"Bitlingar" eða þegnskylduvinna?

"Stjórnmál eru list hins mögulega" segir máltækið. Þar er átt við það, að enda þótt eðlilegt sé að menn setji sér takmörk, gefi heit eða vilji að eitthvað sé öðruvísi en það er í þjóðlífi okkar, er oft hægara um að tala en í að komast.

Nokkurt rót varð í síðustu byggðakosningum 2010. Stjórnmál og stjórnmálamenn lentu í trúnaðarbresti og á nokkrum stöðum á landinu, þar á meðal í fjölmennustu byggðunum, spruttu upp ný öfl, sem nærðust á eðlilegri óánægju almennings.

Óánægja með sveitarstjórnarmenn hefur að vísu verið lengi fyrir hendi, þeir sakaðir um spillingu og að hygla sjálfum sér og öðrum. Hefur oft verið talað um laun fyrir nefndarstörf og setu í stjórnum og ráðum sem "bitlinga" handa fólki, sem vanræki þar á ofan þessi störf.

Víða um land má nú sjá merki þess að þetta tal hefur að hluta byggst á vanþekkingu.

Nú kemur í ljós að í sumum hinna nýju óánægjuframboðslista hefur orðið fólksflótti þannig að jafnvel obbinn af fulltrúunum býður sig ekki fram á ný og þetta fólk útskýrir það með því, að vinnan, sem fylgi því að vera í sveitarstjórn, sé mun meiri en ætlað var og launin fyrir hana einnig miklu minni en búast hefði mátt við.

Nú sést, að í sumum byggðalögum koma jafnvel ekki framboðslistar fram.

Ástæða þessa er sú, að í nútímaþjóðfélagi hefur starfsemi sveitarfélaga og stofnana þeirra, rétt eins og starfsemi ríkisins og stofnana þeirra, orðið æ flóknari og umfangsmeiri.

Að sjálfsögðu verða ævinlega fyrir hendi þau sannindi að allt vald sé spillandi og hugtakið "bitlingar" í neikvæðri merkingu því fjarri því að vera dautt. Þess vegna þarf sífelld aðhald.

En almenningur hefur líka vitað of lítið um það, í hverju stjórnmálastarf er fólgið og einnig það, að enda þótt búið sé að koma meira óorði á stjórnmál og stjórnmálamenn en dæmi eru áður um, er almenn þátttaka í stjórnmálum ekki einasta forsenda lýðræðisins, heldur forsenda þess að veita aðhald og stuðla að umbótum til hagsbóta fyrir allan almenning.    


mbl.is Eitt framboð barst í Vesturbyggð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vandi sveitarstjórnarstigsins felst í litlum og vanmáttugum sveitarfélögum sem valda ekki verkum sínum.

Líklega er hæfilegur fjöldi sveitarfélaga á pari við fjölda kjördæma.

Landið ætti svo að vera eitt kjördæmi

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 12.5.2014 kl. 11:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband