Lesið á milli línanna í ávarpinu.

Þegar ráðamenn Sovétríkjanna sálugu komu fram á svölunum í Kreml í gamla daga voru sérfræðingar á Vesturlöndum á fullu í því að draga ályktanir af því hvernig þeir röðuðu sér upp.

Svipaðir sérfræðingar, ef ekki jafnvel þeir sömu, dunduðu sér við að lesa úr því hvernig ráðamenn Norður-Kóreu röðuðu sér upp við útför og valdatöku þar í landi.

Með því að raða saman orðum og setningum í nýjársávarpi forsetans geta sérfróðir menn á sviði  svona ályktana greinilega fundið út að þegar forsetinn sagðist vera á leið í nýja vegferð þar sem hömlur forsetaembættisins væru ekki til trafala, hefði hann í raun meint það að hann vildi leiða öfluga fylkingu gegn inngöngu í ESB.

Fyrir einni öld var að renna upp sá tími hér á landi sem að sjálfstæðismálinu yrði ráðið til lykta, en það hafði yfirskyggt svo mjög önnur mál hér á landi að það hamlaði myndun stjórnmálaflokka um þjóðmálastefnur á borð við það sem var í öðrum löndum.

1916 voru síðan stofnaðir tveir af þeim flokkum sem mynduðu svokallaðan fjórflokk á fjórða áratugnum.

Nú virðist hugsanlegt að öfug þróun muni eiga sér stað á næstu misserum hér á landi, að ESB-málið muni riðla svo fjórflokks-skipuninni að svipað stjórnmálaástand muni myndast og var fram að fullveldinu 1918.

Séu menn eins og Styrmir að lesa rétt í texta nýjársávarpsins þýðir það algera uppstokkun á mati manna hver á öðrum þegar menn, sem áður völdu hver öðrum hin verstu orð, mæra hver annan í hástert.

Þetta hefur þegar verið að gerast. Davíð Oddsson segir að samskipti hans og Ólafs Ragnars hafi verið eðlileg og þar með eru yfirlýsingarnar um "skítlegt eðli" og annað í þeim dúr foknar út í veður og vind.

Yngvi Hrafn Jónsson og Hallur Hallsson völdu Ólafi á sínum tíma hin verstu orð, sem íslenskan þekkir um lítilmótlega menn.

Í fyrra skrifaði Hallur síðan grein í Morgunblaðið þar sem hann taldi aðeins tvo stjórmálamenn standa upp úr lágkúru íslenskra stjórnmálamanna:  Davíð Oddsson og Ólaf Ragnar Grímsson!

Fleyg er setningin um það þegar þeir Heródes og Pílatus urðu vinir. Hún virðist vera sígild.


mbl.is Styrmir: Forsetinn öflugur liðsmaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Það getur verið gaman að velta fyrir sér sögulegum hliðstæðum, að "sagan endurtaki sig". Þú segir:  "Fyrir einni öld var að renna upp sá tími hér á landi sem að sjálfstæðismálinu yrði ráðið til lykta,".

Nú eru aðrir tímar og markmiðið um fulllveldi og stjórn á eigin málum er kannski að snúast í andhverfu sína, þannig að stjórnmálaumræðan, stjórnmálabaráttan snýst að hluta til um að láta af hendi það sem menn börðust fyrir í lok nítjándu aldarinnar og fram eftir þeirri tuttugustu.

Svona getur tíðarandinn breyst á hundrað árum þannig að það sem var dýrgripur eða fjöregg er nú orðið skiptimynt í samningum um aðgengi að mörkuðum og niðurfellingu tolla.

Og svo er líka athyglisvert að tuttugu árum eftir að Júgóslavía og Sovétríkin, sem haldið var saman af gríðarlega öflugri og vígvæddri miðstjórn, deildust í minni einingar, skuli stefnan í Vestur-Evrópu tekin á sams konar samband. Skyldi Evrópusambandið ráða yfir þeim þvingunarúrræðum sem nægja til að ráða niðurlögum andófs í ríkjasambandinu?

Flosi Kristjánsson, 2.1.2012 kl. 20:22

2 Smámynd: Björn Emilsson

Vel að orði komist Flosi. Vonandi skilur Ómar hvað um rætt.

Björn Emilsson, 3.1.2012 kl. 01:18

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Skítlegt eðli" kom löngu áður en Ólafur varð forseti.

Davíð og Ólafur eru e.t.v. of líkir persónuleikar, þ.e. of miklir foringjar til að eiga skap saman og rimmur þeirra á Alþingi voru oft snarpar. Ekki jókst kærleikurinn þeirra í millum þegar Ólafur gerði þau herfilegu mistök að neita að skrifa undir fjölmiðlalögin. Ráðandi fjölmiðlar virtust hafa almenningsálitið í vasanum og því voru lögin dregin til baka, frekar en að vísa þeim til þjóðarinnar.

En þrátt fyrir þetta sýndu þeir hvorum öðrum háttvísi og létu ekki persónulega misklíð yfirskyggja embætti sín. Öðru máli gegnir um samherja Ólafs (fyrrverandi?). Þeir hika ekki við að draga embætti sín niður í drullusvað ef þeir telja það henta sér persónulega.

Gunnar Th. Gunnarsson, 3.1.2012 kl. 01:41

4 identicon

Sorglegt að lesa innlegg Flosa Kristjánssonar. Maðurinn virðist vel greindur en getur ekki skilið á milli samvinnu og ægivalds.

Það hefði verið löndum innan fyrrum Júgóslavíu mikils virði að gera með sér samninga á borð við þá, sem vestur Evrópa hefur, þegar Titó hrökklaðist frá völdum. Í staðinn varð þar rummungaöld og styrjaldir, þær verstu í Evrópu eftir seinni heimsstyrjöldina.

Hreggviður (IP-tala skráð) 3.1.2012 kl. 10:29

5 identicon

Hreggviður. Kynna sér söguna áður en farið er að bulla á obinberum vettvangi.

Aldrei hef ég vitað til þess að menn hafi verið sagðir hafa hrökklast frá völdum við það eitt að hafa geispað golunni í embætti eins og Tito kallinn.

Varðandi það hvort lönd fyrrum Júgóslavíu hafi það betra núna en þegar þau lutu ægivaldi Sovétstjórna, þá er það enginn mælikvarði á ágæti ESB. Það er svipað og að bera saman kúk og óhreinindi. Þar er vissulega ólíku saman að jafna en hvorutveggja óaðlaðandi.

Gunnar Magnússon (IP-tala skráð) 4.1.2012 kl. 12:09

6 Smámynd: Gunnar Magnússon

Hreggviður. Kynna sér söguna áður en farið er að bulla á obinberum vettvangi.

Aldrei hef ég vitað til þess að menn hafi verið sagðir hafa hrökklast frá völdum við það eitt að hafa geispað golunni í embætti eins og Tito kallinn.

Varðandi það hvort lönd fyrrum Júgóslavíu hafi það betra núna en þegar þau lutu ægivaldi Sovétstjórna, þá er það enginn mælikvarði á ágæti ESB. Það er svipað og að bera saman kúk og óhreinindi. Þar er vissulega ólíku saman að jafna en hvorutveggja óaðlaðandi.

Gunnar Magnússon, 4.1.2012 kl. 12:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband