Toyota iQ er sami bíll og Aston Martin Cygnet

Ford KA er sami bíll og Fiat 500 og Fiat Panda allir settir saman í Póllandi

Opel Insignia er sami bíll og Buick Regal og SAAB 9-5 og Cadillac BLS

Meira að segja Mercedes Bens notar þessa aðferð, þeir framleiddu lengi "Minivan" á Spáni sem var seldur sem Mercedes Bens V-sería en var ekkert annað en VW Caravella með stjörnu í grillinu.

Síðan er náttúrulega "hvað ertu tilbúinn að borga fyrir merkið" leikfimin hjá framleiðendum.

VW - Audi - Seat  eru meira og minna sömu bílarnir

Lexus - Toyota eru mismunandi dýrar umbúðir um sama kram

Infinity - Nissan sömuleiðis

Peugeot - Citroen enn eitt dæmi.

Síðan eru mörg dæmi um að mismunandi framleiðendur eru að nota sömu vélar, t.d. á konan mín Ford Fiesta með Peugeot dieselvél, þá vél er líka hægt að finna í bílum frá Mazda og í Mini sem BMW framleiðir og að sjálfsögðu í Peugeot og Citroen. Og svo má ekki gleyma því að þessi Ford Fiesta er sami bíll og Mazda 2.

Einar Steinsson, 6.4.2011 kl. 10:05

8 Smámynd: Einar Steinsson

Það er ekki einfallt að vera með bíladellu í dag, þegar ég var að alast upp hélt maður upp á sína tegund og var nokkuð viss um frá hvaða landi hún kom, í dag er þetta allt komið í hrærigraut

Einar Steinsson, 6.4.2011 kl. 10:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband