Óskýr hugsun, tómt höfuð, fíflagangur í lífshættulegri bavíanaumferð.

"Skýr hugsun og höfuðið fullt af súrefni". Ó, hve það yrði mikil breyting til batnaðar ef þetta skilaði sér í höfuð þeirra íslensku ökumanna, sem eru svo margir, að í öðrum löndum í okkar heimshluta ættu menn ekkert orð yfir akstur þessara þúsunda Íslendinga en "fíflagangur í bavíanaumferð."

Útilokað virðist að skila þeirri meginreglu inn í höfuð íslenskra ökumanna, sem viðhöfð er í öðrum löndum og mætti orða "fyrstur kemur, - fyrstur fær", þ. e. þar sem leiðir tveggja samsíða bíla þrengjast yfir í eina, dregur sá, sem er aftar á því augnabliki, sem þetta gerist, aðeins úr ferðinni, en hinn eykur hana lítillega svo að rými myndast til að báðir geti haldið áfram á nánast sama hraða á sömu akrein.

Þetta er nefnt "tannhjól" eða "rennilás" og tryggir öruggustu, afkastamestu og skilvirkustu umferðina. 

Nema á Íslandi þar sem apakattaakstur bitnar á heildinni, líka á þeim stunda hinn íslenska fíflagang. Hér á landi virðist það ofavaxið íslenskum vitsmunum að skilja þetta, - það er frekar regla en undantekning að sá sem er aftar, eykur ferðina og gerir allt sem hann getur til þess að koma í veg fyrir að hinn geti haldið áfram.

Í kvöld kom ég að stað, þar sem gatan þrengist. Í öllum löndum í okkar heimshluta nema okkar landi er það skilyrðislaus regla að menn fari í gegnum þrengslin í þeirri röð sem þeir koma að þeim.

En, nei, þannig var það ekki tvisvar í kvöld. Í báðum tilfellum stöðvaði ég bílinn, sem ég var á, til þess að bíll, sem kom á móti og var aðeins á undan að koma að þrengslunum, héldi áfram.

En viti menn, - fyrir aftan hann birtist bíll, sem í öllum öðrum löndum hefði farið þarna í gegn á eftir mér, af því að hann kom síðar að þrengslunum. En í staðinn gaf þessi bílstjóri í og frekjaðist í gegnum þrengslin, - og ekki nóg með það, annar sem kom þar á eftir jók líka ferðina og gerði það sama.

Þessi íslenski fíflagangur, einkum þar sem hægt er að nota "tannhjól"/"rennilás",  þar sem tvær akreinar verða að einni og bitnar í heildina á öllum,  heldur áfram ár eftir ár, áratug eftir áratug.

Einhverjum finnst kannski ég vera harðorður í þessum pistli. Ég hef hins vegar ástæðu og hef áður sagt frá henni en endurtek hana hér. Fyrir nokkrum árum mátti ég þakka fyrir að vera ekki drepinn af bavíönunum sem ekki vildu hleypa mér af langri aðrein inn í umferðina á Miklubrautinni og afrekuðu það að ég varð að stöðva bílinn á enda aðreinarinnar.

Í stað þess að búa til bil í bílaröðinni eins og gert er í öllum öðrum löndum okkar heimshluta, bæði vestan hafs og austan, sameinuðust þessir bílstjórnar allir sem einn um að loka öllum mögulegum innkomuleiðum minum inn í umferðina á þeirra akrein.

Skömmu síðar kom stór amerískur bíll akandi eftir aðreininni sem búið var að stöðva mig á og ók á 60 kílómetra hraða aftan á mig. Höggið var gífurlegt, bíllinn kastaðist 15 metra, ökumannssætið bognaði aftur á bak og ég beygði stýrið með höndunum, - nokkuð sem ég gæti ekki þótt ég væri beðinn um að endurtaka það.

Bíllinn gerónýtur.  

Ástæða þess að ameríska bílnum var ekið aftan á mig var sú að ökumaðurinn, sem var kona, var nýkominn úr 30 ára dvöl í Ameríku og trúði því hreinlega ekki að henni yrði ekki hleypt yfir á hina akreinina.

Þegar enginn vildi hleypa henni grunaði hana að stefnuljósið væri bilað og opnaði bílstjóragluggann og veifaði og sagði mér eftir á að alls staðar í Ameríku myndi slíkt duga.

Þetta tók svo mikla athygli frá henni að hún tók ekki eftir því að minn bíll var kyrrstæður við enda akreinarinnar og ók því aftan á mig á fullum hraða. Enda átti hún ekki von á því að bíll minn væri kyrrstæður vegna frekjugangsins sem kom í veg fyrir "tannhjól", - hafði ekki séð svona framkomu í Ameríku.

Það bjargaði lífi mínu að ég hafði fengið bíl konu minnar lánaðan í þessa ökuferð, en hann var mun sterkbyggðari og öruggari en minn gamli örbíll.

Lá mér hver sem vill að ég eigi erfitt með að sætta mig endalaust við þann fíflagang í bavíanaumferð sem enn ríkir hér á landi og veldur öryggisleysi, töfum og bæði stórum og smáum árekstrum og slysum allan ársins hring.

Og horfa upp á skrif erlendra ferðamanna í blöð ytra um það hvers konar vitleysingaumferð sé hér.  


mbl.is Skýr hugsun og höfuðið fullt af súrefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jack Daniel's

Gæti ekki verið meira sammála þér.

Er búinn að vera búsettur erlendis og unnið þar í 3 ár og tannhjólafyrirkomulagið virkar þar enda liggja hreinlega sektir við því að virða það ekki.

Man nú samt eftir Súkku sem svínaði á mig rétt vestan við Hvolsvöll í sumar en fjandinn sem ökumaðurinn var snöggur að henda sér út fyrir vegkantinn þegar hann áttaði sig á að hann hafði svínað á 10 tonna strætó sem var á tæplega 100 km hraða.

Það hefðu ekki margir á áttræðisaldri gert heldur neglt á bremsuna.

Jack Daniel's, 26.8.2012 kl. 02:31

2 identicon

  Orð í tíma töluð. 15-20% bíla eru með ljósin í ólagi,eineygðir, notkun stefnuljósa  er  tilviljunum háð, t.d. nota sárafáir  stefnuljós þegar ekið er út úr  hringtorgni. Ótrúlega margir  blaðra í síma og er þ ökulagið eftir því  , - ýmist er svínað á manni ,sofið við umferðarljós eða ekið á 60 þar sem allir aka á 80 ( eða enn hraðar).

Það ætti sem fyrst að tífalda sekt  við símablaðri undir stýri  úr  5 þúsund í 50 þúsund. Menn hlæja bara að 5 þúsund króna sekt.  50 þúsund bíta aðeins.

 Sumir segja að það hljóti að vera eitthvað að ökukennslunni. Ég er ekkert viss um það þetta bara íslensk frekja og landlægt virðingarleysi fyrir lögum og reglum, og hana nú!

Eiður Guðnason (IP-tala skráð) 26.8.2012 kl. 10:57

3 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Eiður,  þetta síðasta.. landlægt og það, er satt, en margir vita ekki betur NEMA þeir hafi ekið utanlands. Ég verð alltaf jafn hræddur í umferðinni hérna eftir dvöl erlendis. Sjálfur lærði ég að aka uppá nýtt í Svíþjóð í 1966 á vörubíl í Stockhólms-umferðinni og hef haldið áfram að læra síðan.Þar lærði ég líka á rennilásinn.

Eyjólfur Jónsson, 26.8.2012 kl. 16:04

4 identicon

Ég hef búið í Bandaríkjunum hartnær í þrjá áratugi og ferðast og unnið í mörgum heimsálfum og eftir þá reynslu telég að umferðar"menning" hvers lands sé endurspeglun á almennri umgengni og háttvísi. Ég kem oft heim og er alltaf jafn sleginn yfir ókurteisi og þjösnagangi "gáfuðustu og bestu þjóðar" í heimi.

Þar sem Ómar minnist á Bandaríkin má geta þess að Kaliforníubúar,sérstakelga þeir sem búa í LA og SF, eru þeir hérna á vinstri ströndinni sem mest líkjast landanum í umferðinni.

Erlendur (IP-tala skráð) 26.8.2012 kl. 16:05

5 identicon

  Sammála, tannhjóalakerfið er fínt og virkar eftir minni reynslu ekkert verr heima en þar sem ég þekki til erlendis. Galdurinn er að aka ákveðið á réttum hraða og stilla sig inn á umferðina á aðalbrautinni. Konan frá Ameríku kunni þetta greinilega og hefði vafalaust sloppið áfallalaust inn á brautina ef ekki hefði verið kyrrstæður bíll á aðreininni. Annars finnst mér að Ómar sé í þessum pistli dálítið að lýsa danskri umferðarmenningu, sem oft einkennist af því að margir þátttakenda virðast ekki hafa glögga hugmynd um hvert þeir eru að fara eða hvað þeir ætla að gera. Þar er heldur ekki skortur á akstursfautum, ef út í það er farið. En dæmið um fáránlegasta framferði í umferð sem ég hef upplifað hef ég þó að heiman, það skal viðurkennt. Ég hef reyndar sagt frá því áður að ég kom að þjóðvegi 1 í Mývatnssveit hugðist aka inn á hann þegar flugvél geystist þar framhjá í flugtaksbruni án þess að nokkrar ráðstafanir hefðu verið gerðar til að stöðva umferð bíla inn á þjóðveginn á meðan.

   Ekki sá ég flugmanninn enda vélin á miklum hraða og farið að húma, en eftirtektarver er að heimamenn voru ekki í vafa um hvaða ,,djöf. bölvaður hálfviti” hefði verið þarna á ferð, eins og það var orðað.

 

Haukur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 26.8.2012 kl. 16:20

6 identicon

„ ... það er frekar regla en undantekning að sá sem er aftar, eykur ferðina og gerir allt sem hann getur til þess að koma í veg fyrir að hinn geti haldið áfram.“ Þetta, ásamt ýmsu öðru, hefur pirrað mig lengi. SJálfur hef ég komist að þeirri niðurstöðu að það þyki á einhvern hátt minnkun að hleypa bíl inn á aðalbraut fyrir framan sig; maður verði að komast framfyrir þann sem vill komast af aðrein. En ég verð þó að segja að mér finnst þessi aðreinamenning hafa lagast síðustu árin. Kannski vegna þess að Íslendingar eru farnir að keyra meira í útlöndum og læra þannig á alvöruumferð.

Haukur Már Haraldsson (IP-tala skráð) 26.8.2012 kl. 17:33

7 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Það má vera að biðskyldumerkið (þríhyrningurinn) sem sett er við afreinarnar eigi nokkra sök. Þá telja menn að þeim beri að bíða þar til enginn bíll sést á aðalbrautarakreininni næst þeim. Það er a.m.k. kennt í ökunáminu.

Víða erlendis eru skiltin "merge" í staðinn, sem beint er bæði að innstu akrein aðalbrautar og aðrein, og allt gengur þá eins og smurt. Eða eins og tannhjólið sem Ómar nefnir.

Kolbrún Hilmars, 26.8.2012 kl. 17:54

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Konan, sem ók aftan á mig, hefði ekki komist inn á Miklubrautina þótt ég hefði ekki verið kyrrstæður á enda aðreinarinnar. Jafnvel þótt enginn hefði verið fyrir henni var hún komin of langt til að komast hjá því að lenda út af aðreininni þar sem hún endaði og skemma bíl sínn.

Hvað snertir rútuna við Hvolsvöll varaði ég mig ekki á því hve hratt rútunni var ekið en sá við því með því að skutla litla Súkkujeppanum svo hratt út á vegöxlina, án þess að velta, að rútan þurfti ekkert að hægja á sér.

Ómar Ragnarsson, 26.8.2012 kl. 21:14

9 identicon

Góð grein hjá þér, Ómar. Þú hittir naglann á hfuðið eins og svo oft áður.

Sigurbjörn H. Magnússon (IP-tala skráð) 26.8.2012 kl. 22:30

10 identicon

Þarna átti auðvitað standa höfuðið hjá mér. Vont að geta ekki leiðrétt innsláttarvillur, sem maður missir óvart frá sér. :-(  Passa mig á því að nota púkann næst.

Sigurbjörn H. Magnússon (IP-tala skráð) 26.8.2012 kl. 22:34

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Skáörvarnar, sem málaðar eru á aðreinarnar og vísa leiðina inn á beinu akreinina, segja allt sem segja þarf. Þetta er svo ótrúlegt að ég nudda augun, ef rétt er, Kolbrún, að það sé kennt í ökukennslunni að viðhalda þessum fíflagangi.

Ómar Ragnarsson, 26.8.2012 kl. 23:16

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Verð að skrifa þetta betur og skýrar:

Það er svo ótrúlegt, að ég nudda augun þegar ég les það sem þú upplýsir, að það sé kennt í ökukennslunni að viðhalda fíflaganginum sem viðgengst hér.

Ómar Ragnarsson, 26.8.2012 kl. 23:18

13 identicon

- Illt er að blása og hafa mél í munni, sagði oddvitinn við Pétur Þríhross þegar honum þótti Pétri ekki farast að taka stórt upp í sig.

Haukur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 27.8.2012 kl. 08:14

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Kemur á óvart að lausatök séu í LA og SF. Einmitt í LA dáðist ég að því hvernig hægt var að hafa snurðulausa og skilvirka umferð á gatnamótum með engum umferðarljósum, af því að allir ökumenn fóru eftir reglunni "fyrstur kemur, fyrstur fær".

Ef íslenskir ökumenn væru settir þar undir stýri á álagstímum myndi verða fjöldaárekstur og öngþveiti eftir fáar mínútur.

Ómar Ragnarsson, 27.8.2012 kl. 11:43

15 identicon

Kaliforníumenn, sérstaklega í stórborgunum eru frekar "agressífir" ökumenn og þótt að tannhjólið virki ágætlega þá eru þeir frekar lítið fyrir að gefa sjens. Hins vegar er það rétt Ómar að hér eru mörg gatnamót ljóslaus og þar fara menn eftir reglunni "fyrstur kemur, fyrstur fer" og gengur að öllu jöfnu miklu fljótar en á ljósum og á það líka um Kalifoníumenn. Hins vegar eru innlendir óvanir hringtorgum sem smátt saman er verið að innleiða hér.

Erlendur (IP-tala skráð) 27.8.2012 kl. 16:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband