Risalínurnar dynja strax yfir í sumar.

Af öllum þeim aragrúa virkjana sem nú eru að hellast yfir landsmenn, tæplega hundrað nýjar í viðbót við um þrjátíu virkjanir sem þegar eru komnar, fer það eftir ýmsu, hve hratt þær geta gengið í gegn.

Um þær þeirra, sem ég vann að greiningu á fyrir Framtíðarlandið til þess að gera athugasemdir fyrir rammaáætlun 2011, svo sem virkjanir á Kröflusvæðinu og í Skaftárhreppi, gildir það að stórlega er áfátt mati á umhverfisáhrifum, sem virkjanaaðilar hafa fengið ákveðna verkfræðistofu til að framkvæma, svo að augljóslega eiga eftir að verða tafir á að klára þau mál, þegar hið rétta verður dregið fram í dagsljósið.

Það fer að vísu mjög eftir aðhaldi og árvekni gagnrýnenda hve vel verður farið ofan í saumana á þessum ósköpum en með hreinum ólíkindum eru þær rangfærslur og spuni, sem finna má í þessum gögnum.

Ástæðan er líklega sú, að verkfræðistofan gengur svo hart fram í að þóknast verkbeiðenda, að verkið verður stórgallað.

Af þessum sökum er líklegt að risaháspennulínurnar, sem leggja á í þágu stóriðjunnar um mestallt landið, muni fyrst dynja yfir, jafnvel þótt sumt, sem ætlunin er að gera, muni valda miklu stórfelldari spjöllum og skapa mun meiri áhættu en upp er látið nú.

Landsnet keyrir áform sín áfram og það er veifað sæstreng til Evrópu, tugum virkjana og álveri í Helguvík auk fleiri kaupenda raforku, sem flokkast undir hins tilbeiðslukenna "orkufreka iðnaðar".

Allt er það gert undir yfirskini "afhendingaröryggis til almennra notenda", sem er alrangt, því að almennir notendur þurfa ekki svona risavaxnar línur, heldur aðeins stóriðjan.

Risalínan, sem leggja á eftir endilöngum Reykjanesskaganum, á að liggja yfir vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins og nú er greint frá því í fréttum að framkvæmdir muni hefjast í landi fjögurra sveitarfélaga strax í sumar, enda búið að ganga frá því að valtað verði yfir þá, sem dirfast að andæfa þessum framkvæmdum. L'inurnar verða keyrðar í gegn með því að beita eignarnámi og því valdi, sem þurfa þykir að grípa til.

Tónninn var gefinn í Gálgahrauni í fyrra þar sem stærsta skriðbeltatæki landsins með atbeina sextíu lögregluþjóna með handjárn, gasbrúsa og kylfur var beitt til valdbeitingar gagnvart friðsömu fólki við náttúruskoðun, til að valda hámarks óafturkræfum spjöllum á sem skemmstum tíma í þágu þarflausrar framkvæmdar, þar sem framkvæmaleyfi var útrunnið og mat á umhverfishrifum úrelt og ónýtt.

Í ofanálag hafði svo verið búið um hnúta, að lögfesting Árósasáttmálans hér á landi, sem í öllum öðrum Evrópulöndum tryggir lögaðild náttúruverndarsamtaka að framkvæmdum, sem valda miklum og óafturkræfum umhverfisspjöllum, reyndist vera gagnslaust pappírsgagn að dómi Hæstaréttar.

Landsnet pressar nú stíft að fá að vaða um landið með risalínur sínar og líklega helst að fá að valda sem mestum spjöllum á miðhálendinu, sem býr yfir dýrmætustu náttúrverðmætum landsins, af því að við fleiri aðila er að eiga með línu um byggðir landsins, eignarlönd og sveitarfélög heldur en ef farið er um hálendið.  


mbl.is Landsnet sækir um framkvæmdaleyfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

220KV línan sem áformuð er meðfram Reykjanesbrautinni hefur 600MW flutningsgetu.

Núverandi lína hefur uþb 200MW flutningsgetu, hámarksálag á Suðurnesjum er nú uþb 50MW.

Afköst Reykjanes og Svartsengisvirkjana samtals 170MW og því eru að jafnaði flutt rúm 100MW frá Suðurnesjum til Straumsvíkur.

Nýr 100MW raforkunotandi í Reykjanesbæ mun því hafa þau áhrif að álag minnkar samsvarandi um Suðurnesjalínu.

Raforkuöryggi á Suðurnesjum mætti tryggja með nýrri 132KV línu sem að hluta til mætti leggja í jörð í vegaxlir Reykjanesbrautar og tryggja þannig sk. N-2 raforkuöryggi sem felur í sér að tveir hlutar mega bila án þess að rafmagn fari af.

Heiðmerkurlínurnar tvær (Suðvesturlínur)hafa rúm 1.000MW flutningsgetu hvor um sig og áttu að afkast álverum í Straumsvík og Helguvík.

Til Húsavíkur á að leggja tvær 220KV línur með 600MW afköst hvor.

Í Þingeyjarsýslum er þó ekkert í hendi um orkuframleiðslu annað en 90MW á Þeystareykjum.

Bjarnarflag er í fullkominni óvissu vegna mengunarmála og Gjástykki og Dettifoss eru of góður biti í málmbræðslukjaftana.

Ekkert tillit virðist tekið til þess að Húsavíkur og Helguvíkurálver verða aldrei byggð og þau þurfa meiri raforku en er til skiptanna úr nýtingarflokki Rammaáætlunar.

Til þessara staða á þó að leggja línur á 30 metra háum möstrum sem eru í í engu samræmi við orkugetu landsins.

Það er áhyggjuefni að yfirstjórn Landsnets virðist stórlega vanta jarðtengingu.

Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra við flutning raforku.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 14.5.2014 kl. 09:23

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

17.9.2009:

"Kostnaður við fyrstu fjóra áfanga Suðvesturlína verður
um 27 milljarðar króna, miðað við verðlag í janúar 2009 [um 34 milljarðar króna á núvirði], en kostnaður vegna fimmta áfangans liggur ekki fyrir."

Álit Skipulagsstofnunar vegna Suðvesturlína

Þorsteinn Briem, 14.5.2014 kl. 10:22

3 identicon

Ómar hittir naglann á höfuðið eins og oft áður.

Hér kristallast vandinn sem hefur stórskaðað orðspor fagmanna í verkfræðigeiranum.

"Ástæðan er líklega sú, að verkfræðistofan gengur svo hart fram í að þóknast verkbeiðenda, að verkið verður stórgallað."

Það er ámælisvert að orkufyrirtækin, flest í í almannaeigu, stuðli að og viðhaldi svona verklagi.

Trump (IP-tala skráð) 14.5.2014 kl. 12:34

4 identicon

Þorvaldur Árnason er með fína grein á vef Víkurfrétta.

http://www.vf.is/adsent/engin-thorf-fyrir-risa-raflinur/61905

Aðsent | 12. maí 2014 08:35

Engin þörf fyrir risa-raflínur

Í fyrradag sögðu Víkurfréttir frá því að tölvufyrirtækið Advania væri byrjað að reisa stórt gagnaver hér á Suðurnesjum. Stór gagnaver nota mikla raforku (gæti þurft 10 megavött, jafnvel meira). Þá dettur einhverjum í hug að þar með verði brýn nauðsyn að tengja Suðurnesin og höfuðborgarsvæði með fyrirhuguðum 220 kílóvolta raflínum, en því er öfugt farið. Eftir því sem fleiri fyrirtæki af þessari stærðargráðu taka til starfa á Suðurnesjum verða þessar risavöxnu raflínur með öllu óþarfar. Hvernig má það vera?

Flutningur raforku – hvert og til hvers?
Undanfarna áratugi hefur ein 130 kílóvolta loftlína tengt Suðurnesin við höfuðborgarsvæðið og gert það svo vel að hér á Suðurnesjum verður aldrei rafmagnslaust. Lína þessi var mikið framfaraskref á sínum tíma og um svipað leyti voru aðrar raflínur hér um slóðir settar í jörð. Þetta er því eina raflínan sem sést hér á Suðurnesjum auk línu sem liggur í framhaldi af henni í jarðvarmavirkjanirnar í Svartsengi og á Reykjanesi. Upphaflega flutti þessi lína raforku til Suðurnesja en eftir að þessar virkjanir voru byggðar hefur hlutverk hennar verið að flytja rafmagn frá Suðurnesjum, enda selur HS-Orka talsverða raforku til málmbræðslanna á Grundartanga í Hvalfirði. En eftir því sem raforkunotkun á Suðurnesjum eykst minnkar sú orka sem raflínan flytur og betra jafnvægi skapast milli framleiðslu og notkunar raforku hér á Reykjanesskaga.

Landsnet er fyrirtæki (að mestu í almannaeigu) sem flytur raforku milli landshluta og rekur raflínur til þeirra nota. Í áratug hefur Landsnet sótt það fast að fá að byggja tvær risastórar raflínur milli Reykjanesbæjar og Hafnarfjarðar (önnur á reyndar að liggja áfram yfir vatnsverndarvæði höfuðborgarsvæðisins og austur fyrir fjall, en það er önnur saga). Á sama tíma hafa stjórnmálaöfl í Reykjanesbæ og Sveitarfélaginu Garði reynt að fá erlendan auðhring til að reisa gríðarstórt álver í Helguvík, álver sem er enn stærra en álverið á Reyðarfirði sem gleypir þó alla orkuna frá Kárahnjúkavirkjun og meira til.

Áðurnefndar risa-raflínur eru meira en nógu aflmiklar til að fóðra risa-álver í Helguvík.
Nú er óvíst að þetta álver taki nokkurntíma til starfa, jafnvel þótt byrjað hafi verið að byggja yfir það fyrir nokkrum árum. Þær bráðræðis byggingarframkvæmdir stöðvuðust í fyrra og litlar líkur á að þær hefjist á ný. Þessum stóru skálum verður fundið annað hlutverk með tíð og tíma (gætu e.t.v þjónað Helguvíkurhöfn og Keflavíkurflugvelli sem vöruskemmur). Ástæður þess að álverið verður ekki byggt eru hækkandi raforkuverð og lækkandi álverð í heiminum. Ekki hefur tekist að semja um raforku til álversins þrátt fyrir áralangar tilraunir og litlar líkur á að það takist.

Landsnetsmenn hafa aldrei viðurkennt að risavöxnu raflínurnar séu til að þjóna álverinu, heldur séu þær byggðar til að auka öryggi almennra notenda og mæta almennri þróun á raforkumarkaði. Báðar þessar röksemdir eru ótrúverðugar.

Ef raforkuöryggi væri málið, þá væri lagt allt kapp á að setja raflínur um allt land í jörð, einkum í þeim byggðum sem mega árvisst þola rafmagnsleysi dögum og vikum saman þegar raflínur brotna í óveðri. Þetta er mög brýnt verkefni og mikið í húfi fyrir margt fólk og fyrirtæki. Síðustu áratugi hefur raforkuöryggi hvergi verið meira á landinu en hér á Suðurnesjum og því undarlegt að verja milljörðum til að auka öryggið hér.

Fyrrnefnd frétt um nýtt gagnaver við Ásbrú er enn eitt dæmið sem sýnir að þörf fyrir flutning raforku milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins fer ekki vaxandi heldur minnkandi. Að vísu gæti hún aukist á ný ef byggðar verða fleiri jarðvarmavirkjanir yst á Reykjanesskaga, en þó svo verði verður alls engin þörf fyrir svo stórar, afkastamiklar og dýrar raflínur. Núverandi lína myndi að líkindum ráða við það, en til að auka enn öruggið væri skynsamlegt að byggja aðra130 kílóvolta línu og hafa hana jarðstreng í jaðri Reykjanesbrautar eins og nú þegar er heimild fyrir í aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga.
Sú framkvæmd hefði þrennt fram yfir fyrirhugaðar tvær nýjar 220 kílóvlta loft-raflínur:
1. Miklu minni sjónmengun.
2. Meira öryggi.
3. Minni kostnað. (ekkert bruðl).
Undarleg þráhyggja
Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið eru litlar líkur á að það verði stórfeldir raforkuflutningar milli Reykjanesbæjar og höfuðborgarsvæðisins. Forsvarsmenn Landsnets hafa upplýst að fyrirtækið sé að endurmeta áætlanir sínar um jarðstrengi og kostnað þeim fylgjandi. Því er erfitt að skilja það kapp sem Landsnet leggur á að byggja 220 kílóvolta raflínur.

Enn furðulegra er að ráðherra skuli hafa heimilað eignarnám á þeim jörðum í Sveitarfélaginu Vogum sem ekki hafa viljað afsala landi undir tvær óþarfar risa-loftlínur. Landeigendurnir reyna að fá eignarnáminu hnekkt fyrir dómi. Í því máli hlýtur framsýnt fólk að styðja málstað landeigendanna, óháð því hvað því almennt finnst um einkaeignarrétt á landi.



Þorvaldur Örn Árnason
náttúrufræðingur og íbúi í Vogum.


Frekari upplýsingar t.d.:
http://www.vf.is/frettir/gagnaver-ris-vid-patterson-flugvoll/61875
http://nsve.is/?p=303
http://www.sudvesturlinur.is/is/

Karl J. (IP-tala skráð) 14.5.2014 kl. 13:58

5 identicon

Reynslan hefur sýnt að verulega hefur skort á fagmennsku og upplýsingagjöf Landsnets um flutningskerfið og kostnað við strenglagnir.

Í skýrslu Norsku Orkustofnunarinnar (NVE) frá 2011 segir þetta um Landsnet:

"...the TSO (Landsnet) is allowed to be managed horribly, on a continuous basis, without necessary interference from NEA (Orkustofnun)."

Skýrsluna í heild má finna á heimasíðu Orkustofnunar en um þá stofnun segir í skýrslunni:

..."outrageous, beyond professionalism, and well beyond acceptable limits."

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 14.5.2014 kl. 14:15

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

10.5.2013:

Skipulagsstofnun: Kísilver í Helguvík þarf 130 MW þegar það er komið í fulla stærð, sjá bls. 4


Norðurál:
"Álver í Helguvík þarf 625 MW þegar það er komið í fulla stærð."


Álver í Helguvík þyrfti því
um fimm sinnum meiri raforku en kísilver á sama stað.

Og samtals þyrftu álverið og kísilverið 755 MW.

Þorsteinn Briem, 14.5.2014 kl. 15:01

7 Smámynd: Jón Logi Þorsteinsson

Djöfuls þvæla er þetta í þessum málaflokki. Eru virkjana og línumenn í kapphlaupi til að sanna á sig vitleysuna með því að efna allar hrakspár, svo og það sem þóttu djarfar fullyrðingar Andra Snæs í Draumalandinu?
Þarna vantar sko illilega jarðtengingu.

Jón Logi Þorsteinsson, 14.5.2014 kl. 16:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband