Hin heillandi náttúra landsins.

Náttúra Íslands hefur um aldir verið helsti ógnvaldur þjóðarinnar og enn eimir eftir af því hugarfari að það sé af hinu vonda. 

Þjóðin verður með reglulegu millibili fyrir búsifjum af völdum náttúruaflanna en gagnstætt því sem áður var þegar áhrif náttúrunnar voru öll neikvæð, er það þvert á móti aðdráttarafl bæði fyrir Íslendinga og ekki síður útlendinga hve stórbrotin sköpunin er sem íslensk náttúra býður okkur upp á.

Í fyrra fór ég með fjölmörgum erlendum fjölmiðlamönnum yfir Eyjafjallajökul og í sérstaka ferð niður eftir Gígjökli og þegar komið var í lok "rússíbanaferðarinnar" niður að rótum jökulsins, var það punkturinn yfir i-ið að benda á það, hvernig aurframburðurinn af völdum bráðnandi jökulsins hafði fyllt upp djúpt lón, sem áður var við jökulsporðinn.

Nú stefnir í að það verði jafn áhugavert að benda á það hvernig lónið er byrjað að myndast á ný og að sagan endalausa um hinn stórbrotna og einstæða sköpunarmátt íslenskrar náttúru hefur fengið viðbót og framhald.

Og það, að fyrirbærið sé hættulegt, eykur á virði þess sem fólgið er í töfrum og hrikaleik þess lands, sem í ógnvekjandi fegurð snertir við frumþáttum mannlífsins, sem er einfaldlega að "lifa af", og túlkað er í enska orðinu "survival".

Þetta séreinkenni íslenskrar náttúru er eitt af því sem lokkar hingað útlent ferðafólk öðru fremur.

Þess vegna má finna út úr hættunni sem Gigjökull hefur nú afhjúpað, aðdráttarafl þar sem hið jákvæða er margfalt dýrmætara en hið neikvæða.  


mbl.is Varað við nýju lóni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Smári Ríkarðsson

Ég er sammála Ómari með þetta. Þarna er náttúruspil sem engan óraði fyrir.

Það breytir því ekki að við sem erum að fara með fólk þarna uppeftir þurfum að kunna að umgangast hætturnar. Nú hafa katlar komið í ljós eftir ísjaka sem eru inni í sandinum frá jökulsporðinum. Ég á mynd af einum gígnum. Hann er það stór að hann hefði gleypt heilt einbýlishús. Það þarf að passa að enginn falli í svona pytt því það getur endað með ósköpum og þá er fegurðin léttvæg.

Smári Ríkarðsson, 5.7.2011 kl. 23:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband