Hve oft á hið siðlausa "túrbínutrix" að fá að virka ?

Í myndinni um Láxárdeiluna og sprengingu stíflunnar í Miðkvísl 1970 lýsir Sigurður Gizurarson því vel í viðtali hvernig hann leit á þann gerning stjórnar Laxárvirkjunar að kaupa strax í upphafi svo stórar túrbínur að þær yrðu ekki hagkvæmar nema virkjunin yrði margfalt stærri.

Þetta notuðu virkjunarsinnar sem röksemd fyrir því að náttúruverndarmenn myndu bera alla ábyrgð á því mikla fjárhagslega tapi, sem yrði af því að virkjunin fengist ekki stækkuð. 

Sigurður brýndi hins vegar fyrir forsvarsmönnum andófsmanna að fyrst Laxárvirkjunarstjórnin hefði keypt túrbínurnar án þess að hafa lokið samningum um eitt eða neitt við landeigendur eða landeigendafélagið ætti Laxárvirkjun að taka á sig skellinn af því að hafa tekið þá áhættu að vaða út í kaupin á þennan ábyrgðarlausa og siðlausa hátt til þess að stilla öllum upp við vegg frammi fyrir gerðum hlut og þvinga vilja sinn fram. 

Ég vil kalla þessa aðferð "túrbínutrixið" sem samheiti yfir það þegar svona siðlausir gerningar eru gerðir, og á það ekki aðeins við um æðibunugang við túrbínukaup eins og hjá OR vegna Hverahlíðarvirkjunar heldur einnig langstærsta túrbínutrixið, byrjunina á byggingu álvers í Helguvík og fleiri framkvæmdir þar á undan. 

Í Helguvík gerðu fjórir aðilar, Orkuveita Suðurnesja, OR og Norðurál samning oum orku og Reykjanesbær samning um lóið fyrir byggingu risaálvers þar og hafin var bygging þess án þess að vitað væri hvort orka væri fyrir hendi og án þess að nokkuð hefði verið rætt við tólf sveitarfélög eða jafnvel fleiri sem þessi eini gerningur myndi skuldbinda til að taka þátt í lagningu háspennulína og byggingu virkjana, sem njörvuðu niður allan Reykjanesskagann og jafnvel miklu meira til.

Til að blekkja fólk var alltaf talað um 120 þúsund tonna álver í Helguvík og sama sagði Alcoa í fyrstu varðandi álver á Bakka við Húsavík.

Túrbínutrixið hafði gefist vel á Reyðarfirði.

Þar var fyrst brunað af stað með 120 þúsund tonna álver og eingöngu virkjun Jökulsár í Fljótsdal, en síðan, þegar búið var að eyða nógu mörgum milljörðum í rannsóknir og undirbúning, sögðu fjárfestar, að útilokað væri að láta svona lítið álver bera sig, - það yrði að verða minnst 340 þúsund tonn og þar með þyrfti að bæta Jökulsá á Dal við. 

Þeim, sem höfðu verið auðtrúa, var stillt upp við vegg og ábyrgð lýst á hendur þeim og andófsmönnum vegna kostnaðar sem þegar væri kominn í þetta. 

Ári eftir fyrstu skóflustunguna í Helguvík játaði síðan talsmaður Norðuráls að lágmarksstærð álversins yrði að vera 360 þúsund tonn og sá hluti túrbínutrixisins blasti við.

Það álver þarf 650 megavött en í tímalínu framkvæmda sem birtist í Fréttablaðinu kemur fram, að skref 1 og 2 sem hrindi öllu á fulla ferð verði boranir og virkjun í Eldvörpum sem gefa 30-50 megavött af þessum 650 !  

Ég var húðskammaður fyrir að segja sannleikann um raunverulega lágmarksstærð álvers varðandi álverið á Bakka en síðan álpaði talsmaður Alcoa hinu sanna út úr sér og blekkingarhluti túrbínutrixins blasti líka við þar.

Nú stefnir jafnvel í það að játa verði kröfum virkjanafíklanna um virkjanir í Neðri-Þjórsá, við Skrokköldu, Hagavatn, Hólmsá og Skaftá við Búland til þess að uppfylla orkuþörf risaálversins í Helguvík og þá yrðu hendur sveitarfélaga bundnar fyrirfram allt frá Reykjanestá austur í Skaftafellssýslu, kannski allt að 18 sveitarfélaga alls áður en yfir lýkur. 

Túrbínutrixið í Helguvík felur í sér eitthvert risavaxnasta siðleysi og fjárkúgun okkar tíma, ekki aðeins varðandi aðferðina heldur ekki síður afleiðingarnar af fórnum á einstæðum náttúruverðmætum fyrir rányrkjuvirkjanir mestan part sem bitna á afkomendum okkar. 

Hreppsnefndin í Vogum er þegar búin að finna til tevatnsins. Með hótunum og kúgun hefur hún verið beygð til að lúta kröfum virkjanafíklanna vegna háspennulínu framhjá Vogum og að sjálfsögðu verður þessi hluti túrbínutrixins látinn vaða yfir allt og alla, jafvel upp á miðhálendið og austur í Skaftá. 

Og núna er vælt yfir 15 milljarða fjárfestingu sem Norðurál hafi lagt í og mönnum stillt upp við vegg og gerðir ábyrgir fyrir því ef hún fari forgörðum. 

En um það ætti að gilda hið öfuga, það sama og um stjórn Laxárvirkjunar á sínum tíma. 

Guðni Jóhannesson orkumálastjóri sagði skömmu eftir Hrun á fundi að þessi orkustefna væri galin.

Ég spurði hann hvort hann myndi staðfesta þessi ummæli ef fjölmiðlar spyrðu hann og hann jánkaði því. 

Ég bloggaði um þetta og hafði samband við fjölmiðla. Enginn þeirra taldi þetta frétt og þöggunin hefur ríkt æ síðan. 

Verst er að íslenskir stjórnmálamenn verja þetta siðleysi og segja að það megi ekki rifta skriflegum samningum, sama hve svívirðilegir, skaðlegir eða fáránlegir þeir séu. 

Það er ömurlegt.

2007 er ennþá hér og sækir í sig veðrið ef eitthvað er.  

 

 


mbl.is Alls 15 milljarðar farið í Helguvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Thorberg Friðþjófsson

    Alveg sammála þér Ómar. Það er augljóst að sjálfstæðismenn gera ráð fyrir því að komast í stjórn í vor. Þá verður allt virkjað og selt. Vonandi fer almenningur að vakna við.

Jón Thorberg Friðþjófsson, 27.1.2013 kl. 10:18

2 identicon

Hverjir taka ákvarðanirnar um að kaupa þetta drasl? Væri kannski hægt að draga þá til dóms fyrir afglöp í starfi?

Arna (IP-tala skráð) 27.1.2013 kl. 10:33

3 identicon

Hva, eru tröllin ekki vöknuð?

Góður pistill hjá þér Ómar, eins og þín er von og vísa.

Ellert Grétarsson (IP-tala skráð) 27.1.2013 kl. 12:47

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég er ekki eins svartsýnn á orkunýtingargalskap D og B ef til ríkisstjórnar drægi eins og ég áður var. Nú erum við með skynsamari forstjóra Landsvirkjunar en áður (FR.Sóph) og að auki eigum við ennþá hald í Ólafi Ragnari á forsetastóli.

En verst af öllu er auðvitað að fást við galskapinn sjálfan og þau fjámagnsöfl sem hann byggir tilveru sína á. Ungt fólk er að vísu betur að sér í umhverfisskilningi en gömlu þursarnir, þó að á móti komi hversu upptekið ungt fólk er í öðrum viðfangsefnum.

Árni Gunnarsson, 27.1.2013 kl. 12:48

5 identicon

"Húskammaður"?

Annars nokkuð gott hjá þér gamli.

Hvað segirðu svo um þennan meritlista forsætisráðherrans "okkar"?:

"Stækkun álversins í Straumsvík skiptir ... miklu máli en nú er auk þess unnið að framkvæmdum við Búðarhálsvirkjun og stækkun Kárahnjúkavirkjunar með framkvæmdum við Sauðárveitu.

Landsvirkjun hefur einnig unnið að ýmsum undirbúningsverkefnum vegna fyrirhugaðra virkjana í Bjarnarflagi og á Þeistareykjum en í kjölfar alþjóðlegs útboðs var gerður 2,9 milljarða kr. samningur um ráðgjöf við hönnun og gerð útboðsgagna.

Þá eru fjölmörg önnur fjárfestingarverkefni í vinnslu eða þegar hafin, s.s. við gagnaver, fiskeldi, kísilver og önnur mannfrek verkefni."

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 27.1.2013 kl. 14:36

6 identicon

Eitt í dag annað á morgun

Það þarf ekki að virkja því það er til nóg "umfram" orka - helst setja steng til ESB til að geta hækkað verðið til eigenda vatnsorkunar- þ.e.a.s. hin almenni íslendingur - og ekki gleyma "arðsemiskröfunum og aukið eigið fé" nýu tískuorð almenningsveitna

Svo hinar öfgarnar að lítið krúttlegt álver mun krefjast virkjunar á öllum sprænum á Íslandi

meðalhófið er nú best-  fólkið á að njóta vafans ekki náttúran

Grímur (IP-tala skráð) 27.1.2013 kl. 15:19

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Náttúran er tvennt: Uppspretta allra mannkynsins gæða og verðmæti í sjálfu sér til þess að fólk megi njóta hennar.

Ef náttúran er ekki látin njóta vafans og illa fer, bitnar það á fólki. Það að láta náttúruna njóta vafans leiðir af sér að fólkið er látið njóta þess vafa. 

Ómar Ragnarsson, 27.1.2013 kl. 23:04

8 identicon

Helguvíkur Hálf-verið...

Þeir börðust í alskonar bixi

það bráðlá á Keflvísku fixi

Þeir heimtuðu álver

og hálfbyggðu „hálf- ver“

-Í alkunnu túrbínutrixi

(Batteries not included)

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 27.1.2013 kl. 23:21

9 identicon

Fínn pistill Ómar.

Álver verður a.m.k. að vera 360.000 tonn til að vera hagkvæmt.

120.000 tonna álver getur verið stærðin eftir fyrsta áfanga af þremur en að segja það endanlega stærð er bara vísvitandi blekking.

Túrbínutrixinu er beit á fleiri sviðum en þeim sem þú nefnir, því miður.

Eyjólfur Ármannsson (IP-tala skráð) 28.1.2013 kl. 00:39

10 identicon

Þakka þér fyrir pistilinn Ómar.

Fórnarkostnaður vegna álvera, þessa gríðarlega orkufreka iðnaðar er ekki einungis óbætanlegar skemmdir á náttúru landsins vegna virkjana heldur fylgir þessum iðnaði það sem ég kýs að kalla eiturefnahernað með bæði fyrirsjáanlegum og ófyrirsjáanlegum skaða fyrir náttúru, fólk og fénað. Ég og bústofninn minn, við höfum fengið fengið sýnishorn af þessu. Við búum rétt hjá álveri Norðuráls á Grundartanga. 

Ragnheiður Þorgrímsdóttir (IP-tala skráð) 28.1.2013 kl. 09:46

11 identicon

góður pistill hjá þér Ómar eins og allt sem kemur fra þér,sjálfstæðismenn eru öruggir að komast að í vor mitt atkvæði liggur ekki hjá þeim,þar sem ég bý er þessi flokkur alræmdur og það skeður akkúrt ekkert sem kemur frá þeirra þverrifu.

inga björk ólafsdóttir (IP-tala skráð) 28.1.2013 kl. 09:47

12 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Sama er uppi með Andakílsárvirkjun. Uppsett afl hennar er um það bil tvöfalt en tæknilega er unnt að framleiða!

Þegar verið var að rafvæða sveitirnar, þá freistuðust menn að kaupa stærri túrbínur. Það kom hugmynd um að veita vatni úr Reyðarvatni yfir í Eiríksvatn og áfram í Fitjaá í Skorradal. En þessar hugmyndir strönduðu á laxveiðihagsmunum bænda í Lundareykjardal.

Sú leið var farin að hækka stífluna við útrennsli Skorradalsvatns og gera það að uppistöðulóni. Fyrir vikið sveiflast vatnsyfirborðið allt of mikið. Bændur fengu einhverjar bætur sem miðast hafa verið við hagsmuni þeirra þá sem varla hafa verið taldir miklir.

Í Árbók Ferðafélags Íslands 2004 um Borgarfjarðardali segir Freysteinn Sigurðsson jarðfræðingur að lífríki Skorradalsvatns sé allt í rugli, sjá nánar bls.120 .

Í meira en áratug hefi eg verið að velta fyrir mér hvort ekki væri fyllsta þörf á að fá þingeyska þekkingarmenn á að rjúfa stíflur til að bæta úr lífríki Skorradalsvatns og gera það að áþekku lífríki og áður var. Um þetta hefur verið alltaf mikil þögn. Helst að Hulda á Fitjum hafi barist fyrir þessu réttlætismáli.

Eg hefi verið að baksa í þessu en án nokkurs árangurs.

Baráttukveðjur!

Guðjón Sigþór Jensson, 29.1.2013 kl. 12:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband