Aðvörunarorð vegna gamla Hilux/4Runner.

Frá árinu 1993 hef ég lengst af ekið einhverri Toyota bifreið af gerðunum Hilux eða 4Runner.

Fyrst var það Toyota Hilux á 38 tommum sem Stöð 2 átti.

Síðan voru það sams konar bílar sem ég notaði við kvikmyndagerð til ársins 2004. IMG_0015

Frá 2006 hef ég átt Toyota Hilux árgerð 1989 á 35 tommum til að draga bátinn Örkina. IMG_4271

Frá 2011 hefur 4Runner´92 á 38 tommu dekkjum verið í minni eigu. Það átti aðeins að vara í nokkra mánuði til að fara á jökla ef bjóða þurfti fleirum með í sæmilegum þægindum. IMG_4665

En þegar ég ætlaði að selja bílinn, var honum stolið af bílasölunni og skemmdur svo mikið að ekkert var hægt að frá fyrir hann.

Hann er nú flugvallarbíll á Sauðárflugvelli á Brúaröræfum.

Það er ekki að ástæðulausu að gamlir Hilux jeppar hafa verið í námunda við mig í 20 ár. Frá komu Hilux til landsins hefur hann verið einhver besti jeppi, sem komið hefur á markað hér á landi hvað snertir þau not Íslendinga á jeppum, sem algengust eru.

Enginn bíll er samt án veikra bletta og ég vil nefna þrjá galla á gömlu Hilux/4Runner bílunum, sem eru í grunninn sami bíllinn.

Hinn fyrstnefndi er að í sumum þessara gömlu bíla vill setjast ryð í grindurnar rétt aftan við afturöxul. Hinir tveir síðari tveir eru lúmskari, varasamari og geta jafnvel valdið stórslysi.

Upphaflega var Toyota Hilux léttur tveggja manna pallbíll, innan við 1400 kíló.

Síðan var farið að stækka bílinn, en tveggja sæta Hiluxinn minn er þó aðeins 1620 kíló og því nothæfur jöklabíll á 35 tommu dekkjum.

En þegar þessi bílar voru orðnir lengri og breyttir fyrir 38 tommu dekk voru þeir að nálgast tvö tonn en stýrisbúnaðurinn eftir sem áður hannaður fyrir miklu léttari bíl.

Þar að auki breytist átakið á stýrisbúnaðinum við að setja breiðari felgur undir bílinn sem færa átaksmiðju framhjólanna út á við.

Út í vinstra framhjól gengur stýrisarmur, sem er meðal Hilux eigenda kallaður hrútshorn.

Ef þessir bílar koma harkalega niður eða þegar framhjólin fá högg á sig á ská, bognar þetta hrútshorn oft og bíllinn stýrir rammskakkt að framan.

Verra er þó, að komið getur fyrir að hrútshornið brotni og þá verður bíllinn gersamlega stjórnlaus.

Ég varð fyrst var við þetta þegar það gerðist eitt sinn á ferð í snjóblindu að bíllinn lenti á hörðum skafrenningsskafli, tókst á loft og kom harkalega niður.

Við þetta skekktist stýrið og stillingin á framhjólunum líka. Þegar ég kom í bæinn var skipt um "hrútshornið".

Annar galli er á vökvastýrisbúnaðinum og hann er sá, að hann er ekki hannaður til að afkasta þeim miklu átökum, sem geta orðið á stórbreyttum og þyngri bílum þegar bílstjórinn verður að rífa mjög hart i stýrið og snúa því hratt.

Þá getur myndast nokkurs konar stífla í vökvaganginum þannig að skyndilega verður stýrið pikkfast, svo að það getur valdið vandræðum, vegna þess að bíllinn verður margfalt þyngri í stýri en ef ekkert vökvakerfi væri.

Þetta stendur að vísu ekki yfir nema örstutta stund en getur samt skapað stórhættu.

Eitt sinn var ég næstum búinn að aka yfir Friðþjóf Helgason kvikmyndatökumann þar sem hann hafði grúft sig niður í vegarbrún í krappri beygju á gamla Kambaveginum til að ná góðu skoti af því þegar ég svipti bílnum í gegnum beygjuna. Stýrið festist augnablik þegar ég ætlaði að rétta bílinn snöggt af og litlu munaði að illa færi og ég æki yfir Friðþjóf.

Í kjölfar þessa lét ég lagfæra þetta með breytingu, sem jók vökvaflæðið, en best er að skipta stýrisvélinni út fyrir stýrisvél úr stærri bíl.

Nefna má enn einn galla, sem er sá, að átak á hjólalegum að aftan verður skakkt svo að þær endast miklu skemur en ella. Á Hilux jeppa, sem ég ók á árunum 1995-2003 ofhitnaði önnur hjólalegan á versta stað, miðri leiðinni milli Hólmavíkur og Ísafjarðar þannig að nokkuð lengi var ekið löturhægt á ofhitnaðri legu.

Skipt var um leguna á Ísafirði, en í næstu ferð gerðist það við Staðarskála í Hrútafirði, að skyndilega losnaði afturhjólið af bílnum, þar sem legan hafði verið og fór reyndar framúr mér á keyrslunni!

Ég var mjög heppinn að þetta stóra 38 tommu hjól skyldi hafa losnað á beinum vegi og ekki farið utan í brettið eða í veg fyrir annan bíl.

Þá kom í ljós að öxullinn þarna megin hafði ofhitnað með legunni í Ísafjarðardjúpinu, en þessir driföxlar eru hertir með forhitun áður en þeir eru settir í bílana og þola ekki að ofhitna að nýju.

Uppgötvaðist þar sem hliðstætt atvik í Húsavikurrallinu 1984 þegar öxull brotnaði á Toyota Corolla keppnisbíl míns og Jóns bróður, og við féllum úr leik.

Fyrr um sumarið hafði þessi öxull ofhitnað vegna gríðarlegrar hemlunar á leið niður Brattabrekku í eina skiptið sem keppt var á þeirri leið.

Í öllum akstri á breyttum bílum verður að haga akstrinum þannig að taka tillit til breytinganna á þeim, einkum þeim sem gerðar voru á sokkabandsárum þessara breytinga.  


mbl.is Enn stökkva Íslendingar á bílum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Það ber þá greinilega að vara við hálfkláruðum breytingum. Er það kannski algengt að ekki sé hugað að stýrisbúnaði sem og bremsum þegar bílum er breytt á þennan hátt? Bara spyr.

Birgir Þór Bragason, 10.3.2013 kl. 13:18

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hressilega hraðann jók,
á Hilux var það eftir bók,
Friðþjóf næstum yfir ók,
Ómar með sitt prins og kók.

Þorsteinn Briem, 10.3.2013 kl. 14:48

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í breyttum bílum er aðvörunarspjald um það að eiginleikar bílsins hafi breyst. Breytingunum hefur fleygt fram í samræmi við reynsluna á undanförnum árum, en eftir standa nokkur eldri atriði, sem hafa verður í huga.

Ómar Ragnarsson, 10.3.2013 kl. 20:16

4 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Hér léku menn lengi (í áratugi) þann leik að hækka bíla, stækka hjólin og breikka, án þess að huga að bremsum eða stýrisörmum eða öðru varðandi stýri.

Menn byggðu yfir HiLuxa og breyttu í jeppa án tillits til þess að bílarnir voru á engan hátt byggðir fyrir fólksflutninga (þeir voru atvinnubílar og sem slíkir þurftu þeir ekki að þola árekstra- eða veltuálag eins og fólksbílar). Ef þeir fóru á toppinn, lagðist húsið á þeim saman eins og væri úr dagblaðapappír.

Lengi vel svaraði Tpyota ekki eftirspurn eftir yfirbyggðum HiLux, einmitt af þessum ástæðum: Bíllinn gat ekki uppfyllt kröfur um öryggi fyrir farþega. Hér hunsuðu menn þetta. 

Svo lagaðist þetta, amk eitthvað, þegar loksins 4Runner kom.

Hvernig er ástandið á nútíma breyttum bílum, Land Rover, Econoline og öðrum, er almennilega frá þeim gengið?

Þórhallur Birgir Jósepsson, 10.3.2013 kl. 20:20

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Bendi Bigga Braga á að ég hef bætt inn í pistilinn atviki úr Húsavíkurralli 1984, þar sem orsök bilunar uppgötvaðist ekki fyrr en 13 árum síðar !

Ómar Ragnarsson, 10.3.2013 kl. 20:31

6 identicon

Þessi skrif sýna vel hversu vanhugsað það er að leikmenn séu að breyta aksturseiginleikum bifreiða sem hannaðar hafa verið af sérfræðingum. Ég hugsa að Ísland sé eitt af örfáum, ef ekki eina landið þar sem að hver sem er getur breytt bifreiðum á þennan hátt og fengið grænt ljós á að aka þeim á almennum vegum. Ég rita þessi orð þar sem að ég var næstum keyrður niður af breyttum jeppa á risadekkjum, sem einmitt sveigði næstum í hliðina á mínum bíl á yfir 90 kílómetra hraða eftir að hafa lent í smá holu. Ég væri ekki til frásagnar ef hann hefði farið nokkrum cm. lengra í átt að mínum bíl.

Arnar Arnarson (IP-tala skráð) 10.3.2013 kl. 21:25

7 identicon

Allir 38" bílar eru með verulega skerta bremsugetu og hemlunarvegalengd á þurru malbiki er hærri en á upphaflegu dekkjunum.

Jeppar á 44" dekkjum og stærri bremsa ágætlega á lítilli ferð en á 90 Km hraða er réttara að tala um "hægjur".

Það er eðlileg krafa að bílar sem skráðir eru breyttir eða ef dekkjastærð fer vist mikið yfir upphaflega stærð að bílarnir þurfi að standast hemlunarpróf og þá megi stöðva fullestaða á 90Km hraða á tiltekinni vegalengd/tíma. Þetta má prófa með því að aka á 90Km/klst skv GPS og mæla stöðvunartíma með skeiðklukku sem fer af stað þegar stigið er á bremsu.

Með þessu móti er ekki verið að hamla jeppabreytingum, -einungis verið að tryggja að bílarnir séu ásættanlegir í almenna umferð.

Hefðbundið bremsupróf er ekki fullnægjandi að þessu leyti.

Hagsmunir jeppamanna felast í að þessu verði komið á áður en skert bremsugeta breyttra bíla kostar mannslíf.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 10.3.2013 kl. 21:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband