Nútíma skrifræði: Tækifæri fyrir geðþóttafull möppudýr.

Mál Svifflugsfélags Íslands gegn innanríkisráðuneytinu vekur til umhugsunar um ýmis atriði í stjórnsýslu, til dæmis um það, að þegar opinberar stofnanir eru orðnar mjög stórar, geta einstakir starfsmenn innan þeirra, sem gangast upp í að beita valdi sínu, ná aldeilis ótrúlegum völdum og valdaaðstöðu.

Vilmundur heitinn Gylfsson fann upp hið dásamlega heiti "möppudýr" yfir slíka starfsmenn hins opinbera.

Dæmi um slíkt var möppudýr eitt í þljónustu Tollstjóraembættisins fyrir um 20 árum, sem fékk þá flugu í höfuðið að tónlistarmenn og listamenn væru almennt skattsvikarar.

Hann deildi út úrskurðum á báðar hendur í þessu skyni, svaraði ekki bréfum né símtölum og girti sig af og víggirti með pappírshaugum í skrifstofuvígi sínu.

Áður en hann hætti störfum hafði honum tekist að valda listamönnum miklu tjóni, svo miklu, að þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson ræddi um þann möguleika að skipa embætti sérstaks umboðsmanns skattgreiðenda.

Eitt dæmi um afrek þessa möppudýrs var það að uppreikna meinta vangoldna skattaskuld skattgreiðanda eins upp í rúmar 22 milljónir króna á þáverandi verðlagi.

Þegar möppudýrið hætti störfum var herbergi hans fullt af óafgreiddum bréfum og sá, sem tók við af honum, komst að þeirri niðurstöðu að meint skattaskuld listamannsins næmi 200 þúsund krónum en ekki 22 milljónum.

Valdasjúkt og geðþóttafullt möppudýr nýtir sér stærð stofnunar sinnar og það, hve yfirmenn hennar hafa litla möguleika á að vera með nefið niðri í hvers manns koppi.

Möppudýrið býr til víggirðingu utan um sig í skrifstofu sinni, sem gerð er úr ótal möppum af reglugerðum og tilskipnum, sem það hefur yndi af að búa til .

Ekki dregur úr möguleikunum á þessu eftir því sem kröfur berast um slíka skriffinnsku. Þegar möppudýrið fær tilmæli utan frá, til dæmis frá erlendum stofnunum, um að gera íslenska reglugerð upp á um það bil 10 blaðsíður, skrifar möppudýrið reglugerð sem er minnst 30 blaðsíður.

Möppudýrið vinnur tvennt með þessu: Annars vegar gengur það í augun á þeim sem lagði verkefnið fyrir hann, sem einstaklega duglegt möppudýr, og hins vegar býr það smám saman til svo stórt bákn af reglugerðum og tilskipunum, að engir aðrir hafi möguleika á að setja sig inn í það allt.

Þar með er möppudýrið orðið friðheilagt, því að hver sá yfirmaður þess, sem reynir að láta einstök mál dýrsins til sín taka, er rekið út til baka með skottið á milli lappanna af vanmetakennd þess sem er rekinn á gat.

Fyrst eftir stríð voru til ráðherrar með sérstakan titil," flugmálaráðherra." Síðustu ár hefur verið mikil tilhneiging til að "spara og hagræða" með því að stækka ráðuneyti sem allra mest og fækka ráðherrum.

Þetta getur verið ágætt út af fyrir sig, en á móti kemur að hver ráðherra veit æ minna um málefni ráðuneytanna, þegar þau verða æ umfangsmeiri og flóknari.

Þess vegna kemur úrskurður umboðsmanns Alþingis, sem opinberar vanþekkingu ráðuneytis á flugi, mér ekki á óvart.

Ef á fleti fyrir er möppudýr líkt því, sem ég var að lýsa sem dæmi, er sívaxandi hætta á slíku.  


mbl.is Segja ráðuneytið skorta þekkingu á flugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Högni Elfar Gylfason

Mikið hittirðu naglann kyrfilega á höfuðið Ómar og þetta hefur farið versnandi ár frá ári með nýjum og stórhertum reglugerðum sem virðast stundum aðallega gerðar til að skapa vinnu fyrir möppudýrin og hinn sístækkandi eftirlitsiðnað. Sameiningar ráðuneyta í of stórum stíl eru stórvarasamar, einmitt af þeirri ástæðu sem þú nefnir, að þegar ráðherrum fækkar þarf að ráða möppudýr til að vinna vinnuna sem hinir brottreknu ráðherrar sinntu áður... og títtnefnd möppudýr bera ekki ábyrgð á verkum sínum sbr. ráðherra sem þarf að standa fyrir máli sínu allavega á fjögurra ára fresti.

Högni Elfar Gylfason, 10.4.2014 kl. 16:34

2 identicon

Var ekki orðið "möppudýr" íslensk þýðing á danska orðinu "mappedyr" og kom fram í íslensku í þýðingu á bók eftir Sven Hazel á áttunda áratug síðustu aldar?
Eða var Vilmundur á undan?
Svo er til orð í Þýsku sem er afar athyglisvert, - það er "Schreibtischingst" sem mundi í beinni þýðingu heita "skriborðsgraðhestur" á íslensku.
Þetta þykir jákvætt orð á þýsku, og útskýrir kannski hegðun möppudýra og skrifstofublóka sumra, sem halda að þeir séu skrifborðsgraðhestar......
Verst hvað það er til mikið af þessu liði....

Jón Logi (IP-tala skráð) 10.4.2014 kl. 16:36

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ráðherrar bera ekki bara ábyrgð á fjögurra ára fresti, eins og Sjálfstæðisflokkurinn heldur.

Geir H. Haarde
, fyrrverandi forsætisráðherra, var dæmdur af Landsdómi, til að mynda hæstaréttardómurum, fyrir brot á stjórnarskránni.

Og Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, ætti að sjálfsögðu ekki að þurfa að segja lögfræðingnum Bjarna Benediktssyni að breyta þurfi stjórnarskránni til að hægt sé að leggja niður Landsdóm:

"Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, telur rétt að "setja strax af stað vinnu við að breyta lögunum."

"14. gr. Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum.

Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum.
Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál."

Stjórnarskrá Íslands


Lög um Landsdóm nr. 3/1963


Lög um ráðherraábyrgð nr. 4/1963

Þorsteinn Briem, 10.4.2014 kl. 16:53

4 identicon

Er það þá í pípunum, en ekki orðin staðreynd, að möppudýrin verði firrt allri ábyrgð á sínum störfum?

Jón Logi (IP-tala skráð) 10.4.2014 kl. 17:14

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Að sjálfsögðu er hægt að segja upp starfsfólki í ráðuneytunum eins og annars staðar.

Þorsteinn Briem, 10.4.2014 kl. 17:40

6 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Möppudýr bera enga ábyrgð. Í því skjóli haga þau sér því eins og þeim sýnist. Hvaðan koma hinsvegar reglurnar og valdsvið möppudýranna, annarsstaðar en að ofan, þar sem hvert möppudýrið rekur annað, þar til óábyrg yfirstjórn yppir öxlum yfir dellunni og lætur síðan möppudýrin kanna hvað fór úrskeiðis. ESB er gott dæmi um möppudýraplágu, sem Íslendingar ættu í lengstu lög að forðast að sameinast. Ómar, þú ættir nú að vera farinn að sjá það, eftir allar þær fáránlegu reglur og dellu sem frá Brussel koma, sem eru nánast að ganga af einkafluginu dauðu, hér á landi.

Halldór Egill Guðnason, 10.4.2014 kl. 21:34

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Eiríkur Bergmann Einarsson forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst:

"Til að mynda er Svíþjóð aðeins gert að innleiða hluta af heildar reglugerðaverki Evrópusambandsins.

Og ... okkur Íslendingum er nú þegar gert að innleiða ríflega 80% af öllum þeim lagareglum Evrópusambandsins sem Svíum er gert að innleiða."

Þorsteinn Briem, 10.4.2014 kl. 21:49

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ísland er eitt af aðildarríkjum Staðlasamtaka Evrópu (CEN).

"CEN's National Members are the National Standards Organizations (NSOs) of the European Union countries plus three countries of the European Free Trade Association (EFTA) [Íslands, Sviss og Noregs]."

List of CEN National Members


"CEN's 31 National Members work together to develop voluntary European Standards (ENs).

These standards have a unique status since they also are national standards in each of its 31 Member countries."

Þorsteinn Briem, 10.4.2014 kl. 22:16

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Ef fjöldi starfsfólks Evrópusambandsins er yfirfærður á Ísland myndi það þýða um 30 manna starfslið, álíka margir og þeir sem vinna hjá embætti sýslumannsins í Hafnarfirði."

Þorsteinn Briem, 10.4.2014 kl. 22:28

10 Smámynd: Sigurður Antonsson

Flugvallarmálið í Reykjavík er dæmigerð ruðningsvél þar sem íbúar hafa ekki neitt val. Þar sem eigur eru gerðar upptækar eins og Ómar Ragnarsson hefur vakið máls á. Kosningar um flugvöllinn voru eins og austur í Krím, skipulögð af meirihlutanum, án þess að utanbæjarmenn hefðu nokkra aðkomu.

Sigurður Antonsson, 10.4.2014 kl. 22:32

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Allir sem vilja geta kosið Sjálfstæðisflokkinn.

Þorsteinn Briem, 10.4.2014 kl. 22:34

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Harla ólíklegt er að flugvallarmálið hafi breytt einhverju til hins verra fyrir Besta flokkinn, Samfylkinguna og Vinstri græna í Reykjavík.

Þar að auki eru sumir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fylgjandi því að flugvöllurinn fari af Vatnsmýrarsvæðinu.

20.10.2013:


Besti flokkurinn fengi sjö borgarfulltrúa


Og undirskriftir í fyrra varðandi Reykjavíkurflugvöll voru um 29% af þeim sem voru á kjörskrá í síðustu alþingiskosningum.

Þar að auki voru þessar undirskriftir langt frá því að vera eingöngu undirskriftir Reykvíkinga og undirskriftasafnanir eru ekki kosningar, sem hafa nú þegar farið fram um Reykjavíkurflugvöll.

Og ekki er kosið um nákvæmlega sama mál þar til einhverjir verða ánægðir með niðurstöðuna."

Þorsteinn Briem, 10.4.2014 kl. 22:38

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

Frá 20.10.2013 hefur fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkað í Reykjavík um 7%, niður í 24%.

Og fylgi Sjálfstæðisflokksins er nú einnig það sama á landsvísu, um 24%.

Þorsteinn Briem, 10.4.2014 kl. 22:43

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

3.4.2014 (síðastliðinn fimmtudag):

"Framsóknarflokkurinn hefur mælst með um 3% fylgi í Reykjavíkurborg og nær samkvæmt því ekki inn manni í borginni í sveitarstjórnarkosningunum í næsta mánuði."

Þorsteinn Briem, 10.4.2014 kl. 22:45

15 Smámynd: Þorsteinn Briem

Reglugerðir verða að eiga sér stoð í lögum.

Og að sjálfsögðu vilja fjölmargir Íslendingar ekki fara að lögum og reglum sem þeim sjálfum finnst ekki skynsamlegar, til dæmis íslenskum umferðarlögum og reglum, til að mynda hvernig leggja eigi bílum í bílastæði.

Þorsteinn Briem, 10.4.2014 kl. 22:52

16 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Samkvæmt 13. gr. stjórnarskrárinnar skal forseti Íslands láta ráðherra framkvæma vald sitt og í 19. gr. kemur fram að undirskrift forseta veiti stjórnarathöfnum gildi þegar ráðherra ritar undir þau með honum.

Sem áður segir er forseti Íslands ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum en hins vegar bera ráðherrar ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum samkvæmt 14 gr. stjórnarskrárinnar og ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum."

(Um lög og rétt, 2. útg. 2009, bls. 44.)

Þorsteinn Briem, 10.4.2014 kl. 23:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband