"Climb every mountain!"

Í stórbrotnu lagi í söngleiknum Tónaflóði (Sound of music) er sungið um það að klífa hvert fjall.

Þess vegna er framtak Leifs Leifssonar þörf uppörvun fyrir hvern þann sem stendur frammi fyrir því sem kann að virðast ókleift verkefni. 

Leifur ætlar á frábæran hátt að framlengja og gera enn raunverulegri ferð, sem farin var á tind Snæfellsjökuls í maí 1995 þegar ferðaklúbburinn "Flækjufótur" fór í ferð upp á tindinn, en í klúbbnum var fatlað fólk. 

Einn klúbbfélaga, sem hafði yndi af jöklaferðum á jeppa sínum, þótt hann væri bundinn við hjólastól, "spólaði" með eigin handafli síðustu 50 metrana upp að Jökulþúfum á hjólastólnum sínum. 

Nú skilst mér að Leifur ætli að bæta um betur og fara fyrir eigin handafli alla leið og láta rætast draum, sem virðist við fyrstu sýn ókleift að láta rætast. 

Ég hef áður minnst á eftirminnilegan þátt í útvarpinu 1954 um möguleikana á geimferðum, þar á meðal ferðum til tunglsins. Þetta þóttu "geimórar". 

Samt stóðu menn á tunglinu aðeins 15 árum síðar. 

Þegar brautryðjendur í hvalaskoðunarferðum hófu þá útgerð sögðu sumir að það væru "geimórar". 

Annað hefur komið í ljós. 

Þegar rætt var um það fyrir rúmum áratug að hugvit og vísindi gætu skilað þjóðarbúinu miklum tekjum ræddu þeir, sem aðeins sáu möguleika í stóriðju um það sem "eitthvað annað" í hæðnistóni. 

Ef einhver hefði sagt þá að einn brautryðjandi gæti með hugviti sínu skapað fyrirtæki, sem með framleiðslu á tölvuleikjum gæti gefið meiri gjaldeyristekjur en skapast í störfum starfsmanna í öllum álverum landsins hefði hlegið hátt og lengi yfir slíkum "geimórum". 

Þó hefur fyrirtækið CCP nú sannað þetta. 

Stundum ætla menn sér þó um of og er "íslenska efnahagsundrið" sem endaði með Hruninu gott dæmi um það.  Því miður hefur það komið óorði á útrás því að sé raunsæi, hyggindi og öryggi með í för, má ná miklum árangri á því sviði þótt sígandi lukka sé best. 

Bankabólan sem sprakk var hins vegar blásinu upp undir merkjum taumlausrar græðgi og blekkinga sem hlutu að enda með hruni. 

Orsök Titanic-slyssins var ekki sú, að hraðskreiðum stórskipum mætti ekki sigla yfir Atlantshafið og setja hraðamet, heldur áhættufíkn einnar af sjö dauðasyndunum, græðginnar. 


mbl.is Á Snæfellsjökul í hjólastól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband