Land mitt, tunga og þjóð.

Ofangreind hugtök eru grunnforsenda fyrir sjálfstæði og sjálfsímynd íslenskrar þjóðar.

Án hinnar byggilegu eyju, Íslands, lifði hér ekkert fólk. "Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu" segir í upphafsgrein frumvarps Stjórnlagaráðs um náttúru Íslands og eru það orð að sönnu.

Án lands eða þjóðar væri hins vegar ekki ekki talað neitt sérstakt tungumál hér, og vegna smæðar þjóðarinnar væri vafasamt að hún hefði hlotið sjálfstæði og þá virðingu og álit í augum annarra þjóða sem tungan og ómetanleg menningarverðmæti tengd henni hafa fært henni. 

Fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar gefur gildi tungunnar og dags hennar aukið vægi vegna þess hve mikinn þátt hann átti í því sem fyrsta og mesta nútímaljóðskáld, sem við höfum eignast, að lyfta íslenskri tungu til vegs og virðingar með afburða snilli sinni og valdi yfir málinu. 

Stórkostleg og yfirgripsmikil nýyrðasmíð Jónasar átti ómetanlega þátt í að endurreisa tungumálið og efla viðgangs þess og vöxt. 

Það má hins vegar ekki falla í skuggann að Jónas var líka brautryðjandi í því að gefa með löndum sínum með ljóðum sínum og nýyrðasmíð algerlega nýja sýn á verðmæti náttúru landsins sem einn af merkustu náttúrufræðingum þjóðarinnar. 

Fæðingardagur Jónasa hefði þess vegna allt eins getað orðið dagur íslenskrar náttúru, svo samofin eru tungan og náttúran í verkum hans. 

Þegar snillingurinn óf þetta saman, málsnilld sína, skáldahæfileika og þekkingu á einstæðri náttúru landins átti það ekki minni þátt í að lyfta hugum þjóðar hans upp frá eymd samtímans til hinnar víðu sýnar um endurheimt fyrri glæsileika íslensks þjóðfélags og íslenskrar menningar. 

Gildi verka Jónasar fyrir þá sýn sem fólk hefur á land okkar og okkur sjálfum verður aldrei ofmetið. 

Jónas og Fjölnismenn létu til sín taka í stjórnmálum sinnar tíðar svo um munaði, þótt ekki sæti Jónas á þingi, og þeir yrðu að lúta í lægra haldi í aðalbaráttumáli sínu, að endurreist Alþingi sæti á Þingvöllum. 

En sá ósigur og ósigur Jónasar í baráttunni við Bakkus, þetta lyftir honum aðeins enn hærra upp, - maður undrast afköst og afrek hans á allt of stuttri ævi. 

Fyrir tveimur árum reyndi ég að fanga anda dags íslenskrar tungu 16. nóvember 2009 með ljóði, sem setti móðurmálið í samhengi við land og þjóð, - og þá setti ég textann þá á bloggsíðu mína. 

Ég hef aðeins lagfært ljóðið síðan. Það var gert við lag, sem ég hef aðeins einu sinni sungið, -  án undirleiks, við leiði Jónasar Hallgrímssonar í Þjóðargrafreitnum í lok Þingvallagöngu í fyrrasumar.

Af því að hægt er að leita að þessum texta í leitarreitnum vinstra megin á bloggsíðu minni og detta þá niður á úrelta gerð þessa ljóðs, birti ég þessa nýju útgáfu hér svo að hin eldri sé út úr heiminum. 

 

LAND MITT TUNGA OG ÞJÓÐ.   (Með sínu lagi)

 

:,: Landið mitt! :,: 

 

Á ysta norðurhjara með auðnir, dali´og fjöll

er eyjan bjarta´og kalda sem fóstrar okkur öll. 

Í huga okkar ljómar hið fagra föðurland

með firði, hraun og elfur, græn engi´og fjörusand, 

fossa, standbjörg, eldfjöll, -hveri´og fjörusand. 

 

Málið mitt! Móðurmálið mitt! 

 

Í þúsund ára sögu vort dýra móðurmál,

sem meitlar hugsun okkar er greypt í þjóðarsál. 

Það geymir dýra arfinn á frægri sagnaslóð

:,: og samheldni og einingu veitir okkar þjóð :,: 

 

:,: Þjóðin mín! :,: 

 

Því landi jökla´og elda sem undur heita má

aldrei bregðist þjóðin sem varðveita það á!

Í ljóma góðra verka uns leggjumst við í mold

:: vort líf sé helgað þjóðinni, tungu´og feðrafold! :,: 

 

Land mitt, tunga og þjóð !

 

Á Íslandi er líf okkar gegnum súrt og sætt.

Í sigrum jafnt sem mótbyr hefur það oss fætt og klætt. 

Í þúsund ár skal syngja í þúsund radda óð

að þrenning ein og ástkær er land mitt, tunga´og þjóð,

já þrenning ein og órofa´ er land mitt, tunga´og þjóð. 

 

Landið mitt! Móðurmálið mitt! Þjóðin mín! 

 


mbl.is Grunnskólanemendur verðlaunaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: K.H.S.

Orkan sem við búum að er ekki okkar einkamál. Okkur ber að lágmarki að skila heiminum orkuvinnslu sem fer í að framleiða allar okkar þurftir. Ef við ætlum að vera menn með mönnum ber okkur, vegna landsgæða og til að stuðla að jákvæðri orkunýtingu að framleiða orku eins og okkur framast er unnt. Frekjan í okkur vesturlandabúum gagnvart fólki í öðrum heimshlutum er ógnvænleg. Nú er helst í tísku hér í alsnægtunum að éta ekki annað en heimaræktað án áburðagjafar og óerfðabreitt. Allt ræktunarland Evrópu nægði ekki til að fæða mannfjöldann þar ef allir Evrúpubúar tækju upp slíka háttsemi. Það yrði að bæta við Afríku eða Suður Ameríku að heilu.

Að falla frá virkjun fallvatna vegna þess að komandi kynslóðir missi af einhverju áglápi er léttvæg röksemd í heimi þar sem misskiptingin ræður öllu og fólk er að farast úr hungri og farsóttum. 

K.H.S., 17.11.2011 kl. 13:05

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ef skortur væri í heiminum á gulli, silfri og kopar til iðnaðarþarf af tæknilegum ástæðum, og það þyrfti að skrapa saman þessa málma um allan heim, myndu menn þá byrja á því að bræða helstu hvolfþök stærstu kirknanna og bræða flottustu listaverkin?

Nei, auðvitað ekki. Þeir myndu taka fyrst alla hlutina úr þessum málmum, sem teldust hversdagslegastir og bræða þá því að þrátt fyrir dýrð sína væru frægustu stytturnar og hvolfþökin innan við eitt prósent af þessum góðmálmum jarðar. 

Íslensk náttúra á eldvirka hluta landsins er svo sérstæð, að meira að segja allir hverirnir og fossarnir í Yellowstone komast ekki blað í hópi helstu náttúruundra veraldar þótt Ísland geri það. 

Samt munu Bandaríkjamenn ekki snerta alla hina milu orku Yellowstone því þeir vita að þrátt fyrir þess miklu orku er hún innan við eitt prósent af orkuþörf Bandaríkjanna. 

Öll orka Íslands er langt innan við eitt prósent af orkuþörf Evrópu.

Í Noregi er álíka mikil óvirkjuð vatnsorka að magni til og á Íslandi. Hún verður ekki virkjuð þótt það kosti margfalt minni náttúruspjöll en á Íslandi. 

Ef horft væri heildstætt á Evrópu eins og Bandaríkjamenn líta á Norður-Ameríku, myndi vatnsorkan í Noregi verða virkjuð á undan þeirri íslensku, einfaldlega af því að Ísland er það sama í hópi náttúruverðmætanna eins og frægustu kirkjur, hvolfþök og styttur heimsins eru fyrir heimsmenninguna. 

"...að komandi kynslóðir missi af einhverju áglápi."  Er þá ekki rétt að breyta Sigríðarstofu við Gullfoss í níðstöng um hana, konuna sem barðist gegn því að "komandi kynslóðir misstu af einhverju áglápi."?

Ómar Ragnarsson, 17.11.2011 kl. 22:29

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ekki sé ég að það myndi forða fólki í þriðja heiminum frá því að farast úr hungri og farsóttum að halda stóriðjufárinu áfram hér. 

Í Eþíópíu, þar sem ég þekki aðeins til, er mikil vatnsorka óbeisluð hjá þjóð sem er þar á sama stigi og við vorum, rafmagnslaust í torfhúsum hér, í strákofum þar. 

Nær væri að beisla þá orku hjá fólkinu sem þarf á henni að halda en fólki í norðurhöfum sem hefur fjórum sinnum meiri orku heldur það þarf til eigin nota. 

Ómar Ragnarsson, 17.11.2011 kl. 23:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband