"...sem getur farið úrskeiðis..."

"Það er mannlegt að skjátlast" segir gamalt latneskt máltæki og um mannanna verk gildir það, að seint verða þau talin alfullkomin eins og orðtakið "lengi má gott bæta" ber vitni um.

Einfalt dæmi um ófullkomleika mannanna verka er sú staðreynd hve margir hæstaréttardómar eru kveðnir upp þar sem dómararnir eru ósammála og meirihluti þeirra ræður.

Þrátt fyrir fullkomnunaráráttu getur jafnvel sú árátta leitt menn í gildru, sem leiðir til ófara.

Þannig get ég nefnt nokkur dæmi um það úr flugi, að mistök hafi orðið afdrifarík, vegna þess að viðkomandi flugmenn gátu ekki ímyndað sér það að þeir gætu gert jafn einföld mistök og að ruglast á hægri og vinstri, tekið við fyrirmælum um flugstefnu og lokast inni í meinloku 100 gráðu skekkju, eða loka sjálfir fyrir eldsneytisflæði til hreyflanna án þess að átta sig á því, einmitt vegna þess að þannig mistök geti viðkomandi ekki gert.

Af því má draga þá ályktun að hættulegustu mistökin séu þau einföldustu, sem jafnvel börn láta ekki henda sig.

Flugstjóri breiðþotu var eitt sinn í Ameríku kominn í aðflug að hraðbraut í stað flugbrautar.

Sumir gallar eru þess eðlis að vitneskjan um orsakir þeirra voru ekki fyrir hendi þegar hluturinn var hannaður. Eitt magnaðasta dæmið um það eru þegar fullkomnustu og frábærustu farþegaflugvélar þess tíma, De Havilland Comet þotur Breta, fórust ein af annarri.

Með því að grandskoða flak einnar þeirra, sem fórst við eyjuna Elbu, kom endanlega í ljós að svonefnd málmþreyta í áli var orsökin, en fyrirbærið varð fyrst almennt þekkt í þessum slysum.

Þegar búið var að gera ráðstafanir sem komu í veg fyrir málmþreyfta ylli slysum, reyndust Comet-þoturnar með öruggustu farþegaþotum heims.

En nokkurra ára töf hafði rænt Breta forustunni í smíði farþegaþotna.

Erfitt er að sjá það fyrirfram hvaða nýjar gerðir flugvéla reynast öruggastar. Margir voru uggandi þegar fyrsta breiðþotan, hin risavaxna Boeing 747, kom á markaðinn, því að hún var meira en tvöfalt þyngri en stærstu farþegaþotur höfðu verið fram að því.

En þessar vélar áttu fyrir höndum einhvern farsælasta feril flugsögunnar og eru enn í fararbroddi.

Sumar flugvélar eru haldnar svo miklum "barnasjúkdómum" að óvíst er um framtíð þeirra. En eftir að gallarnir hafa verið fundnir og ráðin bót á þeim hafa vélarnar átt farsælan feril fyrir höndum.

Er vonandi að Dreamliner vélar Boeing séu í hóp þeirra.

Vickers Viscount skrúfuþoturnar voru tímamótaflugvélar jupp úr 1950, þegar Bretar höfðu forystuna á smíði þotna og skrúfuþotna.

Varasömustu gallar þeirra komu ekki strax í ljós og liðu meira en tíu ár þangað til þeir voru greindir og gerðar ráðstafanir til að finna bót á þeim.

Annars vegar var um að ræða ísingu á stélflötum við viss skilyrði, sem gerði vélina stjórnlausa, þegar hraði hennar minnkaði í aðflugi, en hins vegar hætta á að hreyflarnir hrykkju í nauðbeitingu þannig að þeir hættu skyndilega að knýja flugvélina áfram og unni á móti.

Þá höfðu þessir gallar kostað tugi mannslífa, meðal annars tólf manns, sem fórust með skrúfuþotunni Hrímfaxa við Osló 14. apríl 1963, eða fyrir réttri hálfri öld.

Menn neyðast til að sætta sig við ófullkomleika sinn allt frá vöggu til grafar og þekkt er lítil skrýtla um hina fullkomnu flugvél sem er á flugi þegar kallað er til farþegananna í kallkerfi vélarinnar:

"Stjórn þessarar flugvélar er algerlega sjálfvirk og sú fullkomnasta og öruggasta sem þekkist. Í þessari flugvél er ekkert sem getur farið úrskeiðis...getur farið úrskeiðis...getur farið úrskeiðis...getur farið úrskeiðis....."


mbl.is Dreamliner eru „algjörlega“ öruggar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Comet er gott dæmi um hvernig orðspor getur eyðilagt. Eftir að tvær þotur höfðu horfið sporlaust í hafið og enginn vissi skýringuna voru þær kyrrsettar. Svo, eins og þú segir, kom skýringin fram, en þá var vörumerkið Comet ónýtt, enginn vildi fljúga með Comet og ekkert flugfélag treysti sér til að reka slíka flugvél. Nema eitt: Breski herinn, sem notar þær enn og þær hafa reynst vel, kallast bara öðru nafni sem við Íslendingar þekkjum vel úr þorskastríðum: Nimrod.

Þórhallur Birgir Jósepsson, 15.3.2013 kl. 10:58

2 identicon

Ekki gleyma að 747 var í raun og veru svar þeirra Boeing manna við DC10 og ef hún hefði ekki átt sína slysasögu þá er alls óvíst að 747 hefði náð þeim stalli sem hún fór á í kjölfarið. Hún var mikið notuð í fraktflutninga eftir slysin.

Tían tengist líka okkar flugsögu eins og þú sjálfsagt veist en hún setti Flugleiði næstum því á hausinn í framhaldi af flugbanninu (FAA afturkallaði flughæfnisskírteini vélategundarinnar, e. type certificate ) sem BNA menn settu á N skráðar vélar.

Þórhallur Nimrod fór sitt síðasta flug um mitt ár 2011

Karl J. (IP-tala skráð) 15.3.2013 kl. 14:18

3 identicon

Ómar er hér að lýsa Murphy's Lögmáli sem hann virðist ekki þekkja, en það fæddist einmitt í sambandi við flugvélahönnun og þróun á Edwards herflugvellinum í Kaliforníu 1949, sjá hér:

http://www.murphys-laws.com/murphy/murphy-true.html

"Ef eitthvað GETUR hugsanlega farið úrskeiðis, þá MUN það gera það fyrr eða síðar"

Björn Jónsson (IP-tala skráð) 15.3.2013 kl. 21:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband